George "The Great Macaca" Allen og James Webb áttust við í sjónvarpinu um helgina, og NYT telur að munurinn á þeim félögum kristallist í vali þeirra á skófatnaði. Allen, sem er samkvæmt mati áræðanlegra stjórnmálaskýrenda "a blowhard racist" kýs að ganga í kúrekastígvélum. Sennliega vegna þess að það er karlmannlegt, og svo eru kúrekastígvél með hæl, og Allen vill líklega bæta fyrir að vera stuttur í annan, eða einhvern endann, með því að líta út fyrir að vera nokkrum sentimetrum stærri.
James Webb, sem er demokrati, fyrrum landgönguliði í bandaríska hernum, barðist í Vietnam þar sem hann var sæmdur heiðursmerkjum, og á son sem er núna í Írak, hefur hins vegar kosið að ganga í gömlum hermannastígvélum. Á myndinni má sjá Macaca-Allen til vinstri, í pússuðum kúreka stígvélum, en Webb til hægri, í snjáðum hermannstígvélum. Af fótastöðunni má líka ráða að Allen sé fullur öryggis en Webb örlítið óviss. New York Times gerir töluvert úr þessum grundvallarmun á frambjóðendunum.
From the start, the Virginia Senate race was an emblematic campaign for 2006: combat boots vs. cowboy boots, in the inevitable shorthand.
Eftir að hafa hlegið að þessari analýsu þeirra skipti ég um skoðun. Auðvitað skiptir öllu máli hvernig skóm menn eru í. Þetta hafa konur verið að segja mér í mörg ár.
Svo mér finnst við ættum að velta þessu fyrir okkur. Hvað táknar það að Macaca-Allen skuli ganga í kúrekastígvélum og Webb í hermannaskóm? Í fyrsta lagi held ég að það sé merkilegt að báðir frambjóðendur skuli kjósa sér stígvél. Það er eitthvað mjög verklegt við stigvél. Menn klæða sig ekki í stígvél nema þeir ætli sér virkilega að taka til hendinni. Það eða að þeir vilja að við höldum að þeir séu menn verka en ekki bara blaðurs. Og reyndar hefur Allen verið duglegur - hann er einn af atkvæðameiri stjórnmálamönnum Republikana, og það eru allir sammála um að hann sé maður verka... Webb sömu leiðis. Webb þjónaði í ríkisstjórn Ronald Reagan, áður en hann sagði skilið við Republikanaflokkinn til að gerast Demokrati.
En það er eitthvað grunsamlegt við Allen og kúrekastígvélin. Það eru engir kúrekar í Virginíu, og hafa aldrei verið. Landbúnaður Virginíu byggðist aldrei á því að ríða um og reka kýr, heldur byggðist hann á því að ríða um og berja þræla til hlýðni. Allen hefur reyndar sýnt að hann hefur skilning á þessum menningararfi fylkisins. Það er eitthvað alveg sérstaklega "delalegt" og tilgerðarlegt við fullorðna karlmenn í kúrekastígvélum, sérstaklega ef þau eru snyrtilega pússuð og gljáandi eins og stígvél Allen.
Undanfarin ár hefur bandaríkjunum nefnilega verið stjórnað af mönnum sem þykjast vera ægileg karlmenni, en líka svona 'menn fólksins'. Menn sem fara í stígvél til að líta út fyrir að vera örlítið stærri en þeir eru í alvörunni. Svo brosa þeir sínu sætasta, eins og Allen. Yfirleitt er hægt að sjá í gegn um þessa menn - konur skilst mér að noti skóna til þess. Umsnúningurinn í Virginíu, þar sem Allen hefur tekist að glutra niður forskoti sínu á Webb, bendir til þess að Bandaríska þjóðin sé loksins búin að sjá í gegn um þessa tilgerð. Verst að konur og kjósendur neita stundum að horfast í augu við raunveruleikann. Og fyrir allt það fólk er Allen auðvitað fullkominn fulltrúi á þingi. Þegar hann er spurður hvort hann hefði stutt innrásina í Írak, ef hann hefði vitað allt það sem við vitum núna, þ.e. að bandarískur almenningur sé búinn að snúast gegn herferðinni sem hafi frá upphafi verið algjör flónska, segir hann, blákalt "já". Þetta er merkileg manngerð. En það þarf sennilega karlmenn til að viðurkenna að þeir hafi á röngu að standa, meðan drengir í kúrekaleik geta neitað að horfast í augu við raunveruleikann...
M
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Macaca, Karlmennska | Breytt 21.9.2006 kl. 18:04 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.