Tölfræði um blogg

Flest blogg deyja á fáeinum dögum eða vikum, konur blogga meira en karlmenn, og meirihluti bloggara er á aldrinum 13-19 ára. Þessar og aðrar merkilegar vangaveltur um eðli og þróun blogga má lesa í þessari grein á Perseus.

Samkvæmt athugun Perseus lifir fjórðungur allra blogga ekki lengur en einn dag, en séu þessir andvana fæddu bloggar ekki teknir með, var meðalaldur blogga sem höfðu dáið drottni sínum aðeins fjórir mánuðir - karlmenn eru tölfræðilega líklegri til að gefast upp á bloggum og yfirgefa þá, og bloggar sem lifa eru að meðaltali með tvisvar sinnum lengri færslur en bloggar sem deyja. 92.4% allra blogga eru stofnaðir af fólki yngra en 30 ára.

Það sem kom mér helst á óvart var hversu fáir bloggar eru uppfærðir daglega - Perseus telur að innan við hálft prósent allra blogga sé uppfærður daglega.

FreedomFries er því miður augljóslega í mikilli hættu á að deyja drottni sínum. Ekki nóg með að þetta blogg sé ennþá innan við fjögurra mánaða gamalt, og því enn tölfræðilega í mikilli hættu á að vera yfirgefið, en höfundurinn er líka karlmaður, en samkvæmt Perseus, og gamalli þjóðtrú, erum við líklegri en konur til að yfirgefa afkvæmi okkar, hvort heldur elektrónísk eða líffræðileg. Það versta er að Perseus er sannfærður um að blogg með 'nanoaudiences' - fáeina lesendur - deyi bæði frekar og fyrr en önnur blogg. Mér sýnist meðalfjöldi lesenda á FreedomFries vera um tíu manns á dag... En maður ætti aldrei að láta tölfræðina gera sig dapran.

M

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Villi Asgeirsson

Það er ekki spurning, allir þessir ungu og efnilegu bloggar munu deyja. Það eru nokkrir sem ég myndi sakna og þessi er einn þeirra. Annars er best að ég hætti að rausa hér og reyni að halda lífi í mínu eigin bloggi sem ekki er uppfært daglega, er innan við fjögurra mánaða og er uppfært að karlkyns veru.

Villi Asgeirsson, 24.7.2006 kl. 20:11

2 Smámynd: FreedomFries

Það getur reyndar verið djöfuls vinna að uppfæra bloggið daglega - en ég ákvað að ef ég reyni ekki að gera það myndi ég ábyggilega gleyma því alveg. Mér sýnist að kollegi okkar Ritstjórinn, á guha.blog.is, sé t.d. búinn að gefast upp í bili. Ég vona reyndar að hann sé bara að taka sér sumarfrí.

En nóg raus - maður þarf líka að vinna, ekki bara blogga!

FreedomFries, 25.7.2006 kl. 23:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband