Færsluflokkur: Bloggar

Gleðilegt ár!

Hevenly Host - öll börn í kirkjunni, yngri en 8 ára fengu að vera englar, og það var einn endalaus englaskari sem marseraði inn kirkjugólfið á aðfangadag.jpg

Gleðilegt nýtt ár frá Minnesota! Ég ákvað að breyta út frá venju og láta nýársfærsluna snúast um mig og fjölskylduna. Mér finnst ágætt að halda sjálfum mér, konunni og börnunum fyrir utan bloggið (við eigum enga ketti, svo ég get hvort sem er ekki staðið í hefðbundnu kattabloggi!). Ég kann nefnilega einhvernveginn ekki við að börnin mín séu í félagsskap með Mark 'Maf54' Foley, og svo finnst mér einhvernveginn hálfpartinn óviðkunnanlegt að vera að blogga um hvað við höfðum í kvöldmatinn á sömu síðu og ég tala um grallaraskap og sprell George Allen með dádýrshöfuð...

Jólin í Minnesota voru semsagt alveg hreint stórfín. Okkur hjónunum var boðið í fancy jólapartí hjá nágrönnunum, þar sem ég lenti langri samræðu við kokkaskólakennara, sem sannfærði mig um að franskir kokkar væru betri en allra annarra þjóða kokkar, vegna þess að þeir kunna að elda með olíu og smjöri. Konan mín ákvað að hann yrði að koma með okkur heim að kjafta þegar partíið var búið, sem við og gerðum, og kokkurinn heimtaði að fá að sjá hvað við hefðum í ísskápnum. Hann var ánægður með að við versluðum í Whole Foods, og hrifinn af allri organíkinni - en mjög æstur yfir því að við gæfum börnunum Trix jógúrt... og svo eyddi hann afganginum af kvöldinu í að tala um umhverfisvernd (sem ég var mjög sammála - en hann of drukkinn til að geta lækkað sannfæringarhitann) og bissnesshugmynd sem hann er með um all-organic fast food keðju, sem við konan höfum oft talað um: Hvað væri betra í þynkunni en all organic hamborgarar?

Mamma kom í heimsókn til okkar yfir jólin. Við fórum og horfðum á dóttur mína í jólaleikriti kirkjunnar okkar sem fjölskyldan sækir á hverju einasta sunnudagsmorgni. (Þetta er The Unitarian Universalist Church, sem boðar ást og umburðarlyndi - og kirkjur og kirkjusókn hefur allt aðra merkingu hér í Bandaríkjunum en heima á Íslandi: það eru ekki allir sem sækja kirkjur "orthodox" eða bókstafstrúar mannhatarar, þó það virðist stundum þannig þegar maður fylgist með bandarískum trúmálum!) Hún lék "heavenly host" - myndin að ofan er af henni í leikbúningnum, og kórinn söng "Immanuel" (sem ég setti í tónlistarspilarann hér til hliðar í útsetningu Belle og Sebastian, sem er sennilega besta útsetningin á því lagi, þó Unitarian kórsins hafi líka verið mjög falleg. Ég bið fólk að afsaka Darryl Worley "Have you forgotten" - það er gott lag, og bæði svolítið disturbing og stórfyndið, en átti að vera með annarri færslu! Einhvernveginn hefur mogganum ekki tekist að setja þetta tónlistarspilarakerfi þannig upp að ég geti eytt mp3-files út... En Worley er fyndinn, og nei, "I have not forgotten!").

Við elduðum kalkún (aftur organískan - líka vegna þess að þeir eru margfalt betri á bragðið en hormónasprautuðu verksmiðjukalkúnarnir) á aðfangadag, sem ég missti af vegna þess að ég fékk hörmulega ælupest, sem síðan lagðist á hvern fjölskyldumeðlim á fætur öðrum! Börnin voru ánægð með jólagjafirnar, ég fékk Half Life 2 frá syni mínum sem við höfum síðan spilað saman. Ég held ég hafi ekki skemmt mér jafn vel yfir tölvuleik síðan ég spilaði Marathon fyrir mörgum árum. Reyndar eyddi ég einni heilli nótt rétt fyrir crucial Morfís keppni í að spila Marathon, frekar en að laga ræðuna mína - þó Friðjón hafi verið búinn að heimta styttingar hér og þar... en mig minnir að við höfum nú samt unnið). Síðan horfðum við á Lord Of The Rings extended versions, og svolítið Firefly (sem er besta Sci-Fi sem sögur fara af!).

Það versta við hátíðirnar hér í Minnesota er að flugeldar eru bannaðir í fylkinu. (Bandaríkjamenn elska nefnilega ekkert síður en íslendingar, sbr. hundana og bjórinn... að banna alla skapaða hluti!) Við urðum að láta okkur nægja að brenna litla goselda og blys. Sem var að vísu alveg nóg fyrir krakkana, því að þau hafa ekki séð flugeldavitfirringuna á Íslandi síðan þau voru lítil.

Og í tilefni áramótanna finnst mér viðeigandi að setja upp "Best of" lista - því "Best of" listar virðast vera orðnir fastur liður í vestrænni menningu: allir fjölmiðlar birta einhverskonar best of lista um áramótin. Og þar sem FreedomFries er einhverskonar fjölmiðill, fannst mér tilvalið að setja upp "best of" lista heimilisins (þ.e. það sem okkur fannst best af því sem við lásum eða hlustuðum eða horfðum á á árinu)

Bækur ársins:

  • Erik Larson, Devil in the White City (Sem er sagnfræði - en ekki síður spennusaga - um heimssýninguna í Chicago 1893 og fjöldamorðingja sem er fyrirrennari, eða fyrirmynd Hannibal Lecter)
  • Jeannette Walls, The Glass Castle (Fyrir alla sem lásu James Frey og fylltust skelfingu yfir lygaþvælunni - því allt sem Walls skrifar er raunverulega satt, og líka milljón sinnum betur skrifað!)
  • Julíus Sesar, Bellum Gallicum (Sem betur fer áttum við Gallastríðin uppi í hillu, svo þegar við vorum öll upprifin yfir að horfa á HBO sjónvarpsþættina Rome gátum við lesið okkur til um snilli Sesar. Konan mín tók bókina með á the Ahlmans compound, þar sem við keyrðum T-34 skriðdreka í haust, og skutum úr vélbyssum, (einhverra hluta vegna fannst henni það ekki alveg jafn spennandi og mér og syni mínum!) - og einn af starfsmönnunum spurði okkur hvort við værum frá Belgíu: "Nei, af hverju spyrðu" "Nú, af því að þið eruð að lesa bók um Belgíu" svaraði maðurinn. - Og ef einhver er á leið til Minnesota næsta sumar mæli ég eindregið með því að menn heimsæki Chris og Skriðdrekann - og skilið kveðju frá mér!
  • Sylvia Nasar, A Beautiful Mind (Ævisaga John Nash, sem fann upp leikjafræði, og nóbelsverðlaunahafa í hagfræði, miklu betri en myndin - þó Crowe hafi verið flottur sem Gladiator!)
  • Andri Snær Magnason, Draumalandið (Sem pabbi gaf mér í vor þegar ég var í heimsókn á Íslandi - Ég hef alltaf haft mikla trú á Andra Snæ síðan við vorum saman í MS)
  • Walter Tevis, Maðurinn sem féll til jarðar (Þó hún sé hundgömul er hún allsendis profound og frábær!)
  • Andrew Solomon, The Noonday Demon, An Atlas of Depression (Fyrir þá sem þekkja eða hafa þekkt þunglynt fólk!)
  • Joshua Wolf Shenk, Lincoln's Melancholy (Sem er frábær stúdía um Lincoln, einn flóknasta og besta þjóðarleiðtoga fyrr og síðar)
  • TS Eliot, The Wasteland (Þó ekki nema vegna þess í partíi sem við héldum gaf konan mín kunningja okkar bókina, og stuttu seinna, í öðru partíi, játaði hann henni ódauðlega ást sína - sem hefði verið nógu dramatískt, svona eitt út af fyrir sig, hefði það það partí ekki verið steggjapartí hans... næstu helgi fórum við samt í brúðkaup hans og allt gekk að óskum. Það eru víst allskonar ástir og dramatísk örlög, upphlaup og tilfinningarót hjá doktorsnemum í sagnfræði!!! - og sú uppákoma var tvímælalaust partíuppákoma ársins. Will hefur séð okkur á sjöundu hæð Social Sciences Tower fyrir fullt umræðefnum undanfarin tvö ár - þartil hann ákvað að gifta sig og droppa út úr prógramminu.

Sjónvarpsþættir

  • Rome Season 1 (Áfram siðmenningin! Áfram Markús Antónius! - og eftir að hafa horft á Rome er Gladiator með Crowe milljón sinnum skemmtilegri.)
  • Deadwood season 2 (Al Sweringen er kannski ekki góður við konur - en hann er samt tvímælalaust best lesna og best máli farna íllmenni í bandarísku sjónvarpi.)
  • Firefly (sem er, eins og ég sagði reyndar rétt áðan, langsamlega besta sci-fi allra tíma! Því miður var bara gerð ein sería - en það var líka gerð kvikmynd Serenity - sem virkar eins og framhald á þættina. Núna er allt Sci-Fi community í Bandaríkjunum að bíða eftir að því það verði gerðar fleiri Firefly kvikmyndir.)
  • The Dave Chappelle Show (Dave Chapelle er comic genius! Þó ekki væri nema vegna Lil John eftirhermunnar: "WHAT? WHAT? WHAT? YEYYYYY!")
  • Og auðvitað South Park og Curb Your Enthusiasm.

Sjónvarpsþáttastjórnandi: 

  • Bill Maher (þó Colbert sé kannski fyndnari er Maher bara svo djöfullega klókur - og svo er hann líka Libertarian!)

Útvarpsþáttur:

  • This American Life (Eins og ég sagði um daginn - þá veitti Ira Glass, sem stýrir This American Life, mér alveg nýja sýn á þetta land, sem í búa 300 milljón manns, og það eru ekki allir kanar alslæmir!)

Útvarpsstöð:

  • RadioK (háskólaútvarp UofM, og langsamlega besta háskólaútvarp í Bandaríkjunum - samkvæmt Rolling Stone - og aðgengilegt á netinu. Þeir eru með ótrúlega gott og fjölbreytt tónlistarval. Ef maður hlustar á bandarískt gítarrokk, indíe og pönk, þ.e.)

Svo óska ég Pétri (hux) mági mínu innilega til hamingju með barnabarnið! Bestu kveðjur!

M

já - og ég uppfærði ljósmyndina af sjálfum mér undir færslunni "um höfundinn". Bæði konunni og mömmu fannst gamla myndin ómuguleg. Mömmu fannst ég líta út eins og "talibani" og Sollu eins og ég væri einhver marxískur tímaferðalangur, að bíða eftir að komast í rökræðu við Trotský...  en skeggið sem ég lét vaxa í sumar var orðið þreytt einhventímann í september!


Meira um mann ársins, þ.e. bloggarar og blogglesendur: alltsaman djöfuls narssissismi...

Þú þarna þú - kauptu eintak af þessu merkilega fréttablaði - það er um ÞIG.jpg

Það hafa sennilega flestir blogglesendur tekið eftir því að Time magazine útnenfndi þá "menn ársins" - ritstjórum Time þótti að lesendur veraldarvefjanna væru það mikilvægt fólk að þeir ættu, allir með tölu, rétt á þessari merkilegu nafnbót: maður ársins.

En það eru ekki allir jafn upprifnir yfir þessari útnefningu. George Will, sem er annálaður kverúlant og sjálfhverfungur, og er þessutan dálkahöfundur fyrir Washington Post (ég skrifaði nýlaga þessa færslu um orðhengilshátt Will) lýsti því t.d. yfir á ABC að bloggarar væru upp til hópa frekar ómerkilegt og narssissískt fólk:

It’s [blogging] about narcissism, which is why a mirror is absolutely perfect. So much of what is done on the web is people getting on there and writing their diaries as though everyone ought to care about everyone’s inner turmoils. I mean it’s extraordinary.

Ég hef svosem lesið eitt eða tvö blogg sem ganga út á narssíska sjálfskoðun, sjálfspeglun og vangaveltur um innra sálarlíf og tilfinningarót á borð við þá sem Will George hatar svona hræðilega mikið. En ég veit ekki hvort það sé endilega rétt að blogospherið allt sé einhverskonar allsherjar egómanía.

Það sem er kannski merkilegast er að bandarískir stjórnmálabloggarar veittu þessu ummælum Will eiginlega meiri athygli en útnefning Time á manni ársins. Og svo virðist sem bloggarar séu frekar sammála Will en hitt! (þ.e. fyrir utan hörðustu liberal bloggerana sem er í nöp við Will af því að hann er Repúblíkani) Yfirleitt hafa bloggarar nefnilega tekið frekar kuldalega, eða kannski frekar kaldhæðnislega, í þessa útnefningu Time. Sjá t.d. Wonkette/Gawker, sem sér í þessari útnefningu Time tilraun til að höfða til sjálfhverfu allra netverja. 

Coulmbia Journalism Review fjallar um þessi sérkennilegu viðbrögð blogsphersins í grein í morgun:

Oddly, bloggers don't seem as tickled by the honor as we might have expected. Most write the story off as a cop-out, suggesting that Time is simply pandering to advertisers, and that the story is either old news or just not newsworthy.

M


Veraldarvefirnir og stjórnmál

Það er líka hægt að flytja pervertískar langanir og þrár miðaldra manna í gegnum veraldarrörin.jpg

Í Washington Post í morgun var ágæt grein um hlut internetsins í bandarísku kosningunum í nóvember. Raul Fernandez bendir réttilega á hlut YouTube í falli Macaca Allen og Conrad Burns - og instant messaging varð til þess að repúblíkanar misstu sæti Mark Foley í Flórída.

Search "Conrad Burns" on YouTube.com and you get more than 130 videos, most of them unflattering. The most popular is "Conrad Burns' Naptime," set to "Happy Trails." No fancy production values here -- just a straight-on camera shot of the senator falling asleep during a congressional hearing important to Montana. That video alone received more than 100,000 views.

Allen var sjálfumglaður labbakútur, Conrad Burns spillt og hálfgalið gamalmenni og Mark Foley pervert áður en internetið kom til, en internetið gerði að verkum að almenningur gat séð hverskonar karaktera þessir menn höfðu að geyma. Það er kannski full mikið að segja að Demokratar geti þakkað YouTube sigurinn í kosningunum - en það er þó ekki alveg út í hött.

Við ættum samt ekki að gleyma bloggurunum - heimasíður eins og Wonkette, Think Progress og America Blog og auðvitað Daily Kos. Wonkette lék t.d. lykilhlutverk í falli Mark Foley. Því til sönnunar er Wonkette Exhibit 11 á lista rannsóknar þingsins á málefnum Foley. (Ég mæli ekki með að fólk reyni að opna Exhibit 13, nema það hafi hraða nettengingu: uppskriftirnar af dónapóstsendingum Foley til unglinga eru einar 104 blaðsíður að lengd. En fyrir áhugafólk um sorglega og dökka afkima mannssálarinar er þetta ábyggilega príma lesning!)

M


NASA sækir innblástur til víkinga

Þetta snilldarlistaverk fylgdi frétt Washington Post.jpg

Í Washington Post í morgun var grein um geimkönnunarprógrömm NASA og drauma um landnám á fjarlægum hnöttum. Greinarhöfundur og NASA virðast sjá geimferðaprógramm Bandaríkjanna sem beinan arftaka víkinganna. Þetta eru auðvitað góðar fréttir fyrir okkur Íslendinga, því það er ekki svo lélegt að NASA og geimáhugamenn ímyndi sér að Leifur Eiríksson sé forfaðir Captain Picard!

As Michael Griffin, the head of NASA, sees it, humanity is setting out on an interplanetary quest not dissimilar to what began with the Vikings. An age of space exploration has begun, but only with the same confused baby steps that brought Leif Eriksson briefly to Vinland and North America (or was it Greenland?).

"Fifty years into it, the amount of progress that the Vikings had made would not have been that noticeable, and that's where we are in space flight today," Griffin said in a recent interview. "I really think that's the way to look at it." [...]

It's an ambitious, almost Star Trek-like vision, one that has ardent supporters and vocal detractors.

M


Sannanir fyrir því að CIA hafi látið drepa Bobby Kennedy

Opinberlega var Bobby Kennedy drepinn af Sirhan Sirhan - palestínsku ungmenni - Sirhan sést á miðri myndinni.jpg

Frásögn the Guardian af aðdraganda morðsins á Bobby Kennedy er frábær lesning! Ég er samt ekki sáttur fyrr en það er búið að sýna tengsl Mossad og OAS við morðið á Bobby Kennedy - OAS (Organisation Armee Secrete) er, eins og allir áhugamenn um fasísk terroristasamsæri vita, langsamlega skemmtilegasta conspiracy-organization seinustu fimmtíu ára eða svo. Ekki síst vegna tengsla OAS við Frönsku útlendingaherdeildina og liðhlaupa úr SS, og svo vegna þess að toppmenn og launmorðingjar úr OAS virðast hafa verið viðstaddir morðið á stóra bróður Bobby í Dallas. (Mossad er auðvitað efst á lista þegar kemur að öllum samsærum allra tíma!)

Rannsókn á vettvangi sýndi að fleiri skotum hafði verið hleypt af en höfðu geta komist fyrir í byssu Sirhan B Sirhan, sem var ásakaður fyrir morðið - og þess utan að Bobby Kennedy hafi verið skotinn af stuttu færi í bakið, en Sirhan á að hafa staðið fyrir framan hann...

M

ps: Það er rétt að taka fram að Sirhan B Sirhan fellur, samkvæmt dýrafræði George Allen í flokkinn "macaca" - og þá er rétt að hafa í huga að Allen er sjálfur einhverskonar "pied noir", þó að Allen tengslin séu til Túnís, en ekki Alsír, þar sem OAS starfaði. Sirhan B. Sirhan hljómar líka grunsamlega líkt nafni Shekar R. Sidarth, sem Allen uppnefndi "macaca"...


Pac - Man

c_documents_and_settings_maggi_my_documents_my_pictures_blogmyndir_pacmancharthumor.jpg

Hefur ekkert með Bandaríkin að gera.

Yellow: Part of Chart that resembles Pac Man, Purple: Part of chart that does not resemble Pac Man. (frá BoingBoing)


Verstu heimasíður frambjóðenda til bandarísku þingkosninganna

Gömul seníl gamalmenni þurfa líka sína fulltrúa.jpg

Cnet hefur tekið saman lista yfir 17 verstu heimasíður kosningabaráttunnar - og það er augljóst að smekkur manna og skopskyn er misjafnt. Eða kannski er það frekar að smekkleysi manna er misjafnlega mikið. Besta heimasíðan er þó vafalaust síða Kay Granger, sem er repúblíkani og í framboði í Texas. Kay virðist hafa komist á lista vegna uppskriftar sem hún birtir að einhverju sem hún kallar "Easy, Killer Margaritas".

Uppskriftin er:

     Frozen Limeade (any size)
     Tequila (your choice)
     Beer (your choice)

Empty the limeade into a pitcher. Using the empty can as a measure, add 1 can of tequila and 1 can of beer to the pitcher

Stir and pour over ice. Squeeze wedge of fresh lime on top.

Kannski drekkur fólk svonalagað í Texas, en ég hef aldrei áður heyrt um bjór-tequila kokteila, sérstaklega ekki þegar það eru jöfn hlutföll af tequila og bjór! Mín reynsla er reyndar að bjór og tequila, blandað saman, sé einmitt "killer", og ekki í neinni jákvæðri merkingu.

Listi Cnet er hreinasta unun fyrir áhugafólk um ljótar heimasíður.

M


Bandaríska tollgæslan má gera ferðatölvur flugfarþega upptækar - án nokkurar skýringar

Customs agents.jpg

Það er því vissara að geyma ekki sannanir um alþjóðlega glæpastarfsemi, njósnir og hryðjuverk á harðadisknum þegar maður ferðast! Herald Tribune fjallaði í morgun um heimild bandarísku tollgæslunnar til að gera ferðatölvur flugfarðega upptækar. Fæstir hafa hugmynd um þessa heimild, en tollgæslan getur án þess að gefa neina skýringu gert tölvur upptækar og svo setið á þeim eins lengi og þeim sýnist meðan þeir eru að fara yfir allt sem tölvan hefur að geyma. Herald Tribune segist hafa heimildir um að saklausir ferðalangar hafi beðið meira en ár eftir því að fá tölvur til baka -

Appeals are under way in some cases, but the law is clear. "They don't need probable cause to perform these searches under the current law," said Tim Kane, a Washington lawyer who is researching the matter for corporate clients. "They can do it without suspicion or without really revealing their motivations." ... Laptops may be scrutinized and subject to a "forensic analysis" under the so-called border search exemption, which allows searches of people entering the United States and their possessions "without probable cause, reasonable suspicion or a warrant," a federal court ruled in July.

Í ljósi þess að tollyfirvöld virðast mega halda tölvum eins lengi og þeim sýnist er sennilega skynsamlegt að taka afrit af öllum gögnum áður en maður tekur fartölvuna með sér til eða frá Bandaríkjunum!

M


Kristilegt sælgæti: Testamints, Noahs Gummy Bears, Bible Bar

biblebar.gif

Kristnir bandaríkjamenn geta farið út í búð og keypt eiginlega allt það sama og við hin, sem erum einhverskonar trúleysingjar, nema að það er búið að stimpla "jesús" eða eitthvað álíka á allan neysluvarninginn þeirra. Þannig þurfa sannkristnir ekki að neita sér um neitt! Ég veit ekki hvort þetta geti flokkast undir "sub-kúltúr", því þessi kristna neyslumenning hefur allt það sama og hefðbundin neyslumenning. Hún er eiginlega nákvæm spegilmynd hversdagsleikans, nema það er búið að sáldra biblíuversum og jesúmyndum yfir alltsaman.

Það eru auðvitað alltaf eitthvað sem er of heiðið eða satanískt til þess að guðrhræddir evangelistar geti tekið þátt í því. Til dæmis Halloween. En núna geta foreldrar andað léttar og tekið þátt í hátíðarhöldunum með góðri samvisku, þökk sé Bible-themed sælgæti sem Belief net mælir með:

Looking for a religious alternative to traditional Halloween candy? Beliefnet's panel of experts spent hours tasting and analyzing several spiritually-minded sweets, so you don't have to.

Mér leist eiginlega best á the Testamints og The Bible bar. Testamintunum er lýst þannig: 

Once you pop, you can't stop! These scripture-wrapped mints are downright addictive. Not too minty, yet soft enough to melt in your mouth. According to the maker, these mints were created to turn "a pagan holiday into something to glorify God."

Samkvæmt guðfræðinni er nefnilega nóg að vefja hvaða vitleysu eða ósóma sem er inní biblíuna, og þá voila: allur ósóminn eða vitleysan farin, og eftir stendur eitthvað sem "glorifies God". Það eru nefnilega pakkningarnar sem skipta öllu máli...

M


Barnaníðingar, Satan, nota blogg til að "tala við börn", spilla fólki

god.gif

Á Wonkette er tengill á merkilegar vangaveltur einhverrar kirkju "The Restored Church of God" um skaðsemi internetsins - og sérstaklega hættur þess fyrir börn. Og samkvæmt internetfræðingum kirkjunnar eru blogg hættulegasta birtingarmynd internetsins - en undir blogg falla víst social networking sites, eins og Myspace. Þessar vangaveltur eru stórskemmtilegar - það er óhætt að hvetja alla til að lesa greinina í heild sinni, því hver hefur ekki áhyggjur af því hvernig ósómi internetsins grefur undan góðu siðgæði?

One of the reasons personal weblogs have made news headlines is because child predators and pedophiles use these pages to chat with and get to know young people. ...

Yet another obvious danger of blogs is the endless amount of inappropriate content often spread throughout them. This happens on a host of levels: filthy language, risqué pictures, etc.  ... Bullying even takes place between blogs, with some using them to defame or attack other people, or spread other forms of hatred.

En það er ekki bara internetpúkinn og klámið sem við eigum að hafa áhyggjur af, því veraldarvefurinn hefur víst líka grafið undan tilfinningalegri dýpt, og bloggarar almennt vanþroskaðara fólk en aðrir. Bloggi maður um líðan sína, tilfinningar eða daglegt líf, kallar maður yfir sig vanþóknun almættisins... 

This has grown so out of control it is routine for a person to start a daily blog entry with a single word that details his or her mood. A blog entry will start: “Current mood: ____” The level of shallowness and emotional immaturity this represents is astonishing! In the grand scheme of things, why would the world at large care?

If you post mundane details of your life, you are in effect saying that your life is important and that people should read about it. Also, whether or not you admit it, having a blog with your name, your picture and your opinions strokes the human ego—it lifts you up. ...

Þetta er auðvitað mjög slæmt - og kirkjan biður okkur því að spyrja þessarar áleitnu spurningar:

Ask yourself, “Do I have a tendency to want to have a voice?”

Rétta svarið er auðvitað ekki "já" - því tilhneyging til að vilja hafa rödd er guði hreint ekki þóknanlegt... 

Look at what the Bible says about idle words: “But I say unto you, That every idle word that men shall speak, they shall give account thereof in the day of judgment” (Matt. 12:36). Who would want to give account to God about how many hours a day he rambled on about his favorite pizza place, what brand of jeans he wears, the girl he thinks is cute, when he woke up on a particular morning and in what mood, etc.? If one has visited many blogs, the list above contains some of the “deeper” issues endlessly discussed.

Þá vitum við það. Biblían bannar blogg, og guð hefur sérstaka vanþóknun á bloggurum. Sérstaklega þeim sem tala um gallabuxur. Ég get þá sofið rólegur, því ég hef aldrei bloggað um gallabuxur. En þessa dagana er uppáhaldspízzastaðurinn minn er sennilega Reds Savoy Inn and Pizza, en sá staður öðlaðist töluverða frægæð þegar pabbi Norm Coleman, öldungadeildarþinganns Minnesota, var handtekinn á bílastæðinu fyrir "lewd behavior". Það er augljóslega einhverskonar samband á milli dónalegrar hegðunar, pízzastaða og bloggs. Norm Coleman Sr. var sennilega líka í gallabuxum, þ.e. fyrr um kvöldið?

M


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband