Bloggfærslur mánaðarins, maí 2006

Skuldur og neysluskuldir bandaríkjamanna...

Það hefur töluvert verið fjallað um skuldir Bandaríkjamanna undanfarið. Annarsvegar hafa ríkisskuldirnar farið fram úr öllu hófi - en það sem veldur hagfræðingum þó meiri áhyggjum eru skuldir bandarískra heimila. Ríkisskuldir eru nefnilega annars eðlis en skuldir einstaklinga, sérstaklega þegar haft er í huga að ríkið prentar sjálft sína eigin peninga og skammtar sér tekjur. Ef stjórnvöld vestra kjósa gætu þau hækkað skatta, eða fellt dollarinn, eða á annan hátt gert út um skuldir sínar á tiltölulega stuttum tíma... stjórnmálamenn hafa val um hvort þeir safna skuldum eða ekki.

Það hefur verið almennt álitið að hið sama gildi um almenning: skuldasöfnun bandarískra heimila (líkt og íslenskra) hefur þannig verið skrifuð á reikning einhvers óskilgreinds 'neysluæðis'. Almenningur á þannig að hafa tapað stjórn á kreditkortanotkun sinni, keypt sér jeppa, stór sjónvörp, dvd græjur, ný teppi og eldhúsinnréttingar...

Nýleg skýrsla Bandaríska Seðlabankans sýnir hins vegar að þessi mynd er alröng. Skuldir bandaríkjamanna hafa ekki vaxið sökum óhófseyðsu, heldur hafa heimilin verið að skuldsetja sig til þess að borga fyrir lífsnauðsynjar.

Í bandaríkjunum er oft talað um að ódýrar neysluvörur frá Kína í sömu andrá og talað er um eyðslu og skuldsetningu heimilanna. Fyrir vikið er hægt að mála skuldsetningu heimilanna í frekar rósrauðum lit - um leið og bandaríkjamenn séu að skuldsetja sig eru þeir að 'lifa lífinu' - en samkvæmt rannsóknum the Center for American Progress er hægt að skýra skuldir heimilanna að fullu með hækkandi verði sjúkratrygginga, menntunar, eldsneytis og annarra heimilsnauðsynja. Tryggingar og skólagjöld hafa hækkað um 10-15% á ári undanfarin ár. Þegar haft er í huga að í Bandaríkjunum þurfa foreldrar að borga himinhá skólagjöld fyrir háskólamenntun barnanna - tiltölulega ódýrir háskólar kosta á milli 500.000 kr og 1.200.000 krónur á ári (og svo væla háskólanemar á íslandi yfir nokkurþúsund króna skólagjöldum!) og sjúkratryggingar kosta meðalfjölskylduna um 7-800.000 krónur á ári, er ljóst að það getur ekki riðið baggamuninum hvort að venjulegt millistéttafólk kaupi sér nýjan dvd spilara - sem ekki kostar kannski 10.000...

M


Getuleysi og ofstjórn

Í nýlegri grein á slate.com (http://www.slate.com/id/2141588/) fjallar Jacob Weisberg um hvernig fyrsti MBA forseti Bandaríkjanna virðist gersamlega ófær um að reka ríkisstjórn - hann hafi umkringt sig af vanhæfum apaköttum á borð við Brownie sem fékk að stjórna FEMA. Weisberg kemst að þeirri niðurstöðu að sennilega sé hér ekki um að ræða einfalt getuleysi eða vanhæfni, heldur sé þetta líklega partur af stærra plotti, nefnilega að grafa undan ríkinu með því að keyra út allt hæft starfsfólk, og fylla þess í stað stjórnunarstöður af gersamlega vanhæfu fólki. Það hljómar reyndar mjög sannfærand: Í stað þess að leggja til beinnar atlögu við alríkisstjórnina hafi Republikanar kosið að eyðileggja ríkið innanfrá: gera gat á ríkissjóð og eyðileggja tilrú almennings á öllum ríkisstofnunum.

Ég hef ákveðna tilhneygingu til að kaupa þessa skýringu, nema hvað það er ýmislegt sem mælir gegn henni - nefnilega helst að það bendir allt til þess að forsetinn og helstu áhangendur hans séu of vitlausir til að geta kokkað upp jafn umfangsmikið plott. Einfaldari skýring, og mun trúverðugri, er einfaldlega að Bush og nánustu stuðngingsmenn hans kunni ekki að greina á milli hugmyndafræði og hæfileika. Í öllum embættisveitingum virðist hugmyndafræði og persónuleg tryggð ráða öllu.

Samsærisniðurstaða Weisberg er reyndar meira grín en alvara - því hann bendir einnig á að Bushstjórnin minni meira á hirð en ríkisstjórn í lýðræðisríki, og ef marka má nýleg ummæli W, um að bróðir hans Jeb myndi verða 'great' eða 'awfully good president' (sjá Washington post 11 maí), og svipuð ummæli George Bush eldri, er það akkúrat áætlun þessara manna - að koma upp ættgengu, imperial presidency.

M


Lögregluríki Norður Ameríku

Í dag og í gær hafa bandarískir fjölmiðlar og bloggarar um fátt annað talað en stórfellt njósnaapparat Bandaríkjaforseta. Fyrir um fimm mánuðum síðan kom í ljós að Bushstjórnin hafði skipað umfangsmikla símhleranaherferð. Það sem vakti gremju var að forsetinn kaus að fara framhjá lögum og reglum um innanlandsnjósnir, þannig að ekki var leitað eftir dómsúrskurðum fyrir hlerununum. Þetta prógramm hefur síðan verið kallað annað hvort "warrantless domestic spying program" eða "the terrorist surveillance program" eftir því hvar í pólitík menn standa. Á sínum tíma varði forsetinn og já-menn hans þetta prógramm með því að það væri mjög þröngt skilgreint, og að það beindist alls ekki að venjulegum bandaríkjamönnum - forsetinn róaði fólk með því að segja að ef fólk hefði ekki nein tengsl við Osama eða frændur hans og bandamenn í Afghnistan eða aðra þekkta hryðjuverkamenn hefði það heldur ekkert að óttast... Stuðningsmenn forsetans gagnrýndu demokrata og aðra sem höfðu áhyggjur af því að forsetinn væri að brjóta lög og stjórnarskrá landsins, með því að kalla þá móðursjúka - 'the paranoid left' væri að þyrla upp moldviðri í kringum eitthvað sem ekkert væri.

svo kom í ljós að demokratarnir höfðu á réttu að standa allan tímann! Nú hefur nefnilega komið í ljós að forsetinn hefur fyrirskipað NSA (The national security agency) að safna upplýsingum um símtöl tugi milljóna bandaríkjamanna - og aftur segir forsetinn og republikanar að þetta sé allt í besta lagi, það geti varla neinn haft áhyggjur af því að ríkið fylgist með því hver hringi í hvern, og safni upplýsingunum í gagnagrunn...

Það sem kannski er skuggalegast er að þetta virðist vera partur af stærra mynstri: Fyrir fáeinum mánuðum reyndu stjórnvöld að fá google og önnur internetleytarfyrirtæki til að afhenda sér upplýsingar um internetleitir fólks. Maður spyr sig: hvaða tilgangi getur það þjónað að ríkið safni upplýsingum, ekki bara um hvað maður leiti að á internetinu, heldur í hverja maður hringir? Og þegar það liggur ljóst fyrir að sömu stjórnvöld vila ekki fyrir sér að hlera símtöl án dómsúrskurðar hlýtur manni að fara að renna kalt vatn milli skinns og hörunds.

Það getur verið að það sé hægt að réttlæta að ríkisvaldið haldi úti stórfelldum gagnagrunnum um borgarana - og það getur verið að hægt sé að réttlæta stórfellda gagnabanka af þessu tagi ef allar upplýsingar eru blindar, þ.e., símanúmerin séu ekki tengd við nöfn eða kennitölur osfv. Við Íslendingar fórum í gegn um álíka umræðu um gagnagrunna þegar decode vildi kortleggja allar sjúkraskrár landsmanna. Það sem hins vegar gerir þetta nýjasta njósnamál í bandaríkjunum skugglegra er að það virðast sem núverandi stjórnvöld telji að þau þurfi ekki að fara eftir neinum reglum - því í dag bárust fréttir af því að nefnd sem skipuð var af dómsmálaráðuneytinu að kröfu þingsins til að rannsaka fyrra njósnahneykslið - símhleranir NSA - hefur hætt störfum. Og ástæðan: nefndin hefur ekki fengið leyfi stjórnvalda til að kanna nein gögn, eða yfirheyra þá sem komu að njósnunum. 

Nú er svo komið að Cato stofnunin (sjá http://www.cato-at-liberty.org/?s=surveillance) er farin að hafa áhyggjur af hegðun Bush stjórnarinnar, og af góðri ástæðu, því það bendir allt til þess að það sem "hýsterískir" vinstrimenn hafa verið að halda fram um forsetann öll þessi ár, að hann sé ekki bara vanhæfur og vitlaus, heldur að hann sé líka fasisti, sé sennilega rétt...

M


Nú, það þjóðargjaldþrot við $10 trilljónir, ekki 8...

 Fréttir af ríkisfjármálum og skuldum eru yfirleitt ekki efst á leslista fólks, og svo hafa tölur ákveðna tilhneygingu til að skapa þoku og áhugaleysi hjá fólki. En maður kemst varla hjá því að klóra sér í hausnum þegar fréttir af áætlunum bandaríkjaþings um að hækka lögbundið hámark skuldasöfnunar bandaríska ríkisins upp í 10 trilljónir bandaríkjadala... (Trilljón í USA er 1.000 milljarðar. Þetta eru því skitnar 10 þúsund milljarðar dollara, sem jafngildir uþb 700 þúsund milljörðum króna.) Þegar núverandi stjórnvöld komust til valda var lögbundið hámark ríkisskulda 5.95 billjónir.

Nú á sama tíma berjast repúblíkanar við að reyna að selja sjálfa sig sem einhverskonar 'fiscal conservatives' í augum almennings - sem varðhunda almannafjár. Hvað sem öðru líður kemur að skuldadögum, fyrr en síðar, og þegar kemur að því að ákveða hver fái að borga skuldirnar verður ekki gaman að vera pólitíkus...

Another Possible Bump to the Debt Ceiling:

http://www.washingtonpost.com/wp-dyn/content/article/2006/05/08/AR2006050801425.html


Nytt Narrative fyrir Bandarikin

Síðan í upphafi níunda áratugarins hafa bandarísk sjórn og samfélagsmál verið dómineruð af íhaldsmönnum. Undir leiðsögn Ronald Reagan komust republikanar til valda, og hafa verið við völd síðan. Að vísu hafa demokratar haft Hvíta húsið og meirihluta í þinginu og öldungadeildinni á undanförnum tveimur og hálfum áratug, en það er enginn vafi á að republikanar hafa haft efri höndina allan þennan tíma.

Það er hefð fyrir því að tímasetja núverandi meirihluta íhadsaflanna á miðjum tíunda áratugnum þegar 'ungir' republikanar undir leiðsögn Newt Gingrich tóku meirihluta í þinginu sem hafði verið í höndum demokrata í meira en mannsaldur. Þessi 'republican revolution of 94' var þó ekki annað en hápunktur umbyltingar sem hófst mun fyrr - umbyltingar sem Reagan á heiðurinn að. Því þótt 'the gipper' sé af flestum öðrum en republikönum álitinn hálfgert skoffín, átti hann þó heiðurinn að einhverri merkilegustu endurskrifun pólitíska landslagsins í bandaríkjasögu. Reagan tókst að sameina öll hægriöfl bandaríkjanna - frá frjálshyggjumönnum, til stækustu afturhaldsaflanna. Því þó það sé viðtekinn 'sannleikur' að vinstrimenn séu í eðli sínu sundurlyndir og hægrimenn séu samheldinn hópur, á þetta alls ekki við um Bandarísk hægriöfl. Það er haf og himinn á milli heimsmyndar frjálshyggjumanna og trúarofstækisaflanna sem hafa stutt Republikanaflokkinn. Galdur Ragan var að tjalda upp 'the big tent' sem allir gátu búið í sátt og samlyndi undir. Eða í það minsta sleppt því að rífast, og sameinast um aðeins eitt markmið: að komast til valda.

Límið sem hélt þessu tjaldi saman var í stuttu máli 'menningarstríðin' eða 'the culture wars' sem hafa verið rauður þráður í bandarískjum stjórnmálum síðan á sjöunda áratugnum. Það er of langt mál að rekja sögu þessara átaka hér, en í þessu 'stríði' gátu mjög ólík öfl á hægrivængnum fundið sameiginlegar víglínur, og snúið vörn í sókn gegn vinstrimönnum sem höfðu, ef svo má segja 'overreached' í sókn sinni fyrir frjálslyndum umbótum.

Útlendingar eiga oft erfitt að skilja íhaldssemi bandaríkjamanna - og ímynda sér að á bak við hana sé einhver einn straumur, einhver einn þráður. Þegar kemur að því að skilja úr hverju þessi þráður sé buinn til enda sjálfumglaðir evrópubúar yfirleitt á klassísku skýringunnu um fáfræði og fyrringu bandarísks samfélags. Frá sjónarhorni Evrópu er bandarískt stjórnmálalandslag nokkuð einfalt: annarsvegar er það Bush, sem stendur í huga Evrópubúa fyrir heimsku, fyrringu, stríðsgleði, og gott ef ekki græðgi og almenna íllsku bíblíuveifandi, byssueigandi og hamborgaraétandi þjóðar. Á hinn bóginn eru það demokratar og einhver ílla skilgreind framfaraöfl. Bill Clinton fékk að vera ímynd þessara framfaraafla í hugum evrópumanna. Þetta er hins vegar alröng heimsmynd. Það er ekkert í 'þjóðarsál' bandaríkjanna sem skýrir fylgi Republikanaflokksins, nema ef vera skyldi að þeim tókst, með einhverjum óskiljanlegum hætti (stjórnmálaskýrendur í USA hafa ekki enn getað skýrt þetta fyrirbrigði með sannfærandi hætti) að hitta á strengi sem snertu meirihluta kjósenda. Demokratar hafa hins vegar ekki enn getað fundið neitt sambærilegt.

Það er full ástæða til að rifja þetta allt upp núna, því að á undanförnu ári eða svo hafa viss merki verið að koma fram um að það séu að verða söguleg umskipti í bandarískri stjórnmalasögu - en eins og öll söguleg umskipti ganga þau frekar hægt, og það er enn engin leið að segja hvort að þau gangi yfir í kipp eða ekki, og það er sömuleiðis ennþá ómögulegt að segja hvort að demokratar geti snúið þessum umskiptum sjálfum sér til góða. Í dag birtist í New York Times grein um leit þeirra að nýu 'narrative' til að bjóða kjósendum upp á. Í stuttu máli sagt, hafa demokratar ekkert almennilegt narrative upp á að bjóða: þeir hafa enga pólitíska sýn. Það er ekki pólitísk sýn að bola spilltum pólitíkusum úr embætti, það er jafnvel ekki pólitísk sýn að vilja velta vanhæfum apaketti úr stóli forseta.  Ég held að lykillinn liggi í að demokratar finni leið til að sameina frjálslyndu öflin - og með því á ég ekki við 'vinstrimenn', því vinstrivængur stjórnmálanna er þéttsetinn af allskonar radikölum, vinstri-grænum og öðrum afturhaldsöflum. Fólki sem vill rúlla 'nútímanum' eins og hann leggur sig, með iðnvæðingunni, neyslu og fjöldasamfélaginu, til baka. Anti-glóbalization anarkistarnir eiga um markt mun meira semeiginlegt með milleneríustum í republikanaflokknum en með venjulegm blue-collar kjósendum demokrata. Innan Republikanaflokksins er hins vegar breið fylking frjálslyndra afla, sérstaklega meðal frjálshyggju-armsins. Log cabin republicans eiga í raun sanni ekkert sameiginlegt með the religious right. Það er þetta óeðlilega bandalag sem Demokratar þurfa að kljúfa.

En þetta get demokratar sennilega ekki. Og það er engin von til þess að önnur stjórnmálaöfl geti það heldur. Flokkur frjálshyggjumanna, sem að vísu er þriðji stærsti stjórnmálaflokkur Bandaríkjanna, er í höndunum á ideológískum púritönum og smábörnum. En það er þó engin ástæða til að vanmeta frændur okkar fyrir vestan haf. Þó herir evrópskra kverúlanta hafi haft fulla vinnu og jafvel laun frá háskólum, við að úttala sig um heimsku Bandaríkjanna hefur könunum þó tekist að búa til eitt stærsta, stöðugasta og frjálsasta smafélag vesturlanda.

M


NASA brennir peningum

Í tilefni nýlegra frétta um að NASA sé fjársvelt og geti ekki staðið undir kjarnaverkefnum sínum, fannst mér þessi frétt úr The Onion viðeigandi:

 'NASA Announces Plan to Send $700 Million Into Space'

http://www.theonion.com/content/node/47977

Það er svo rétt að rifja upp gamla frjálshyggjukommentið, NASA eyddi milljörðum í að hanna kúlupenna sem gat skrifað í þyngdarleysi, Rússarnir notuðu blýanta... Hitt er svo annað mál að Bandaríkin eru enn til, meðan Sovét leið undir lok.  

M


'Starve the Beast'

Það hefur verið vinsælt 'rak' hjá sumum íhaldsmönnum í Bandaríkjunum að skattalækkanir væru afskaplega góð pólitík, vegna þess þær neyddu stjórnvöld til þess að skera niður útgjöld - og það væri því vísasta leíðin til þess að draga saman ríkisvaldið. Þessi pólitík hefur verið óspart rekin af núverandi stjörnvöldum, og svo ósparlega hafa þeir rekið þessa pólitík að Bushstjórninni, sem fyrst sökkti Bandaríkjaher í kviksyndi Iraks, hefur líka tekist að sökkva Bandaríkjunum í skuldafen.

Skattalækkanir Busstjórnarinnar voru fyrst réttlættar á þeim forsendum að þær myndu koma efnahagslífinu til góða, og almennir skattgreiðendum var sagt að þeir myndu fá myndarlegar endurgreiðslur frá ríkinu. En um leið voru skattalækkanirnar seldar á hugmyndafræðilegum forsendum sem fyrsta skrefið til þess að skera niður ríkisvaldið. Ef þingið og eyðslugjarnir stjórnmálamenn hefðu ekki peninga skattgreiðendanna til að vasas með, myndi þeim nauðugur einn kostur að skera niður útgjöld... Eða þannig átti þetta að ganga fyrir sig. Það kom hins vegar í ljós að stjórnmálamenn, Bush meðtalinn, hafa meiri áhuga á eigin skinni en hugmyndafræði, eða akademískum spurningum á borð við skuldir þjóðarinnar. Ein eða tvær trilljónir? Hverju munar þá að eyða 800 milljörðum í viðbót? Sennilega engu.

Það hefur alltaf verið kórsöngur allra hægrimanna að ríkisskuldir væru alveg sérstaklega hættulegar, og ábyrgðarlausar - það hefur átt að vera höfusynd vinstrimanna að þeir vilji eyða og spenna, og stofna til skulda... Og um þetta höfum við skynsamir menn alltaf verið sammála, það er frekar slæmt að eyða um efni fram, og það er frekar ábyrgarðlaust að eyða og senda komandi kynslóðum reikninginn.

Í gær birtist áhugaverð Op-ed grein eftir Sebastian Mallaby í Washington Post, þar sem hann fjallar um nýlega skýrslu Niskanen hjá Cato Institute - en hún er aðein eitt af mýmörgum dæmum um að vitibornir hægrimenn séu að vakna til sjálfstæðis, og þori að segja sannleikann um bandaríkjaforseta, að hann sé eins og kóngurinn í sögunni, berrassaðaur.

http://www.washingtonpost.com/wp-dyn/content/article/2006/05/07/AR2006050700924.html?referrer=email

M


Freedom Fries

Titillinn hefur alls ekkert með innihaldið að gera. Og svo er kannski líka spurning hversu mikið innihaldið hefur með sjálft sig að gera. Nema kannski helst að það er innihald- ólíkt flestum bloggsíðum sem snúast aðallega um sjálfhverfu höfundarins, óspennandi hversdagslegt amstur og annað sem ég hef aldrei skilið að nokkur heilvita manneskja geti haft áhuga á. Markmiðið er að halda úti heimasíðu og skrifum um nokkur helstu áhugamál mín, nefnilega bandarísk stjórnmál, neyslusamfélagið og einstaklingsfrelsi. Það er kannski þaðan sem titillinn kemur.

Svo er líka ætlun mín að segja sem allra minnst um íslensk stjórnmál. Það er nóg heimasíðum haldið úti um borgarstjórnarmál, framsóknarmenn og annað þessháttar. Í staðinn ætla ég aðallega að skrifa um bandarísk málefni, og alþjóðamál. Og til þess að það sé alveg ljóst, þá eru stjórnmálaskoðanir mínar fyrst og fremst einstaklingsfrelsi og markaðsfrelsi, en nóg um það.

M


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband