Foley og demokrataflokkurinn

Ég, líkt og flestir sem lesa bandarísk dagblöð eða stjórnmálablogg, hef verið að fylgjast með þróun Foleyhneykslisins undanfarna viku. Reyndar er frekar erfitt að fylgjast með nokkru öðru. Stjórnmálabloggarar hafa varla talað um neitt annað undanfarna níu daga. Fyrst var það Foley og svo vandræðalegar tilraunir flokksforystunnar til að hlaupast undan ábyrgð - á mánudaginn voru flestir bloggarar farnir að velta fyrir sér Haestert og því hvort hann myndi segja af sér. Svo voru auðvitað ótal bloggfærslur um makalaus viðbrögð "kristinna" republikana og the "moral" majority - en það fólk ákvað auðvitað allt að Foley og Haestert væru saklausir, því sökin lægi öll hjá hommasamsærinu. Undir lok vikunnar var umræðan hins vegar farin að snúast um hversu mikið demokrataflokkurinn myndi græða á þessu öllu.

Og það virtist, og virðist enn, nokkuð ljóst að demokrataflokkurinn geti grætt á þessu hneyksli. Fjöldi þingsæta sem eru "in play", þ.e. kjördæma þar sem hvorugur flokkanna er talinn hafa afgerandi forskot, hefur haldið áfram að aukast. Ástandið er reyndar orðið þannig að forystumenn beggja flokka eru orðnir hálf örvæntingarfullir: Vanalega smáfækkar þessum "competititve" kjördæmum fram að kosningum og línurnar skýrast - flokkarnir geta þannig farið að einbeita sér að fáeinum kjördæmum seinustu vikurnar fyrir kosningar. Sjónvarpsauglýsingar kosta peninga, og þó bandarísk stjórnmál séu mjög vel "fjármögnuð" eru takmörk fyrir því hvað flokkarnir geta keypt mikið af auglýsingum, sérstaklega þegar kaupa þarf auglýsingar í yfir fimmtíu kjördæmum. Fæstir frambjóðendur hafa margar milljónir á lausu til að kaupa upp "airtime", og þurfa því að stóla á að flokkurinn kaupi auglýsingar fyrir sig. Þetta getur verið sérstaklega erfitt fyrir frambjóðendur demokrata. Þessar kosningar gætu því orðið mjög spennandi, og við getum þakkað Foley það, að hluta.

Undanfarna viku hef ég líka lesið margar greinar á vinstrisinnuðum bloggsíðum um "hrun" republíkanaflokksins: Foley-gate/Predatorgate/Cocktober-surprise (eftir því hversu kursteislegur bloggarinn er!) hafi verið seinasti naglinn í líkkistu republíkanaflokksins, forystulið flokksins hafi verið afhjúpað sem glæpahyski, lygarar og barnaníðingar, bandaríska þjóðin sé full viðbjóðs á svikum og lygum, og algjört gjaldþrot flokksins á öllum vígstöðvum sé svo augljóst að það þurfi einhverskonar kraftaverk (eða samsæri) til þess að koma í veg fyrir að demokratar rúlli upp kosningunum í nóvember. Þetta er mjög heillandi kenning, en bjartsýnin og þórðargleðin í sumum þessara greina er hins vegar dálítið óþægileg. (Samsæriskenningarnar eru reyndar þegar farnar að sveima - vangaveltur um að republíkanar séu að dreifa fölsuðum skráningareyðublöðum fyrir kjósendur, átt hafi verið við kosningavélar, etc.)

Skoðanakannanir sýna að álit almennings á þinginu og republíkanaflokknum hefur hríðfallið, og stuðningur við forsetann mælist rétt 33%. Yfirgnæfandi meirihluti kjósenda telur að flokkurinn hafi klúðrað Foleyskandalnum, og að Haestert hafi hylmt yfir með Foley. Aðeins rétt fjóðrungur kjósenda telur Haestert stætt á að sitja áfram á þingi - aðrir telja að hann eigi að segja af sér bæði þingmennsku og leiðtogahlutverki innan flokksins.

Þetta lítur vissulega vel út fyrir Demokrataflokkinn. En það er engin ástæða til þess að fara að fagna sigri í kosningunum strax. Það gæti meira að segja verið að Foleyskandallinn hjálpi Republíkanaflokknum.

Meðan athygli almennings, fjölmiðla og stjórnmálamanna er á Foley, er enginn að fylgjast með Írak eða Afghanistan. Það er enginn að tala um utanríkismál, fjárlagahallann eða önnur alvarlegri svik núverandi stjórnvalda. Ég er ekki að gera lítið úr Foleyskandalnum, en framtíð Bandaríkjanna, eða bandarísku þjóðarinnar, veltur ekki á afdrifum eins kynferðisafbrotamanns, eða því hvort eitt senílt gamalmenni eða annað sitji sem þingforseti. Og þó kjósendur séu fullir viðbjóðs á Foley og athæfi hans gera þeir sér grein fyrir þessu. NIE skýrslan, uppljóstranir um að stjórnin hafi vitað af 9/11 fyrirfram, vaxandi óöld í Afghanistan og Írak, kjarnorkuógn Norður Kóreu, allt þetta hefur nánast horfið úr umræðunni. Á meðan veltum við okkur upp úr dónapóstum Foley eða samsæriskenningum Haestert.

Hvað gerist næst veltur alfarið á því hvort republíkönunum tekst að fara í "sókn" eftir að Foleyskandallinn deyr út. Stríðið í Írak, hryðjuverk, ógnin af Íran. Republíkanarnir hafa stjórnað umræðunni um þessi mál undanfarin fimm ár - þeir eiga vel æft "script" sem þeir geta tekið fram þegar talið berst að einhverjum þessara mála. Lína Republíkanaflokksins er "einföld" (stay the course) - en gagnrýni demokrata "flókin". Ef Demokrataflokknum tekst hins vegar að halda sókninni áfram eftir að Foleyskandallinn deyr út, halda republíkönunum í vörn næstu vikur, geta þeir unnið. En það krefst þess líka að flokkurinn hafi einhverjar einfaldar konkret "lausnir".

M


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband