Bloggfærslur mánaðarins, júní 2006
fim. 1.6.2006
Líkamsræktin gerir menn að terroristum?
Þetta hefur mig lengi grunað - líkamsræktarstöðvar væru stórhættulegar, og þessvegna hef ég staðist freistinguna fram að þessu. Í grein á Slate.com í dag eftir bendir Brendan O´Neil á að líkamsræktarstöðvar séu sennilega hættulegri sem gróðrastíur ofstækis og hryðjuverka en moskur...
"The three cells appear to have had at least one thing in common, thoughtheir members' immersion in gym culture. Often, they met and bonded over a workout. If you'll forgive the pun, they were fitness fanatics. Is there something about today's preening and narcissistic gym culture that either nurtures terrorists or massages their self-delusions and desires?"
Hryðjuverkamennirnir að baki árásunum í Madríd og London, að ógleymdum þeim sem stóðu að baki árásanna á bandaríkin 11 september 2001, voru allir ákafir líkamsræktarfrömuðir, og stunduðu ræktina af miklum móð - margir þeirra gengu jafnvel hryðjuverkasamtökum á hönd meðan þeir voru að lyfta lóðum... Ég veit ekki alveg hvort það sé einhver lærdómur í þessu öllu, en ég get allavegana núna réttlætt leti mína sem mitt framlag til baráttunnar gegn hryðjuverkum!
Afganginn af greininni má lesa hér.
M
fim. 1.6.2006
Bann við samböndum samkynhneigðra
Bandaríkjaþing mun bráðlega taka fyrir lagafrumvarp republikana og Bushstjórnarinnar um að breyta stjórnarskrá bandaríkjanna til að skilgreina hjónaband sem samband manns og konu. Það sem gagnrýnendur frumvarpsins hafa bent á, er að það tekur ekki aðeins til hjónabanda, heldur allra lagalega sambærilegra sambanda - sem gerir að verkum að lög margra ríkja bandaríkjanna, sem nú viðurkenna einhvern lagalegan rétt sambanda samkynhneigðra munu stangast á við stjórnarskrá landsins.
Vandamálið er ekki bara að þessi herferð er atlaga að réttindum samkynhneigðra, heldur er hún einnig atlaga að einu af prinsippum bandaríska stjórnkerfisins, nefnilega federalismanum - þ.e. að einstök ríki hafi umtalsverð réttindi til þess að setja lög um eigin málefni. Alríkisstjórnin hefur einvörðungu rétt til að setja lög á þeim sviðum sem stjórnarskráin kveður skýrt á um, og eins og mál standa hefur alrikisstjórnin enga heimild til að setja bindandi lög um hjónabönd. Vörður um réttindi ríkjanna ('states rights') hefur fram að þessu verið eitt af aðaláhugamálum republikana - sem gerir þetta mál allt snúnara fyrir stjórnvöld.
Ekki það, að það eru nákvæmlega engar líkur til þess að þessi lög komist langt. Republikanar þurfa aukinn meirihluta, eða 60 atkvæði í öldungadeildinni til þess að koma í veg fyrir að Demokratar drepi frumvarpið, og fyrir tveimur árum þegar ámóta frumvarp var borið upp náðu stuðningsmenn þess ekki nema 48 atkvæðum. En frumvarpið er ekki gert til þess að verða að lögum, heldur í þeim eina tilgangi að æsa upp kjósendur á hægrivæng flokksins, eins og NYT bendir á í leiðara í dag.
M
fim. 1.6.2006
Fjöldamorðin í Haditha
Execution style sagði LA times... Vinur minn sem var í mörg ár í Bandaríska fótgönguliðinu, var reyndar þjálfaður sem artctic infantry, til að verjast innrás yfir Beringssund, og var búinn með sinn túr þegar íraksstríðið hófst, sagði mér að hann hefði hitt nokkrar tegundir af mönnum í hernum: menn sem voru að flýja fátækt og sækjast eftir háskólastyrkjum hersins, menn sem voru á höttunum eftir einhverskonar ævintýrum, menn sem langaði til að skjóta úr byssu og leika sér að stórum tækjum, og svo skuggalegasta hópinn - menn sem vildu ekkert frekar en að skjóta fólk.
Svona út frá almannahag, hlýtur að þurfa að vera einhver legitimate atvinnugrein fyrir slíka menn, og hvað betra en að senda þá í annarra manna lönd til að skjóta fólk þar? Þegar þangað er komið eiga svo þessir menn erfitt með að greina á milli hvenær þeir megi drepa menn og hvenær ekki... Ég held að þetta hljóti að vera grundvallarvandamálið við her eins og þann sem Bandaríkin hafa komið sér upp - allir hermenn eru sjálfboðaliðar - fyrir vikið er hlutfall þeirra sem virkilega langar til að drepa hærra en í her þar sem allar stéttir, allir hópar, samfélagsins eru, eins og í herskylduherjum. Og sósíal control fyrir vikið minni, og þegar maður bætir við yfirstjórn sem leitar leiða til að brjóta landslög, getur niðurstaðan aðeins verið ein. Ekki að það afsaki neitt.
Maður getur því varla verið mjög sjokkeraður eða undrandi á þessum ótrúlegu grimmdarverkum - ég er helst hissa á að við höfum ekki heyrt af fleiri atvikum sem þessum.
Haditha morðin voru forsíðufrétt Washington Post og LA Times, sem voru fyrstir með fréttir af þessu máli. NYT hefur hins vegar sýnt Haditha minni áhuga og er undirlagt af fréttum að hinu stórmáli þessara daga - kúvendingu Bushstjórnarinnar í Íransmálinu. Haditha er líka eitt aðaáhugamál ýmissa bloggara vestra, þó aðeins ritstjórinn á mbl.is blogginu hafi skrifað um þetta hér á landi.
M