Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2006

Bill Kristol og Íran

Bill Kristol

Bill Kristol, einn af helstu leiðtogum og hugmyndasmiðum ný-íhaldsstefnunnar, hefur undanfarna daga talað nokkuð linnulaust fyrir þeirri stórhættulegu hugmynd að Bandaríkin geri loftárásir á Íran. Kristol, að hætti Ný-íhaldsmanna, hefur telft fram heilum lista af 'rökum' fyrir þessari skoðun sinni. Mikilvægustu rökin, að því er virðist, er að það sé ekkert vit í að bíða með eitthvað til morguns sem hægt er að gera í dag. Hér er Kristol í The Weekly Standard:

Why wait? Does anyone think a nuclear Iran can be contained? That the current regime will negotiate in good faith? It would be easier to act sooner rather than later. Yes, there would be repercussions--and they would be healthy ones, showing a strong America that has rejected further appeasement.

Úr greininni "It's Our War", The Weekly Standard, 24 júlí, 2006.

Ekki nóg með að það sé ástæðulaust að vera að bíða með hernaðaraðgerðir, því árangurinn myndi réttlæta kostnaðinn, heldur telur Kristol að slíkar afleiðingar stríðs við Íran gætu beinlínis verið jákvæðar fyrir ímynd Bandaríkjanna og samstöðu þjóðarinnar. Sennilega er Kristol að draga lærdóm af vel heppnuðum hernaðaraðgerðum Bandaríkjanna í Írak sem hann barðist hatrammlega fyrir? Vann innrásin í Írak bandaríkjamönnum ekki ást heimsbyggðarinnar, jók hún ekki styrk þeirra á alþjóðavettvangi, og þrýsti hún ekki þjóðinni saman? Hmm... (Ég mæli með því að fólk lesi greinina í heild - það er nauðsynlegt að lesa Kristol til að skilja þankagang Ný-íhaldsmanna í BNA.)

Nú, en Kristol, sem virðist hafa óvenjulegan hæfileika til að skilja veröldina í kringum sig og læra af reynslunni, hefur fleiri rök fyrir innrás í Írak. Næstu rök Kristol eru að Bandaríkjunum yrði tekið fagnandi - íranska þjóðin muni, þegar loftárásirnar hefjast, flykkjast út á götur til þess að krefjast þess að Ahmadinejad og klerkarnir láti af völdum. Þessi rök bauð Kristol upp á í viðtali við Fox. (Sjá uppskrift af viðtalinu hjá Think Progress.)

the Iranian people dislike their regime. I think they would be — the right use of targeted military force — but especially if political pressure before we use military force — could cause them to reconsider whether they really want to have this regime in power. There are even moderates — they are not wonderful people — but people in the government itself who are probably nervous about Ahmadinejad’s recklessness.

Nú, þetta hlýtur að liggja í augum uppi? Kristol bauð lesendum The Weekly standard upp á nánast nákvæmlega sömu rökin þegar hann var að berjast fyrir hernaðaraðgerðum gegn Írak.

We are tempted to comment, in these last days before the war, on the U.N., and the French, and the Democrats. But the war itself will clarify who was right and who was wrong about weapons of mass destruction. It will reveal the aspirations of the people of Iraq, and expose the truth about Saddam's regime. It will produce whatever effects it will produce on neighboring countries and on the broader war on terror. We would note now that even the threat of war against Saddam seems to be encouraging stirrings toward political reform in Iran and Saudi Arabia, and a measure of cooperation in the war against al Qaeda from other governments in the region. It turns out it really is better to be respected and feared than to be thought to share, with exquisite sensitivity, other people's pain. History and reality are about to weigh in, and we are inclined simply to let them render their verdicts.

Úr greininni "The Imminent War", The Weekly Standard, 17 mars 2003.

Kristol hefur augljóslega verið að læra af sögunni... og er æstur í að fá að endurtaka hana. Karl Marx sagði eitt sinn um Louis Napoleon III að sagan endurtæki sig alltaf tvisvar - í síðara skiptið sem skrípaleikur. Kristol virðist staðráðinn í að sanna þessi fleygu orð Marx. Árangurinn af fyrri eggjunum hans var litlu betri en herför Napoleon yfir forafen Rússlands - og fáránleikinn í þessum nýjasta strísáróðri Kristol er svo borðleggjandi að það er stórskemmtilegt að fylgjast með honum.

En hvernig eigum við að skýra þessa þráhyggju Kristol? Auðveldasta skýringin er auðvitað að Kristol, eins og allir aðrir hægrimenn, sé ósköp einfaldlega ægilega vondur og vitlaus maður - á mála hjá herngagnaiðnaðinum. Það gæti skýrt þessa óseðjandi löngun í stríðsrekstur? Nú, ég skal ekkert segja um greind eða gæsku Kristol - og ég hef engar heimildir um hvort, og þá hversu mikið hann þiggur í mútur frá Grumman og Lockheed, en ég held að það sé hægt að skýra áróður hans og annarra 'foreign policy hawks' fyrir loftárásum á Íran með öðrum hætti. Í fyrsta lagi hugmyndafræðilegar, og hins vegar pólitískar.

Eins og Gene Healy bendir á á Cato-at-Liberty leikur stríð lykilhlutverk í hugmyndaheimi Ný-íhaldsstefnunnar: "War is a bracing tonic for the national spirit and in all its forms it presents opportunities for national greatness." Í hugmyndaheimi Kristol er stríð herðandi - og nauðsynlegt til þess að þjóðin standi saman - án stríðs vakna efasemdir um styrk og mátt þjóðarinnar, og þá er kominn tími til að hefja nýtt stríð. Það þarf ekki að lesa The Weekly Standard lengi til að sannfærast um að sannleiksgildi þessarar staðhæfingar. Þessi hugmynd birtist skýrt í 'the Ledeen Doctrine',

Every ten years or so, the United States needs to pick up some small crappy little country and throw it against the wall, just to show the world we mean business

Michael Ledeen, ein af hugmyndasmiðum Ný-íhaldsstefnunnar, á að hafa látið þessi orð falla á fundi The American Enterprise Institute. Það er því ekki af einhverskonar íllsku eða ást á stríði sem Bandaríkin þurfa að gera loftárásir á Íran - heldur vegna þess að stríðsátök eru Bandaríkjunum lífsnauðsynleg. Nú, það má spyrja sig hvort þetta meikar mikinn sens, en það er engin ástæða til að efast um að Ledeen, Kristol, dálkahöfundar The Weekly Standard og starfsmenn The Project for the New American Century trúi þessu í alvörunni.

Það er önnur hlið á hugmyndafræðilegum forsendum loftárása á Íran - og sú hefur með fyrrnefnd The Project for the New American Century að gera, en formaður PNAC er Bill Kristol. Þó PNAC sé orðið ómissandi meðlimur í samsæriskenningum (PNAC á t.d. að hafa staðið á bak við 9/11), er full ástæða til að taka hugmyndir þeirra alvarlega. Síðan PNAC var stofnað 1997 hefur félagsskapurinn talað fyrir hugmynd sem hefur verið kölluð 'The Big Bang', en kjarninn í þeirri hugmynd er sú að hægt sé að umbylta pólitísku landslagi í Mið-Austurlöndum með því að velta svosem eins og einum harðstjóra frá völdum - Bandaríkin þurfi lítið annað en að sýna tennurnar, skjóta nokkrum eldflaugum og varpa nokkrum sprengjum, og óbreyttir borgarar Írak, Íran, Sýrlands, Jordaníu, Líbanon, og sennilega Palestínu líka, muni snúa baki við klerkastjórnum og spilltum konungsfjölskyldum, hætta að styðja Hezbollah og Hamas og gerast Jeffersonian Demokratar...

Kristol og Ný-Íhaldsmenn hafa lagt mjög mikið upp úr þessari hugmynd. Semsagt - fyrst það tókst ekki að breyta póltísku landslagi Mið-Austurlanda með því að steypa Írak í ringulreið, hlýtur að snúa sér að Íran? Þó þessi hugmynd sé kannski ekki mjög sannfærandi er þó mun meira vit í henni en 'stríð er gerir þjóðina harða' heimspekinni, og ég sé ekki heldur enga ástæðu til að efast um að Kristol trúi þessari hugmynd.

En það er enn önnur ástæða, held ég, fyrir hávaðanum í Krostol - Bush og leiðtogalið flokksins í Hvíta húsinu hefur á undanförnum vikum og mánuðum verið að fylgja hógværari utanríkispólitík en 'Foreign Policy Hawks' á borð við Kristol hafa á undanförnum árum verið að berjast fyrir, og fyrir vikið hefur Kristol fundið að vægi hans og vigt hefur fallið töluvert í Washington - og þetta finnur Kristol auðvitað. (Sjá þessa frétt í Washington Post) Það læðist því að manni sá grunur að það sé ákveðin örvænting á bak við æsinginn: Kristol, og ný-íhaldsmenn almennt, finna að tími þeirra er að renna út, að það sé útilokað að þeir muni hafa sama vægi eftir næstu kosningar og þeir höfðu eftir kosningarnar 2000 og 2004. Ef svo er ættum við að hafa minni áhyggjur af ævintýralegum yfirlýsingum Kristol. En það eru samt ennþá tvö ár til næstu forseta kosninga, og á það er Kristol auðvitað að veðja.

M.


Fox, WMD's Saddam og Hezbollah

Þegar Bandaríkjaher tókst ekki að finna öll gereyðingarvopn Saddam voru fréttamenn Fox news fljótir að útskýra það með því að þau hefðu öll verið flutt úr landi - til Sýrlands. Og nú hefur Fox ákveðið að flytja þessi mikilvægu og verðmætu gereyðingarvopn enn á milli landa - í gær eyddi Fox umtalaverðum tíma í að velta sér upp úr álitli 'sérfræðinga' í málefnum Miðausturlanda að Hezbollah hefði verið falið að passa upp á þau... (Sjá umfjöllun Media Matters um Fox og WMD's)

Í ljósi þess að Fox telur Ann Coulter 'sérfræðing í málefnum Miðausturlanda' kemur reyndar ekki á óvart að þeir geti velt fyrir sér svona furðulegum samsæriskenningum. Í fyrradag birtist Coulter nefnilega hjá Neil Cavuto til að gefa álit sitt á hernaði Ísrael gegn Libanon. Sérfræðiálit Coulter er að ekki sé hægt að leysa vandamálin fyrir botni Miðjarðarhafs nema reka fyrst alla bandaríska vinstri og miðjumenn úr landi... (Sjá umfjöllun Media Matters um Coulter og Hezbollah)

M


Enn af hjónabandinu - fyrsti samkynhneigði skilnaðurinn í BNA...

Nú lítur út fyrir að eitt af fyrstu samkynhenigðu pörunum sem voru gift í Massachuessets um árið séu að skilja - Julie og Hillary Goodridge hafa semsagt skilið að borði og sæng, en enn er óvíst hvort þau muni sækja um lögskilnað. (Sjá CNN) Hit and Run Blog veltir því fyrir sér hvort hjónabönd samkynhneigðra þurfi ekki að ná 40% skilnaðarhlutfalli áður en þau geti talist 'eðlileg'?


Tom Coburn og Friðjón

Fyrir um það bil tveimur mánuðum síðan skrifaði ég langa færslu, 'Nýtt narrative fyrir Bandaríkin', þar sem ég velti fyrir mér Republikanaflokknum og framtíð bandarískra stjórnmála. Friðjón Friðjónsson, sem ég hef miklar mætur á, allt síðan að hafa kynnst honum í Morfís fyrir næstum einum og hálfum áratug síðan, skrifaði stutta athugasemd við þessa löngu færslu mína þar sem hann velti því fyrir sér hvar Tom Coburn, öldungadeildarþingmaður frá Oklahoma, félli á bandaríska stjórnmálaskalann.

Svar mitt var að Coburn væri 'týpískur populisti', enda sýndist mér það vera hárrétt lýsing. Coburn er harður baráttumaður fyrir því sem hann ímyndar sér að séu "fjölskyldugildi", og það getur verið að djúpstæð andúð mín á þeim "fjölskyldugildum" sem Coburn skrifar upp á hafi blindað dómgreind mína þegar ég afskrifaði hann sem ómerkjung. En eins og Friðjón benti réttilega á, er Coburn ekki bara 'a culture warrior', heldur hefur hann líka barist gegn spillingu og sóun á almannafé.

En ástæða þess að ég hef ákveðið að taka Coburn í sátt er löggjöf sem hann hefur verið að berjast fyrir undanfarna daga og vikur. Sjá þessa færslu á heimasíðu Coburn, eða þessa frett í NYT. Aðalatriði málsins eru þau að Coburn hefur samið frumvarp til laga 'The Federal Funding Accountability and Transparency Act' en samkvæmt þeim skal fjármálaráðuneytið setja saman gagnagrunn, og sjá til þess að

within 30 days of awarding federal tax dollars, the government would have to post the name of the entity receiving the funds (excluding individuals receiving federal assistance), the amount of funds received by the entity in each of the past 10 years, detailed information about each of the transactions during the previous decade, the location of the entity, where the goods or services purchased with the federal dollars will be performed or purchased, and a unique identifier, such as the Dun & Bradstreet number commonly used by the private sector.  

Það sem gerir þessa hugmynd virkilega magnaða er að almenningur á að hafa aðgang að þessum gagnagrunni - og þó mikið af þeim upplýsingum sem Coburn gerir ráð fyrir að verði í honum séu nú þegar opinberar er langt frá því að þær séu mjög aðgengilegar. Fjárlagafrumvarp Bandaríkjaþings, t.d. er nánast ógerlegt að skilja - og þar er t.d. ekki hægt að finna upplýsingar um fé sem er veitt til ýmissa verktaka og undirverktaka.

Frumvarpið hefur fengið frekar kuldalegar viðtökur hjá mörgum þingmönnum republikana, þeirra á meðal Bill Frist, en gegnsæi það sem frumvarpið gerir þingmönnum miklu erfiðara að lauma inn í fjárlög bitlingum og vafasömum verkefnum. Hugveitur, bæði á hægri og vinstrivængnum, og pólítísk blogg í Bandaríkjunum eru hins vegar flest fylgjandi frumvarpinu, enda er þetta sennilega ein besta hugmynd sem ég hef séð í langan tíma! Það er varla hægt að hugsa sér betra vopn í baráttunni gegn spillingu og sóun en gagnagrunn af þessari gerð.

Eitt af því sem gerir þetta frumvarp, og forystu Coburn fyrir því, spennandi er að það gengur þvert á stefnu núverandi stjórnvalda að takmarka aðgang almennings og fjölmiðla að upplýsingum um athafnir ríkisvaldsins, undir því yfirskini að 'stríðið gegn hryðjuverkum' þoli ekki að almenningur viti hvað stjórnvöld aðhafast.

Vissulega er hægt að segja að barátta Coburn gegn spillingu lykti af populisma - og það er varla hægt að hugsa sér mikið popúlískara baráttumál en að upplýsa almenning um hvað verði um skattpeninga. En frumvarp Coburn gengur eiginlega of langt til þess að það sé hægt að afskrifa það sem pólítískt uppistand. Meðflutningsmenn frumvarpsins eru republikanin John McCain og demokratinn Barak Obama - og republikaninn Rick Santorum. McCain og Obama eru báðir ötulir talsmenn gegn spillingu og sóun, en ég á erfiðara með að átta mig á því hvað Santorum er að gera í þessum félagsskap.

En til að gera langa sögu stutta þá held ég að Friðjón hafi haft á réttu að standa þegar hann benti mér á að það gæti verið vafasamt að flokka stjórnmálamenn vestra einvörðungu eftir því hvar þeir standa í menningarstríðunum. Við bíðum nú spenntir eftir því að sjá hvernig frumvarpi Coburn reiðir af.

M.

 

 


Hvað verður nú um hjónabandið?!

Baráttumenn fyrir helgi hjónabandsins og almennu siðgæði urðu fyrir öðru áfalli í Bandaríkjunum nú um daginn. Dómari í Norður Karólínu, sem á eftir Suður Karólínu og Suður Dakóta er eitt afturhaldssinaðasta fylki Bandaríkjanna hefur lýst því yfir að 201 ára gömul lög sem banna ógiftu fólki að búa saman gangi í berhögg við stjórnarskrána. Það ótrúlega við þessi lög er að þeim var raunverulega framfylgt! Ekki bara gegn samkynhneigðum, eins og maður hefði kannski haldið, heldur einnig gagnkynheigðu fólki sem lifði í synd... bæði notaði ríkið lögin sem yfirskyn til að neita fólki um félagsmálaaðstoð eða önnur réttindi, heldur gat fólk átt á hættu að sambúð þess yrði að lögreglumáli. Síðan 1997 hefur Norður Karólínuríki lögsótt 36 manns fyrir brot á þessum lögum, sem áður nefndust the fornication and adultery statute, en í þeim stendur m.a.

"If any man and woman, not being married to each other, shall lewdly and lasciviously associate, bed and cohabit together, they shall be guilty of a Class 2 misdemeanor."

Samkvæt seinasta manntali voru alls 144.000 ógift pör í sambúð í Norður Karólínu - og því ljóst að ríkisvaldið hefði þurft að leggja flest önnur verkefni á hilluna til að sjá til þess að lögunum væri framfylgt. Líkt og önnur furðuleg og forneskjuleg löggjöf um samskypti kynjanna hafa þessi lög þó aðallega ógnað réttindum samkynhneigðra, en afnám þeirra, er líkt og afnám 'the sodomy law' í Texas ekki bara sigur nútímans og skynseminnar yfir forneskju og fáránleika, heldur mikilvægt skref í réttindabáráttu samkynhneigðra.

Fréttin er öll hér.

M


Meira af utanríkispólitík og republikönum

Washington post hefur undanfarna daga verið að flytja fréttir af vaxandi óánægju innan Republikanaflokksins með utanríkisstefnu forsetans. Í gær birti blaðið langa grein um gagnrýni frá hægri væng flokksins - hugmyndasmiðum og þeirri merkilegu stétt fólks sem heitir 'commentators' - á það sem þessu fólki finnst vera fálmkennd og of varkár viðbrögð við Íran og Norður Kóreu, og nú síðast aðgerðaleysi forsetans í nýjasta stríði Ísrael við nágranna sína.

Í dag birti blaðið svo grein um að þingmenn flokksins séu núorðið svartsýnni á gang mála í Írak, og að bjartsýnismantra forsetans njóti minni stuðnings í þingliðinu.

Það sem er athyglisvert við þessar fréttir er að þær virðast benda til þess að innan flokksins séu öfl sem togi í sitt hvora áttina - annarsvegar þingmenn og hins vegar hugmyndasmiðirnir. Margir þeirra þingmanna sem Washington Post telur upp eru í Norð-Austurríkjunum eða Miðvesturríkjunum, fylkjum sem eru yfirleitt nær miðju eða frekar til vinstri - en Demokratar hafa einmitt sett mark sitt á að fella republikana sem standa tæpt í þessum fylkjum. Það er því skiljanlegt að þeir séu núna að reyna að sýn að það sé munur á þeim og harðlínustefnu forsetans.

Hugmyndasmiðirnir, sem augljóslega þurfa ekki að hafa áhyggjur af því að missa vinnuna í næstu kosningum, geta hins vegar haft efni á að halda í harðlínuhugmyndir sínar, hvað svo sem staðreyndunum líður.

En það er eiginlega þetta sem er mikilvægast: Nú eru jafnvel þingmenn republikana farnir að leyfa sér að tala um það opinberlega að Bandaríkjamenn séu í ógöngum í Írak. Meðan flokkurinn stóð sem einn maður að baki forsetans, og endurtók í sífellu sama sönginn um hversu vel allt gengi, hvernig bandaríkjamenn væru alltaf fimm skrefum frá því að vinna endanlegan sigur á uppreisnaröflunum, var hægt að halda því fram að allar fréttir um að stríðið gengi ílla, og öll gagnrýni á stríðsreksturinn, væri pólítískt skítkast á forsetann - mótíverað af einhverju óskiljanlegu hatri á honum sem manni. Það var standardsvar republikana við allri gagnrýni - hún væri 'partisan' árásir á forsetann, runnin frá hatri allra vinstrimanna og róttæklinga á Bandríkjunum. Nú, og ef fréttirnar voru allar slæmar var það líka vegna þess að allir fréttamennirnir væru vondir vinstrimenn.

Meðan republikanaflokkurinn stóð þétt saman var hægt að viðhalda þessari skýringu - en um leið og hópar hógværari þingmanna flokksins eru farnir að leyfa sér að gagnrýna forsetann og stríðið er þessi skýring dauð. Það er ekki lengur hægt að afskrifa gagnrýni sem flokkspóltískt mótiveraða. Það er því smá von til þess að það geti orðið einhverjar skynsamar umræður um stríðið fyrir kosningarnar í haust.

M


Lygar, sóun á skattpeningum og 'the right to life'

Af föstum liðum á stefnuskrá Republikanaflokksins er sóun á almannafé efst á lista, á eftir baráttunni fyrir 'réttindum ófæddra' kjósenda - stjórnarskrárbundi réttindi lifandi kjósenda virðast skipta minna máli. Og sannleikurinn virðist skipta minnstu máli - sérstaklega ef hann stangast á við önnur mikilvæg stefnumál...

Nýjasta dæmið er frétt í Washington Post í gær, en ríkið hefur veitt yfir 30 milljónum dala til að styrkja 'pregnancy resource centers', sem eiga að veita konum ráð um meðgöngu og fóstureyðingu - en þeim peningum hefur verið varið til að fjármagna starfsemi sem segir konum að fóstureyðingar stórauki líkur á brjóstakrabbameini og leghálskrabbameini og dreifir fleiri ósannindum og ýkjum um áhættuna sem fóstureyðingar feli í sér. Þá hafa 'pregnancy resource centers' dreift upplýsingaritum þar sem því er haldið fram að pillan auki líkur á að smitast af AIDS og auki líkur á ófrjósemi. Markhópurinn eru viðkvæmar ungar konur og unglingsstúlkur, sem í mörgum tilfellum vita ekki betur, og er því hægt að kúga með hræðslu til þess að skipta um skoðun...

Nú er það þannig að í frjálsu samfélagi hlýtur fólk að hafa fullan rétt á því að hafa allar þær heimskulegu og mannfjandsamlegu skoðanir sem því sýnist, og jafnvel opna upplýsingaksrifstofur til þess að dreifa þessum skoðunum sínum. Það er því hægt að unna afturhaldsöflunum að reka áróður gegn fóstureyðingum - það er hins vegar fullkomlega óeðlilegt að skattpeningum almennings sé varið til þessa. Með hjálp almannafjár og mórölskum stuðningi ríkisvaldsins hefur 'the right to life' öflunum hins vegar tekist að komast upp með að dreifa upplognum sögum um áhættuna sem fylgi fóstureyðingum, getnaðarvörnum og nú síðast plan-B getnaðarvörninni. Í siðmenntuðu nútímasamfélagi hlýtur það að vera hlutverk ríkisins að hjálpa þegnunum að taka réttar og skynsamar ákvarðanir.

Ef það eru skiptar skoðanir um hvort fóstureyðingar séu móralskt réttar eða rangar - og ef fólk trúir því að almættinu sé það sérstaklega að skapi að einstæðar unglingsstúlkur eignist börn sem þær ekki geta séð fyrir, er þessu sama fólki fullkomlega frjálst að halda þessu rugli fram opinberlega. En það að nota almannafé til að fjármagna lygamaskínu þessa fólks er fyrir neðan allar hellur.

M

 

 


Fanglsisiðnaðurinn og innflytjendur

dreifing fangabúða

Í hávaðanum í kringum kröfur um að harðar verði tekið á ólöglegum innflytjendur, hefur lítið verið fjallað um kostnað þess að fangelsa ólöglega innflytjendur. Gagnrýnendur harðari innflytjendalöggjafar hafa auðvitað bent á að kerfið ráði einfaldlega ekki við að stórfjölga handtökum.

Stuðningsmenn harðari innflytjendapólitíkur njóta hins vegar stuðnings frá stórfyrirtækjum sem bera vinaleg nöfn á borð við The Corrections Corporation of America - Fangelsisiðnaðinum, sem að öllum öðrum vafasömum iðnaði eða sérhagsmuna hópum ólöstuðum, er líklega einna vafasamasti þrýstihópurinn í bandarískum stjórnmálum. Þannig hefur fangelsisiðnaðurinn þrýst á stjörnvöld að gefa ekkert eftir í 'stríðinu gegn fíkniefnum', og barist harkalega gegn því að eiturlyfjaneytendur séu sendir í meðferð frekar en fangelsi.

Í landi þar sem nærri 1% fullorðinna eru í fangelsi er augljóst að það að byggja, eiga og reka fangelsi getur verið góður bissness. En eins og allir bissnessmenn þurfa þeir sem reka fangelsi að finna viðskiptavini, en þar sem fæstir sækjast eftir að gista fangelsi ótilneyddir þarf fangelsisiðnaðurinn að sjá til þess að ríkisvaldið sjái þeim fyrir stöðugum straum kúnna.

Samkvæmt grein í NYT í dag eru um 27.500 ólöglegir innflytjendur í haldi á hverjum degi og nóttin kostar að meðaltali 95$. Einkafyrirtækjum á borð við Corrections Corporation of America hefur hins vegar ekki tekist að ná nema 20% af þessum markaði. Afgangurinn er hýstur af alríkinu eða smærri fangelsis fyrirtækjum - alríkisstjórnin hyggur hins vegar ekki á að byggja fleiri fangabúðir til að hýsa ólöglega innflytjendur, og því er augljóst að ef ólöglegum innflytjendum í haldi fjölgar mun það þýða að stóru fangelsisfyrirtækin geta aukið markaðshlutdeild sína... þetta hafa fjármálamarkaðirnir gert sér ljóst, og hlutabréf í fangelsisiðnaðinum hafa hækkað um 27-68% síðan forsetinn lýsti því yfir að hann hygðist taka harðar á innflytjenda vandamálinu.

Ástæðurnar fyrir því að fangelsisfyrirtkin hafa áhuga á ólöglegum innflytjendum eru margar. Í fyrsta lagi græða þau meira á að hýsa ólöglega innflytjendur en venjulega glæpamenn - hinir síðarnefndu eru nefnilega flestir ríkisborgarar, og það þarf að bjóða þeim upp á betri aðstöðu en útlendingunum. En önnur ástæða er sú að dregið hefur úr vaxtarhraða 'the prison population' - á síðari hluta tíunda áratugarins fjölgaði föngum um 4.3% á ári (töluvert umfram fjölgun íbúafjöldans), en á seinustu fimm árum hefur þeim aðeins fjölgað um 1.4%. Fyrir vikið hafa fyrirtækin töluvert svigrúm til að taka við ólöglegum innflytjendum. Því er hins vegar spáð að ólöglegum innflytjendum á bak við lás og slá muni fjölga 20% á næstu þremur mánuðum. Og á sama tíma benda áætlanir til þess að ólöglegum innflytjendum hafi raunverulega fækkað.

M


Hómófóbía og vandræðagangur með kynjahlutverk

Um daginn skrifaði Richard Ford áhugaverða grein á Slate þar sem hann velti því fyrir sér hvort það væri í raun hómófóbía sem knýr áfram andstöðu bandarísks almennings gegn hjónaböndum samkynhneigðra. Niðurstaða Ford var sú að Bandaríkjamenn væru almennt, hægt og bítandi, að gefa upp fordóma gegn samkynhneigðum - og nefndi því til stuðnings að viðhorf almennings til samkynhneigðra hefðu batnað mikið á undanförunum áratugum. Með einni undantekningu þó - afstaða almennings til hjónabanda samkynhneigðra hefur lítið sem ekkert breyst: almenningur er enn jafn andsnúinn því nú og fyrir tuttugu árum síðan að samkynhenigðir megi giftast.

Ford skýrir þetta með því að bandaríkjamenn eigi í mjög djúpstæðri kreppu með kynhlutverk sín, og að hjónabandið sé ein mikilvægasta stoðin undir hugmyndir um hvað geri konu að konu, og karlmann að karlmanni.

Þessi grein Ford hefur kallað á töluverð viðbrögð, og í gær tók Slate saman viðbrögð lesenda við kenningu Ford. Þessar vangaveltur allar eru mjög áhugaverðar, því þær velta upp einu af grundvallarvandamálunum við réttindi minnihlutahópa - nefnilega kröfunni um að vera viðurkenndur sem fullgildur meðlimur og þátttakandi í samfélaginu. Og ég held ennþá að Ford hafi á réttu að standa þegar hann bendir á að það sé mikilvægur munur á þeim sem berjast gegn réttindum samkynhneigðra vegna þess að þeir eru mótiveraðir af alvöru hatri, og svo þeirra sem eru mótiveraðir af djúpstæðu anxiety yfir eigin kynferði. Auðvitað er þetta allt samtengt, en það er auðveldara að lækna vandræðagang með kynjahlutverk en að lækna hómófóbíu...

Meðan bandarískir karlmenn halda að það sé hámark karlmennskunnar að liggja eins og landreknir hvalir og þamba bjór í sófanum að horfa á 200 kílóa ómenni hlaupa um í plastbrynjum með lítinn bolta, er skiljanlegt að þeir sjái að það eina sem gerir þá að meiri karlmönnum en Will í Will og Grace er að þeir eru giftir...

M


Utanríkispólitíkin að drepa stóra tjaldið?

Það er búin að vera hálfgerð gúrkutíð í bandarískum stjórnmálum og culture wars undanfarna daga. Herðanarbrölt Ísraelsríkis og Norðurkóreu virðast hafa étið upp alla athygli fjölmiðla. Og þó samvinnuríkið og alþýðulýðveldið séu bæði stórmerkileg og áhugaverð fyrirbrigði hef ég eiginlega ákveðið að fylgjast sem minnst með fréttum af eldflaugaárásum smáríkja, þó þau búi yfir kjarnorkuvopnum...

En það er annað mál sem ég hef verið að fylgjast aðeins með - en það er gagnrýni frjálshyggjumanna í Republikanaflokknum á Ný-íhaldsöflin, en flokkurinn hefur verið í greipum þeirra síðan haustið 2000. Þessi gagnrýni hefur kraumað undir yfirborðinu í langan tíma, en hefur í auknum mæli verið að koma upp á yfirborðið, t.d. á Cato-at-liberty, sem er blogg Cato stofnunarinnar.

Í ljósi þess hversu afspyrnu vond og heimskuleg öll pólitík Bush-stjórnarinnar hefur verið, (og í fullkominni andstöðu við allar hugmyndir frjálshyggjunnar), er forvitnilegt að sjá að það er yfirleitt utanríkispólitíkin sem Cato kvartar yfir. Fjárlagahallinn kemur augljóslega oftar fyrir - en bloggarar Cato virðast rólegri með að gagnrýna utanríkispólitík en innanríkispólitík. Í ljósi þess að ný-íhaldsöflin hafa gert utanríkispólitíkina að eina pólitíska hugsjónamáli sínu gæti þetta verið nokkuð afdrifaríkt. Skattaeftirgjafa og ríkisgjaldþrotspólitík forsetans er hrein hagsmunapólitík og hefur ekkert með hugsjónir að gera, þó forsetinn og stuðningsmenn hans reyni að klæða skattaeftirgjafir upp sem einhverskonar 'limited government' eða efnahagspólitík. Annað gildir um 'values' pólitíkina, en hún er rekin til þess eins að veiða atkvæði afturhaldssamra kristinna kjósenda. Leiðtogalið flokksins hefur enga pólitík aðra en völd - og útflutning lýðræðis til Mið-Austurlanda. Values kjósendur flokksins gátu skrifað upp á utanríkispólitíkina, því í þeirra huga var stríð gegn villutrúarmönnum og harðstjórum á bökkum Efrat og Tigris frekar heillandi.

Ef Cato leggur í harðari gagnrýni á stefnu forsetans gæti forsetakosningarnar 2008 orðið ansi áhugaverðar, því næsta forsetaefni GOP mun fá það hlutverk að móta afstöðu flokksins til 'arfleiðar' Bush.

M


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband