Tag-clouds af SOTU ræðum Bush og Webb

Um daginn sá ég þetta tag-cloud af State of the Union ræðu Bush, og rakst núna áðan á samskonar tag cloud af andsvari Webb, og sömuleiðis tag-clouds af fyrri SOTU ræðum Bush. Fyrir þá sem ekki þekkja til eru Tag-clouds leið til að draga saman teksta á myndrænan hátt. Á myndinni birtast orð stærra eftir því hversu oft þau eru nefnd, en röð orðanna getur ýmist farið eftir því hvenær þau birtast fyrst í tekstanum, eða þá er þeim raðað í stafrófsröð. Og þó tag-clouds hafi verið hönnuð af leitartækni-fræðingum eru þau líka frábært tæki til að greina orðræðu. Á Amazon.com er t.d. hægt að sjá Tag-clouds af stafrænt leitanlegum bókum (undir concordance).

Ræða forsetans:

tag cloud bush

Andsvar Webb:

tag cloud webb

Hvor ofan á annarri sýna myndirnar blátt á hvítu muninn á ræðum þeirra Bush og Webb, og þar með muninn á því "public message" sem forsetinn annarsvegar og þingið undir stjórn demokrata hins vegar, eru að senda bandarísku þjóðinni. Það er sérstaklega forvitnilegt að bera saman hversu oft Bush og Webb nefna orðið stríð: Bandaríkin eru í stríði sem hefur kostað þúsundir mannslífa og stjarnfræðilegar upphæðir í skattfé almennings. Í skoðanakönnunum, þegar Bandaríkjamenn eru spurðir hvað sé mikilvægasta og alvarlegasta málið sem stjórnvöld verði að takast á við, nefnir yfirgnæfandi meirihluti almennings stríðið í Írak. Og kosningarnar í nóvember snérust mjög um stríðið. Það er til marks um hversu þungum skugga þessi misheppnaða og vanhugsaða herför er orðin á forsetanum og Repúblíkanaflokknum, sem skíttapaði þessum sömu kosningum, að hann forðast í lengstu lög að nefna orðið "stríð". Þessi yfirsjón forsetans er enn meira sláandi þegar ræða hans er borin saman við andsvar Webb!

Americablog - sem er eitt besta liberal blogg í Bandaríkjunum - birti auk þess myndir af tag-clouds fyrir fyrri SOTU ræður forsetans. Þær veita merkilega innsýn í þróun þess hvað Hvíta Húsið hefur viljað telja fólki trú um að það hefði á stefnuskránni.

Fyrsta allar SOTU ræður forsetans, 2001-2007:

SOTU tag clouds 2001-2007

Og 10 mest notuðu orðin hvert ár:

SOTU tag-cloud summary 2001-2007

Ef maður horfir á þessa mynd sýnist mér að árið 2001 hafi fjárlög, ríkisrekstur og skattar verið aðalmálin á dagskrá, 2002 hryðjuverkamenn og Ameríka, 2003 Ameríka, þjóðin, Saddam, vopn og heimurinn, 2004 (sem var kosningaár) voru skattar og Ameríka aftur aðalmálið, 2005 var klárlega um frelsi og öryggi - en ég get ekki áttað mig á því hvað 2006 snérist um: Ameríku, þjóðina og heiminn? En þetta hlýtur að hafa verið hástemmd ræða! En nú í ár? Sú ræða virðist ekki hafa fjallað um neitt - eina orðið sem stekkur út er "Ameríka".

Ég gat með engu móti fest fingur á því hvað forsetinn var að reyna í stefnuræðu sinni - hvorki þegar ég horfði á hana í sjónvarpinu, né þegar ég sá þessi Tag-cloud af henni. En þegar ég var að horfa á tíu orða langa úrdráttinn sýndist mér að ræðan hafi aðallega snúist um Ameríku, heilsu, hús - og þjóðina. Þetta byrjar á Ameríku, en svo er talað um heilsu og hús, og annað mikilvægasta orð ræðunnar birtist: þjóð. Kannski er þetta inngangur að angurværri sögu um fallegt ævintýraland þar sem þjóðin er sæl og býr í húsum og er heil heilsu? Mjög patriotic og bjartsýnn tónn allavegana. Gott að byrja svona ræður á bjartsýnum tón og patritisma- allt frá því Reagan sigraði Carter á því að vera "jákvæður" hafa bandaríkjaforsetarn vonast eftir því að fólk sæi þá sem bjartsýna frekar en svartsýna. En um leið og orðið Þjóð birtist sjáum við, sem fjarlægan váboða, orðið Írak, svo við vitum að það eru blikur á lofti og þjóðinni kunni að vera órótt? En svo er nefndur til leiks forsetinn. Og lesandinn stendur á öndinni! Hvað ætlar þessi karakter að gera? Er verið að kynna til leiks íllmennið í sögunni eða hetjuna? En nú veit lesandinn að þetta er spennusaga! Hvað gerir forsetinn? Það er ekki alveg ljóst af úrdrættinum - en það virðist hafa eitthvað með öryggi og terrorista að gera. Svo mikið er víst. Kannski eiga lesendur að halda að forsetinn ætli að gera úti um terroristana svo þjóðin geti verið örugg í húsunum sínum? Ég veit ekki, en þetta er ágætis saga, þó plottið sé svolítið linsoðið.

Það er líka eins og fyrri helmingurinn sé betur úthugsaður en seinni helmingurinn, þetta með hvernig forsetinn ætli að enda sem hetja sögunnar og gera úti um hryðjuverkamennina. Reyndar held ég ekki að forsetinn hafi sjálfur minnstu glóru um hvernig hann ætli að ná því takmarki! 

M


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnlaugur Þór Briem

Bráðskemmtileg textagreining!

Gunnlaugur Þór Briem, 27.1.2007 kl. 15:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband