Bann við samböndum samkynhneigðra

Bandaríkjaþing mun bráðlega taka fyrir lagafrumvarp republikana og Bushstjórnarinnar um að breyta stjórnarskrá bandaríkjanna til að skilgreina hjónaband sem samband manns og konu. Það sem gagnrýnendur frumvarpsins hafa bent á, er að það tekur ekki aðeins til hjónabanda, heldur allra lagalega sambærilegra sambanda - sem gerir að verkum að lög margra ríkja bandaríkjanna, sem nú viðurkenna einhvern lagalegan rétt sambanda samkynhneigðra munu stangast á við stjórnarskrá landsins.

Vandamálið er ekki bara að þessi herferð er atlaga að réttindum samkynhneigðra, heldur er hún einnig atlaga að einu af prinsippum bandaríska stjórnkerfisins, nefnilega federalismanum - þ.e. að einstök ríki hafi umtalsverð réttindi til þess að setja lög um eigin málefni. Alríkisstjórnin hefur einvörðungu rétt til að setja lög á þeim sviðum sem stjórnarskráin kveður skýrt á um, og eins og mál standa hefur alrikisstjórnin enga heimild til að setja bindandi lög um hjónabönd. Vörður um réttindi ríkjanna ('states rights') hefur fram að þessu verið eitt af aðaláhugamálum republikana - sem gerir þetta mál allt snúnara fyrir stjórnvöld.

Ekki það, að það eru nákvæmlega engar líkur til þess að þessi lög komist langt. Republikanar þurfa aukinn meirihluta, eða 60 atkvæði í öldungadeildinni til þess að koma í veg fyrir að Demokratar drepi frumvarpið, og fyrir tveimur árum þegar ámóta frumvarp var borið upp náðu stuðningsmenn þess ekki nema 48 atkvæðum. En frumvarpið er ekki gert til þess að verða að lögum, heldur í þeim eina tilgangi að æsa upp kjósendur á hægrivæng flokksins, eins og NYT bendir á í leiðara í dag.

M


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband