fim. 10.8.2006
Þá að Santorum og Lee Harvey Oswald
Langsamlega mest spennandi kosningarnar í haust verða um sæti Rick Santorum í öldungadeildinni. Santorum, sem er einn af hægrisinnaðari og sannkristnari þingmönnum republikanaflokksins, þarf að verja sæti sitt gegn demokratanum Bob Casey. Santorum, sem er mjög annt um lýðræðið, fannst það alls ekki nógu lýðræðislegt að vinstrimenn í Pennsylvaníu hefðu ekki nema einn frambjóðanda - Casey, svo hann ákvað að fjármagna framboð Græningja.
Svo virðist sem græningjar í Pennsylvaníu hafi siðferðisvitund sem Ralph Reed gæti verið stoltur af, en þeir ákváðu að þiggja fjárframlög Santorum, og réðu svo fyrirtæki honum tengt til þess að safna 67.000 undirskriftum sem frambjóðendur þurfa að leggja fram.
Þegar demokratar lögðust yfir undirskriftalistana kom í ljós að allskonar furðulegt fólk vildi styðja Romanelli, frambjóðanda Græningja - þeirra á meðal:
- Mickey Mouse
- Mona Lisa
- Woody Allen
- Robert Redford
- George Bush
- Gerald Ford
- Lee H. Oswald
Lögfræðingar demokrata hafa farið fram á að framboð Romanelli verði dæmt ógilt. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem fyrirtæki sem safna undirskriftum fyrir frambjóðendur í Bandaríkjunum skila inn fölsuðum nöfnum - en það sem ég skil ekki er að þessi fyrirtæki skuli ekki í það minnsta reyna að finna upp sæmilega trúverðugar falsanir!
M
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:27 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.