Um umræðuhefð, Iran og Bandaríkin

Þar sem ég, likt og Múrverjar, hef mikinn áhuga á umræðuhefðum fannst mér ástæða til að segja fáein orð um nýlegan póst á Múrnum (http://www.murinn.is/) 'Tilbúningur verður að veruleika'. Í fyrsta lagi held ég reyndar að Rooter sprellið sem Múrverjar leggja út af segi akkúrat ekkert um umræðuhefðir á vesturlöndum - (fyrir þá sem ekki þekkja til, snýst málið um grein sem nokkrir MIT nemar sömdu með hjálp forrits sem raðaði saman stórum og akademískum orðum í sæmilega skiljanlegar setningar. Úr þessu varð 'grein' sem var samþykkt til flutnings á akademískri ráðstefnu - nokkuð sem háskólamönnum, og fólki sem finnst gaman að gera grín að háskólamönnum finnst skiljanlega mjög fyndið.) Nú vita allir sem þekkja til þess hvernig akademískar ráðstefnur ganga fyrir sig,að ráðstefnuhaldarar hafa oft ekki fyrir því að lesa greinar eða jafnvel tillögur að greinum sem sendar eru inn. Hugsunin er oft sú, að vilji menn koma og gera sig að fífli með annars eða þriðja flokks fræðigreinum er þeim það frjálst.

Enda var það þetta sem MIT nemarnir vildu benda á - Rooter greinin var hugsuð af þeim sem frekar óvísindaleg tilraun - markmiðið var ekki Orwellísk ádeila á newspeak eða firringu stórveldanna, en það er þannig sem Múrverjar nota Rooter-greinina... En það er auðvitað hernaðarhyggja og Íran sem Múrverjar höfðu raunverulega áhuga á þegar þeir lögðu út af Rooter-greininni, ekki praktískir brandarar doktorsnema í tölvunarfræði. Fyrir Múrverja var Rootergreinin var því ekki annað en klókur inngangur í vangaveltur um fáránleika hótana Bandaríkjanna gegn Íran. Og þar sem ég hef mikinn áhuga á bæði hernaðarhyggju og Íran finnst mér því kjörið að halda áfram að vitna í Múrverja. Ég er sammála þeim að það væri ótrúlegt glapræði af Bandaríkjunum að ráðast á Íran - ekki vegna þess að ég sé með einhverjar grillur um að fanatíkerarnir og andsemítistarnir sem þar eru við völd séu einhverjir friðar-, lýðræðis- eða mann-vinir - heldur vegna þess að árás á Íran væri hernaðarlega og pólitískt enn heimskulegri en árásin á Írak var, og ég held að það sjái það hver heilvita maður. Það er þess vegna sem eg held ekki að það sé mikil hætta á að Bandaríkin láti nokkuð verða úr hótunum sínum. Og um það er grein þeirra MIT manna og hótanir Bush-stjórnarinnar um Íran svipaðar: MIT nemarnir hafa líklega aldrei ætlað sér að mæta með umrædda grein á neina ráðstefnu, þó að þeir hafi getað unnið sér inn stig á kaffihúsum Cambridge. Bush, getur notað Írans-ógnina til þess að gefa út stórkarlalegar yfirlýsingar, og vinna sér kannski inn einhver stig, eða koma í veg fyrir að tapa fleirum. Með því að minna regluleg á að Bandaríkin standi frammi fyrir alvöru hættulegum óvinum, getur hann betur réttlætt innanlandspólitík sína, en öll ímynd hans byggir á því að hann sé 'stríðsforseti'.

Það sem dálkahöfundar í Bandaríkjunum óttast helst er að forsetinn láti verða af því að ráðast á Íran til þess að bæta úr slöku fylgi sínu. Það sem dregur hins vegar úr þessari hættu er að meirihluti Bandaríkjamanna hafa undanfarna nokkra mánuði verið þeirrar skoðunar að innrásin í Írak hafi verið röng - og Republíkanar eiga á brattann að sækja í kosningunum nú í haust, og líklega aftur í kosningunum 2008 - en við þær aðstæður væri glapræði að fara að afhenda andstæðingunum jafn frábært áróðursvopn. (Að því ógleymdu að Bandaríkjaher hefur ekki yfir að ráða mannafla til að ráðast á Íran.) Nú snýst öll pólitik forsetans um 'damage control', og þó sókn sé oft besta vörnin eru Íranir einfaldlega of raunverulegur óvinur til þess að jafnvel glórulausir stríðsæsingamenn, sem Múrverjar telja Bandaríkjastjórn vera, fari að gera alvöru úr hótunum sínum.

Það er svo annað mál, að Ahmadinejad, sem er sannarlega veruleikafirrtur (eða spilar sig slíkan, til að höfða til lókal ofstækisafla - það er oft erfitt að greina á milli) og hefur hótað nágrönnum sínum (Ísrael) gereyðingu, er trúandi til næstum alls. Það vill nefnilega oft gleymast að það eru til stríðsæsingamenn í öðrum löndum en Bandaríkjunum...

M


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband