fös. 6.10.2006
Fleiri "Cut and run" Republikanar koma út úr skápnum
Í New York Times í morgun var frétt af því að það er ekki bara Bill Frist sem vill að Bandaríkin horfist í augu við að þau hafi tapað stríðinu í Afghanistan og Írak, og það sé kominn tími til að "cut and run" "leita nýrra leiða". John Warner, Formaður The Armed Services Committee öldungardeildarinnar heldur því fram að ástandið í Írak sé "drifting sideways", hvað sem það nú þýðir, en það virðist vera einhverskonar republikan code fyrir "vonlaust". Warner, sem er frá Virginíu, eins og Senator Macacawitz Allen, tók það skýrt fram að í sínum huga ætti ekki að útiloka neina möguleika. (Á myndinni eru þeir Warner og Frist. Warner er til hægri, þessi sem lítur út eins og afi Clark Kent.)
In two or three months if this thing hasnt come to fruition and this level of violence is not under control, I think its a responsibility of our government to determine: Is there a change of course we should take?
Þetta er mjög merkileg hugmynd, og mesta furða að engum skyldi hafa dottið þetta í hug fyrr: að skipta kannski um stefnu, svona í ljósi þess að fyrri stefna hafi leitt í algjört og fullkomið skipsstrand? Eða þessi radíkal hugmynd, að það sé kannski kominn tími til að horfast í augu við hið augljósa?
Ég var nú hálfpartinn að búast við því að republikanaflokkurinn myndi reyna að dreifa athygli okkar frá tölvupóstsendingum Foley, og fókusera athygli kjósenda aftur á Írak og beina umræðunni að stríðinu gegn hryðjuverkum - það er jú þar sem republikanaflokkurinn er á heimavelli. En þessu átti ég eiginlega ekki von á!
M
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 7.10.2006 kl. 17:26 | Facebook
Athugasemdir
Skýrðu það, vinsamlegast, hvernig "Bandaríkin" hafa tapað "stríðinu í Afganistan". Er ekki stríðið löngu búið? Er ekki bara verið að hreinsa landið af uppreisnaröflunum (Talibönum)? Og er ekki mannfallið sáralítið miðað við t.d. borgarastyrjöldina á Ceylon eða í Nepal eða Alsír? Hvers vegna er þessi sífellda áherzla á þau átakasvæði, þar sem mannfallið er sáralítið (svo sem á Vesturbakkanum eða Gaza eða Afganistan) miðað við löndin áðurnefndu? Hvers vegna eru vinstrisinnaðir Vesturlandamenn svona valkvæmir? Hvers vegna töluðu þeir tíu sinnum meira um herforingjastjórnina í Chile (sem var vissulega bæði grimm og hræðileg), meðan herforingjastjórnin í Argentínu var að drepa tíu sinnum fleira fólk? Já, hvers vegna, minn ötuli, nafnlausi "Freedom Fries"?
Jón Valur Jensson, 7.10.2006 kl. 15:05
Humm...
Er það ekki á allra vitorði að átök í afganistan eru að aukast og Talibanarnir eru í sókn? Maður þarf nú ekki að fylgjst nema í meðallagi vel til að vita þetta.
Kveðjur :)
Þórir Hrafn Gunnarsson, 7.10.2006 kl. 15:32
Ég sé ekki að ég þurfi að útskýra "valkvæmi" vestrænna vinstrisinna, né sé ég neina ástæðu til þess að fara að ræða Nepal og Ceylon eða herforingjastjórnir í Argentínu eða Chile. Satt best að segja held ég ekki að ég hafi nokkurntímann minnst á Gaza á þessu bloggi.
Stríðið í Afghanistan er 'tapað' í þeim skilningi að ef markmið bandaríkjanna voru að ganga milli bols og höfuðs á Al-Qaeda, þurrka út Talíbanana og koma á lýðræði í landinu, en það var þannig sem stríðið var selt bandarísku þjóðinni, þá hefur það tapast: engin af þessum markmiðum hafa náðst. Talíbanarnir sækja í sig veðrið, ríkisstjórnin í Kabúl stjórnar ekki nema rétt höfuðborginni meðan afganginum af landinu er stjórnað af vígamönnum. Ástandið hefur verið að versna - ekki batna. Ef Bush stjórnin væri ekki upptekin við að tapa öðru stríði gæti hún kannski snúið þessu við. Hinn valkosturinn er uppgjöf - en það er akkúrat það sem Frist stakk upp á.
Að lokum: Ég er ég ekki nafnlaus - það er bara bloggið sem heitir "Freedom Fries". Vinstramegin á síðunni er tengill "um höfundinn".
Bestu kveðjur, Magnús
FreedomFries, 7.10.2006 kl. 17:24
Heill og sæll, Magnús. Jæja, frábært er að vita, að vefsíðan http://freedomfries.blog.is/blog/freedomfries/entry/38145/ skuli upplýsa, að Freedom Fries er ekki einhver nafnleysingi. Mér er nefnilega svo illa við, þegar sumir standa langtímum saman í því að skrifa í skjóli nafnleysis á vefnum, margir þeirra jafnvel í hópi hinna illvígustu í persónulegum illdeilum eða ásökunum. Ég tek fram, að Magnús er ekki í þeirra hópi, hann skrifar um málefnin, þótt ég sé reyndar oft ósammála honum um mat á þeim málefnum, en hann er hvorki obscúrantískur (eins og sumir þeirra, sem leyfa engin andmæli á netrásum sínum) né bregzt hann illvígur eða persónulega við, þegar andmælum er hreyft. Það er nokkuð sem ég bæði virði og fagna.
Og eflaust var eitthvað í innleggi mínu í dag, sem ekki mátti taka sem gagnrýni á Magnús, eins og fram kemur í 1. svarsetningu hans áðan. Ég biðst velvirðingar á því, ef menn hafa túlkað það þannig, en ég talaði líka um vinstrimenn -- og tiltók ekki Magnús -- í þeim ummælum mínum.
Hvað um það, ég held það sé rangt hjá Magnúsi, að "ríkisstjórnin í Kabúl stjórnar ekki nema rétt höfuðborginni meðan afganginum af landinu er stjórnað af vígamönnum". NATO er tekið við ábyrgð á málum þarna, og ég sá ekki betur á einhverju yfirliti í fjölmiðli nýlega um viðbúnaðinn í landinu en að tekizt hefði að friða norðausturhéröðin eða ná tökum á þeim og síðan verið haldið áfram suður eftir landinu, en einna verst væri staðan í suður- og austurhlutanum. Það er vitaskuld endalaust hægt að kalla þetta "glataða stöðu", meðan talibanar halda áfram sjálfsvígsárásum á erlenda hermenn og jafnvel á eigin landsmenn, en sókn NATO gegn þeim, sem berjast í hópum og kúga vilja alþýðu, m.a.með mútum, til að láta undan vilja sínum, hefur verið allhörð undanfarna tvo mánuði og skilað árangri, betri en eigin manntjón NATO-manna hefur verið. Ástandið var vissulega að versna fyrr á árinu, en mér sýnist sóknarsnerpa NATO hafa verið býsna mikil hingað til, eftir að virkilega var farið að taka á þessu. Vart vilja neinir upplýstir menn á Vesturlöndum og víðar gefa landið allt á vald talibana. Og nú er þetta orðið mál Evrópumanna, m.a.s. okkar Íslendinga, sem eigum þarna fáeina (tvo eða þrjá?) borgaralega starfsmenn á vegum NATO-liðsins.
Með kveðju og þakklæti til manns hinnar frjálsu orðræðu, Magnúsar.
Jón Valur Jensson, 7.10.2006 kl. 18:33
Ég þakka Jóni fyrir vinsamlegar kveðjur! Við erum sammála um mikilvægi samræðu, skynsamlegrar, kurteisrar og öfgalausrar samræðu.
En þar sem við vorum að ræða Afghanistan datt mér í hug að benda á þessa frétt sem ég rakst á í morgun:
http://news.yahoo.com/s/ap/20061008/ap_on_re_as/afghanistan;_ylt=AqQ3WLgWarmGHyc3hJ3CWtGs0NUE;_ylu=X3oDMTA3OTB1amhuBHNlYwNtdHM-
Það eru auðvitað gleðifréttir að kanarnir hafi falið NATO að friða landið - því það virðist ekkert benda til þess að bandaríkjaher viti hvernig eigi að fást við uppreisnarmenn og "geithirði". Ég vona að NATO geti tekist að snúa þessu við, en ég er ekkert of bjartsýnn. Ekki frekar en yfirmenn NATO.
Magnús
FreedomFries, 9.10.2006 kl. 15:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.