mið. 14.3.2007
Ríkissaksóknaramálið og Gonzales
Mikilvægasta málið í Bandarískum fjölmiðlum þessa dagana er tvímælalaust ríkissaksóknarabrottrekstur Bush stjórnarinnar. Úr fjarlægð lítur þetta mál afspyrnu óspennandi út. Og Gonzales og Bush hafa líka gert sitt besta til að láta líta svo út sem þetta sé eitthvað minniháttar mál eða allsherjar pólítískt fjaðrafok. Ein helsta lína forsetans og repúblíkana hefur verið að alríkissaksóknarar séu pólítískt skipaðir, og forsetinn hafi því fullan rétt til að reka þá eins og honum sýndist.
Að vísu viðurkenndi í gær að hann hefði "staðið ílla" að brottrekstrinum - en stjórnin heldur enn í meginatriðum við þá afsökun að saksóknararnir hafi verið reknir vegna þess að þeir hafi fengið slæm starfsmöt. Enn önnur skýring birtist í Morgunblaðinu um daginn, nefnilega að þeir hefðu verið reknir eftr að kvartanir "hefðu borist yfir því að þeir hefðu ekki fylgt nægilega eftir rannsóknum á kosningasvindli". Sú skýring kom víst frá einhverjum blaðafulltrúa Hvíta Hússins.
Þetta virðist því vera frekar einfalt "open and shut case". Saksóknararnir sem voru reknir voru einhverskonar skúnkar, og forsetinn hafði fullan lagalegan rétt til að reka þá?
Vissulega er það rétt að alríkissaksóknarar eru pólítískt skipaðir, og fyrri forsetar hafa rekið saksóknara sem þeim líkaði ekki við. En afgangurinn af þessu máli öllu lyktar mjög grunsamlega. Í fyrsta lagi hefur enginn fyrrverandi forseti rekið marga sakskóknara á miðju kjörtímabili. Forsetar hafa skipt út saksóknurum þegar þeir taka við embætti, en eftir það eiga saksóknarar að vera nokkuð sjálfstæðir frá pólítískum þrýstingi - því þótt þeir séu pólítískt skipaðir eru embætti þeirra ekki pólítískt í sama skilningi og t.d. embætti dómsmálaráðherra. Hlutverk þeirra er að rannsaka glæpi og sækja glæpamenn til saka - ekki að reka pólítík.
Þess utan höfðu allir saksóknararnir sem voru reknir fengið góð og afbragðsgóð starfsmöt skömmu áður en þeir voru reknir! Og á sama tíma berast fréttir af því að Karl Rove og þingmenn Repúblíkana hafi hist og rætt hvaða saksóknarar væru ekki nógu auðsveipir Flokknum.
Því það er þar sem hnífurinn stendur í kúnni: Bush og Alberto Gonzales hafa kerfisbundið unnið að því að ná pólítískum völdum yfir dómskerfinu, og því hefur kerfisbundið verið beitt til þess að ofsækja demokrata. Allir saksóknararnir sem voru reknir höfðu neitað að láta undan pólítískum þrýstingi að hefja rannsóknir á demokrötum sem ógnuðu endurkjöri þingmanna repúblíkana, eða þeir höfðu verið að rannsaka þingmenn og öldungadeildarþingmenn repúblíkanaflokksins. Og þetta er ekki í fyrsta skipti sem dómsmálaráðuneytið er staðið að því að reka saksóknara sem fara að snuðra í kringum spillta repúblíkana.
Þetta mál snýst nefnilega um annað og meira en að Bush hafi rekið nokkra saksóknara, eða að Alberto Gonzales hafi staðið ílla að brottrekstri þeirra. Það snýst um að hulunni hefur verið svipt af kerfisbundinni tilraun Bush til að vernda spillta repúblíkana og ofsækja pólítíska andstæðinga.
Og, jú, þetta er sami Gonzales og hélt því fram að það væri allt í lagi að pynta fanga, varði ólöglegar innanríkisnjósnir forsetans, og hélt því fram að stjórnarskráin verði borgarana ekki gegn órökstuddri fangelsun... Og nú seinast er hann staðinn að því að reka ríkissaksóknara sem marsera ekki lock step í snyrtilegri röð á eftir foringjanum. Ég held að það sé seint hægt að segja að Gonzales sé ötull varðmaður lýðræðis, réttarríkisins og persónufrelsis.
M
Meginflokkur: Ríkisvald | Aukaflokkar: Bush, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ég skil ekki hvaða blöð/blogg mbl.is er að "lesa og áframsenda" (aka copy/paste) fréttir til okkar Íslendinga. Þeir t.d. átu upp fréttina um Al Gore og rafmagnsreikningana alveg hráa án þess að minnast á hvað Gore sjálfur hefði um þetta að segja né leiðréttu þeir fréttina þegar kom í ljós að þessi rannsóknarstofnun (sem ég man ekki hvað heitir) væri einhver undarleg pseudo-stofnun. Ég amk sá enga frétt um það.
Ekki það að ég sé að segja að þeir eigi að skipta yfir í copy/paste af crooksandliars.com, americablog, dailykos eða huffingtonpost án þess að hugsa en það væri gaman ef hlutirnir væru aðeins athugaðir og/eða hugsaðir út áður en þeim er hent út á mest lesna fréttavef landsins.
mbs (IP-tala skráð) 14.3.2007 kl. 16:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.