Utanríkispólitíkin að drepa stóra tjaldið?

Það er búin að vera hálfgerð gúrkutíð í bandarískum stjórnmálum og culture wars undanfarna daga. Herðanarbrölt Ísraelsríkis og Norðurkóreu virðast hafa étið upp alla athygli fjölmiðla. Og þó samvinnuríkið og alþýðulýðveldið séu bæði stórmerkileg og áhugaverð fyrirbrigði hef ég eiginlega ákveðið að fylgjast sem minnst með fréttum af eldflaugaárásum smáríkja, þó þau búi yfir kjarnorkuvopnum...

En það er annað mál sem ég hef verið að fylgjast aðeins með - en það er gagnrýni frjálshyggjumanna í Republikanaflokknum á Ný-íhaldsöflin, en flokkurinn hefur verið í greipum þeirra síðan haustið 2000. Þessi gagnrýni hefur kraumað undir yfirborðinu í langan tíma, en hefur í auknum mæli verið að koma upp á yfirborðið, t.d. á Cato-at-liberty, sem er blogg Cato stofnunarinnar.

Í ljósi þess hversu afspyrnu vond og heimskuleg öll pólitík Bush-stjórnarinnar hefur verið, (og í fullkominni andstöðu við allar hugmyndir frjálshyggjunnar), er forvitnilegt að sjá að það er yfirleitt utanríkispólitíkin sem Cato kvartar yfir. Fjárlagahallinn kemur augljóslega oftar fyrir - en bloggarar Cato virðast rólegri með að gagnrýna utanríkispólitík en innanríkispólitík. Í ljósi þess að ný-íhaldsöflin hafa gert utanríkispólitíkina að eina pólitíska hugsjónamáli sínu gæti þetta verið nokkuð afdrifaríkt. Skattaeftirgjafa og ríkisgjaldþrotspólitík forsetans er hrein hagsmunapólitík og hefur ekkert með hugsjónir að gera, þó forsetinn og stuðningsmenn hans reyni að klæða skattaeftirgjafir upp sem einhverskonar 'limited government' eða efnahagspólitík. Annað gildir um 'values' pólitíkina, en hún er rekin til þess eins að veiða atkvæði afturhaldssamra kristinna kjósenda. Leiðtogalið flokksins hefur enga pólitík aðra en völd - og útflutning lýðræðis til Mið-Austurlanda. Values kjósendur flokksins gátu skrifað upp á utanríkispólitíkina, því í þeirra huga var stríð gegn villutrúarmönnum og harðstjórum á bökkum Efrat og Tigris frekar heillandi.

Ef Cato leggur í harðari gagnrýni á stefnu forsetans gæti forsetakosningarnar 2008 orðið ansi áhugaverðar, því næsta forsetaefni GOP mun fá það hlutverk að móta afstöðu flokksins til 'arfleiðar' Bush.

M


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband