Hríflujónas og Markos 'Kos' Moulitsas

Það var aldrei að bandaríkjamenn föttuðu að Libertarian Sósíaldemokratar væru framtíðin! Markos (Kos) Moulitsas, stofnandi The Daily Kos hefur verið að velta fyrir sér þeim möguleika að demokratar myndi nánari bandalög við frjálshyggjumenn - en hinir síðarnefndu eru ein af meginstoðum Republikanaflokksins.

Það hefur verið áhugaverð umræða um þetta mál á Cato-at-liberty, Samizdata og svo auðvitað The Daily Kos. Færsla Markos um þetta er að finna hér. Ég held að ef Kos, eða öðrum, tekst að blása saman þessa stjórnmálahreyfingu væri það bæði hollt og gott fyrir Bandaríkin. En sagan hefur sýnt að tilraunir andstæðinganna til þess að kljúfa stóra íhaldsflokka, eftir línum eins og þeim sem Kos dreymir um, mistakast yfirleitt. Markos Moulitsas frá Kos getur þar lært ýmislegt af Jónasi Jónssyni frá Hriflu, en sá síðarnefndi gekk með það í maganum mestanpart ársins 1938, og vorið 1939, að kljúfa Sjálfstæðisflokkinn, kljúfa útgerðararminum undir handleiðslu Ólafs Thors, frá því sem Jónas taldi íhaldssamari hluta flokksins.

En þó draumur Kos verði ekki að veruleika er þó ógnin af þessari hugmynd vonandi nóg til þess að hrista aðeins upp í stjórnmálaumræðu í Bandaríkjunum - sérstaklega með því að slá aðeins á djöfulsins ofríkisöflin í republíkanaflokknum, og um leið minna demokratana á að þeir geta hæglega gert persónufrelsi, virðingu fyrir mannréttindum og réttarríkið að kosningamálum. Svona hreyfing gæti verið effektíft andsvar við þjóðernisofstæki og vænisýki núverandi stjórnvalda - andsvar sem væri ekki hægt að ásaka um að spretta af einhverskonar "andameríkanisma".

Ef viðbrögð þeirra blogga sem ég hef lesið um þetta gefa einhverja vísbendingu um hvernig 'the libertarian rank and file' bregst við svona hugmyndum, er það líklega óvinnandi verk að munstra marga þeirra í Demokrataflokkinn...

M


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband