fim. 3.5.2007
George Tenet flýr sökkvandi skip
Fyrst er auðvitað að nefna fréttir af saksóknarahreinsuninni. Það mál allt mund sennilega dragast fram í janúar 2009 þegar næsti forseti Bandaríkjanna tekur við. Dómsmálaráðuneytið og Alberto Gonzales virðast hafa ákveðið að besta leiðin til að sigrast á því hneykslismáli sé að bíða það út og vona að áhugi almennings og blaðamanna þorni upp, en láta samt líta út fyrir að starfsmenn ráðuneytisins séu að sýna þinginu samvinnu. Á hverjum föstudagseftirmiðdegi afhendir ráðuneytið ný skjöl tengd hreinsununum, og það líður varla sá dagur að það berist ekki einhverjar fréttir af Gonzales, Kyle Simspon, Monicu Goodling (Goodling virðist lykillinn að þessu máli öllu...) eða öðrum republican apparatchicks í ráðuneytinu. En því miður er engar þeirra nógu dramatískar að maður geti séð fyrir endann á þessu máli. Flestar fréttirnar eru eiginlega of undarlegar til þess að maður geti alveg áttað sig á því hvað var í gangi. Dómsmálaráðuneytinu undir Gonzales virðist hafa verið breytt í einhverskonar kafkaíska martröð.
Hitt stórmálið eru svo átök þingsins og forsetans um hvort herinn verði kallaður frá Írak. Forsetinn segir nei og þingið víst, og forsetinn fær samt sínu framgengt. Sú saga er eiginlega ekki mikið flóknari. Ástæðan er vitaskuld að þingið getur varla kallað herinn heim úr miðju stríði, sama hversu ílla það stríð gengur - í það minnsta ekki gegn vilja forsetans. Þó yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar styðji þingið gætu repúblíkanar auðveldlega snúið því máli sér í vil. Það eru því allar líkur til þess að næstu vikur og mánuði muni þessi leikur endurtekinn nokkrum sinnum. Ég yrði allavegana mjög undrandi ef forsetinn gæfi eitthvað eftir.
Hinar stórfréttirnar sem dragast endalaust út hafa ekki fengið eins mikla spilun í fjölmiðlum. Annarsvegar er rannsókn á starfsemi og spillingu á vegum Karl Rove. Ef sú rannsókn leiðir eitthvað bitastætt í ljós gæti það orðið afdrifaríkara en bæði deilur forsetans og þingsins um Írak eða saksóknarahreinsunin, því ef Rove er fjarlægður úr Hvíta Húsinu myndu demokratar geta sótt þeim mun harðar að forsetanum. Gildir þá raunverulega einu hvort brotthvarf Rove hafi einhver áhrif á Bush eða (vara)-forsetann Dick Cheney, aðalatriðið er að í hugum pólítískra andstæðinga er Rove heilinn á bak við alla opperasjónina.
Hins vegar er það svo innrásin í Írak. Það er ótrúlegt að bandaríkjamenn séu enn, meira en fjórum árum seinna, að deila um réttmæti innrásarinnar. Ekki að deilan virðist hafa verið leidd til lykta: innrásin var óþörf, röng og ílla undirbúin. Vandamálið er að forsetinn og stjórnin hafa neitað að viðurkenna nokkurn skapaðan hlut, og hanga í því að innrásin hafi bæði verið réttmæt og nauðsynleg. Henry Waxman, formaður endurskoðunar og eftirlitsnefndar þingsins (House Oversight and Government Reform Committee) hefur t.d. stefnt Condoleezza Rice fyrir nefndina til að útskýra aðdraganda stríðsins.
Vandamálið er að það bendir allt til að stjórnin hafi beinlínis logið að bandarísku þjóðinni í aðdraganda innrásarinnar, nýjar vísbendingar koma fram daglega sem renna stoðum undir þann ílla grun margra að þessi "gereyðingarvopna"-saga stjórnarinnar hafi ekki bara verið "faulty intelligence", heldur beinlínis uppspuni. Seinastur til að koma út úr skápnum og viðurkenna þetta var auðvitað George Tenet, sem var yfirmaður leyniþjónustunnar þegar innrásin var skipulögð, og varð frægur fyrir "slam dunk" komment sitt um gereyðingarvopn Saddam.
Í nýrri bók sinni heldur Tenet því svo fram að hann hafi aldrei sagt neitt þessu líkt, og ásakar fyrrverandi yfirmenn sína um að hafa dregið þjóðina út í stríð sem hafi ekki átt rétt á sér.
Þetta eru auðvitað stórfréttir, og þó. Auðvitað vissu allir sem hafa fylgst með bandarískum stjórnmálum að Bush og Cheney drógu þjóðina á asnaeyrunum í aðdraganda stríðsins. Svo lyktar þessi bók Tenet af mjög ómerkilegri sjálfsréttlætingu. Það er auðvelt að koma fram núna, mörgum árum seinna, og halda því fram að maður hafi allan tímann vitað að þetta væri vond hugmynd. Fréttaskýrendur og aðrir hafa því spurt hvernig standi á því að Tenet hafi ekki reynt að stöðva innrásina á sínum tíma, hann var í aðstöu til að gera eitthvað, fyrst hann vissi svona vel að þetta væri vond hugmynd?
En viðurkenning Tenet er þó mikilvægasta sönnun þess að innrásin í Írak hafi verið röng - jafnvel glæpsamleg - sem fram hefur komið til þessa. Eins og Howard Kurtz á Washington Post, sem er frekar hægrisinnaður og hefur á undanförnum árum oft ásakað blaðamenn sem voga sér að efast um utanríkisstefnu forsetans "landráðamenn", benti á fyrir nokkrum dögum:
So what's interesting here is: This is no longer the liberal media saying this. This is no longer a bunch of journalists of questionable patriotism saying the Bush administration rushed to war; wanted to invade Iraq all along; didn't have a serious debate. This is the former director of the Central Intelligence Agency and I think, in some ways -- leaving his motivation aside -- he has validated the press accounts that we've seen about the way that this war unfolded.
Ef George Tenet getur ekki lengur varið innrásina í Írak - ef yfirmaður CIA meðan á undirbúningi innrásarinnar stóð, kemur fram og segir að innrásin hafi verið röng og að forsetinn hafi dregið þjóðina á asnaeyrunum - hvernig getur nokkur önnur manneskja vogað sér að verja stríðið?
Undir þessari frétt er svo önnur, sem tengir allar þessar fréttir saman: Ríkisstjórn Bush virðist vera að liðast í sundur. Ef George Tenet telur að það sé vænlegra að gerast liðhlaupi úr "the pro-Bush camp" er ílla komið fyrir forsetanum. Tenet var einn af valdamestu mönnum Bandaríkjanna, og fyrir nokkrum árum afhenti forsetinn honum "The Presidential Medal of Freedom" fyrir þjónustu sína við landið. Þegar liðhlaupið er komið inn í innsta hring er ljóst að það er farið að þrengjast að forsetanum - og ef þetta liðhlaup heldur áfram er óvíst að forsetinn geti beðið út sókn demokrata sem sækja nú að honum úr öllum áttum.
M
ps. ég breytti fyrirsögninni - upprunalega ætlaði ég að skrifa um bæði Tenet og Rick Renzi, (þá átti þetta að vera "George Tenet, Rick Renzi og aðrar rottur flýja... sem er kannski frekar hallærisleg stuðlun og höfuðstöfun eða "brandari" en ég hef svosem aldrei haldið því fram að ég sé neitt stórskáld eða húmoristi...) sem er þingmaður og töluvert minni spámaður en Tenet, og sætir þess utan FBI rannsókn vegna spillingarmála - Renzi hefur nefnilega líka kosið að reyna að kenna ríkisstjórninni um allar ógöngur sínar, ásakað dómsmálaráðuneytið um kosningasvindl, og almennt reynt að skjóta sjálfum sér undan allri ábyrgð... ég skil reyndar ekki alveg röksemdir Renzi, en það er kannski ekki meiningin:
Renzi defended himself against the corruption allegations Tuesday in an interview with 12 News. He said the inquiry and the public disclosure of it were aimed at defeating him politically.
"And to make that up and put that out means the Department of Justice was engaged in electioneering, and it needs to be investigated," he said.
Svo ákvað ég að sleppa því að vera að rifja upp þessa Renzisögu, því hún er eiginlega ekkert sérstaklega áhugaverð. Fyrir utan að Renzi virðist vera óttalegur djöfulsins mörður.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:19 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.