Af innaníkisnjósnum

Það sem helst hefur vakið athygli mína við nýlegar umræður í Bandaríkjunum um símtalagagnabanka NSA er ekki að í ljós hafi komið að núverandi ríkisstjórn stundi stórfelldar njósnir um eigin borgara – eða að þeir hafi logið um umfang njósnastarfsemi sinnar fyrir fimm mánuðum þegar í ljós kom að NSA væri að hlera símtöl bandaríkjamanna...  

Nei það sem helst hefur vakið athygli mína eru viðbrögð forsetans, stuðningsmanna hans og stuttbuxnaliðsins alls.Svar forsetans og Alberto Gonzales, dómsmálaráherrans, hefur í stuttu máli sagt verið ‘treystið okkur’ – ‘vissulega stöndum við í stórfelldri gagnasöfnun um saklausa borgara, og vissulega höfum við kosið að hunsa öll lög, reglur og venjur, en þið skulið samt treysta okkur til þess að vera ekki að misnota allt það vald sem við höfum tekið okkur...’ 

Það er líklega við því að búast að jafn óskamfelnir menn og Bushstjórnin skuli vilja að fólk trúi sér og treysti í blindni, jafnvel eftir að allt bendi til þess að þeim sé akkúrat ekki treystandi. Enda spyrja menn sig nú: hvað fleira á eftir að koma í ljós? Viðbrögð stuttbuxnaliðsins bæði í útvarpi, sjónvarpi, og þó sérstaklega á ‘blogo-spherinu’ hafa verið álíka merkileg: þar hefur viðbragðið verið að þetta séu nú engar fréttir – fyrstu viðbrögðin voru að halda því fram að vinstrimenn væru að reyna að endurþyrla upp ‘æsingnum’ í kringum símhleranir NSA. Fox news hefur nánast samhljóma tekið upp þá vörn að bandaríkin séu í stríði, og forsetinn hljóti að hafa rétt og skyldu til að gera það sem honum þyki nauðsynlegt. Á bak við bæði viðbrögð forsetans og stuðningsmanna hans er ein hugsun: það sem forsetinn vill, það skal forsetinn fá, að efast um að forsetinn vilji það sem er rétt og best fyrir þjóðina jafngildir svikum – enda er það ekki almennings, eða kosinna stjórnmálamana að vera að vasast og stinga nefinu í kistur og koppa ríkisvaldsins. Fólk á í blindni að treysta því sem ríkisstjórnin segir. 

Maður þarf nú varla að vera mjög ‘vinstrisinnaður’ til að setja spurningamerki við svona málflutning, og það er ótrúlegt að nokkur stjórnmálamaður eða stjórnmálaskýrandi í siðmenntuðu landi skuli reyna að halda álíka vitfyrringu fram. Í minni heimasveit hétu svona menn fasistar.En það er reyndar ekki mjög merkilegt að komið hafi í ljós að það sé grunnt á lýðræðisást Bush og hans manna. Á seinustu árum hafa álíka mál margoft komið upp, og í hvert skipti hefur Bandarískur almenningur, stjórnmálamenn og stjórnmálaskýrendur kosið að velta sér á hina hliðina og halda áfram þyrnirósarsvefni sínum.

Nú má hins vegar sjá ákveðin merki þess að fólk sé að vakna upp við vondan draum – slakt gengi forsetans í skoðanakönnunum er bæði orsök og afleiðing þessa.Þannig er hægt að merkja mun harðorðari umfjöllun í útvarpi og fréttaskýringum – NPR (‘ríkisútvarp’ þeirra Bandaríkjamanna National Public Radio) hefur þannig verið mun harskeyttara í umfjöllun sinni, og hið sama er að segja um helstu dagblöðin. Það sem þó vekur helst athygli er að hugmyndafræðingar og hugsuðir á hægrivæng bandarískra stjórnmála eru líka farnir að leyfa sér að beina harðskeyttri gagnrýni að forsetanum. Í gær minntist ég á að Cato institute hafi lýst yfir þungum áhyggjum – en nú má bæta því við að Newt Gingrich, sem allir þekkja sem einn af haværustu republikönum þingsins og Joe Scarborough, fyrrum þingmaður frá Florida, sem núna stendur fyrir Scarbrough country á MSNBC hafa lýst yfir andstöðu við njósnaapparat forsetans.  

Það er eftir að sjá hvort að það verður nokkuð úr þessu máli. Ef ég þekki bandarísk stjórnmál rétt er allt eins víst að þetta mál deyi út á fáeinum vikum, nema eitthvað fleira komi í ljós... langlíklegast er hins vegar að eitthvað nýtt og meira spennandi gerist – og það er sömu leiðis næastum pottþétt að demokratarnir klúðri þessu máli eins og flestu öðru.  

M


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband