þri. 20.6.2006
Stórsigur Demokrata í haust
Það er athyglisvert að fylgjast með því hvernig fréttaskýrendur og aðrir hafa fjallað um möguleika demokrata í kosningunum í haust. Fyrir um mánuði eða tveimur byrjuðu fréttaskýrendur að tala um möguleika demokrata á að vinna á í kosningunum í Nóvember, en smátt og smátt fór þessi umræða að snúast um að demokratar væru nánast öruggir um að vinna, ekki bara sigur, heldur stórsigur í kosningunum.
Það eru nokkrar ástæður fyrir því að taka þessum fréttum varlega. Ekki vegna þess að það sé ekki góður séns á að demokratar geti unnið á í kosningunum, eða að það væri eftirsóknarvert.
Í fyrsta lagi er alls ekki ljóst að demokratar geti unnið neina stórsigra í nóvember. Meirihluti Bandaríkjamanna er á móti forsetanum, og fylgjandi því að demokratar nái meirihluta í þinginu - en Bandaríkin eru ekki eitt kjördæmi, heldur er kosningakerfið byggt upp á einmenningskjördæmum. Til þess að koma í veg fyrir að mismörg atkvæði búi á bak við hvern þingmann er kveðið á um að kjördæmakortið skuli endurskoðað eftir hvert manntal, sem heitir "redistricting". Þetta ferli er hins vegar í höndum fylkisþinganna, og eru því pólitísk. Í þeim fylkjum þar sem demokratar hafa verið lengi við völd hafa kjördæmin því verið dregin með það fyrir augum að tryggja sem flest þingsæti fyrir demokrata, og þar sem republikanar hafa verið lengi við völd hefur hið gagnstæða verið uppi á teningnum. Tom DeLay varð frægur fyrir að tryggja Republikönum um tíu auka þingsæti fyrir Texas með mjög svívirðilegum endurteikningum á kjördæmakorti fylkisins. (Þetta ferli heitir "Gerrymandering" - og vísar til Elbridge Gerry, fylkisstjóra Massachussets í upphafi nítjándu aldar - en Gerry teiknaði upp kosningaumdæmi fyrir sjálfan sig, sem leit út eins og Salamandra á korti... eða Gerry-mandra.)
Vegna "the Gerrymandering" eru því mjög fá kjördæmi raunverulega "competitive", því í mörgum þeirra eru yfirburðir annars flokksins slíkir að eitthvað mjög stórfenglegt þarf að gerast til að kjördæmið skipti um hendur, og ólíklegt að sigur þeirra verði einhverskoanar "landslide". (fyrst ég er að tala um bandarísk stjórnmál hlýt ég mega nota bandarískt stjórnmála-lingó!)
Það sem er þó verra er að með því að vera stöðugt að segja að demokratarnir muni ábyggilega bursta republikanana í kosningunum, og með því að bera kosningarnar í haust saman við þingkosningarnar 1994, þegar Republikanar unnu þingið af demokrötum í fyrsta skipti í háa herrans tíð - er verið að setja markið of hátt. Það er næstum útilokað að kosningarnar í haust verði einhverskonar endurleikur á kosningunum 1994, en með því að láta eins og þær muni verða það, geta Republikanar gert tvo hluti: 1) móbíliserað stuðningsmenn sína til þess að mæta á kjörstað eða gefa peninga, til að afstýra þessu ægilega syndafalli sem kosningasigur demokrata yrði, og 2) snúið niðurstöðu kosninganna upp í sigur fyrir sjálfa sig. Eftir kosningarnar eigum við nefnilega eftir að heyra eftirfarandi söng: "það bjuggust allir við því að demokratar myndu vinna stórsigra, en það er augljóst að þeir hafa bara rétt nauman meirihluta í þinginu... þetta verður að teljast mikilvægur varnarsigur fyrir republikana..." og í bandaríkjunum munu republikanar nota niðurstöðuna (eða réttara sagt að hún sé ekki eins slæm og þeir eru að reyna að sannfæra okkur um að hún gæti orðið) til þess að halda því fram að þjóðin hafi alls ekki verið að lýsa vantrausti á forsetanum eða flokknum...
M
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ég þakka skemmtileg skrif um stjórnmálin þar Vestra.
Gaman að fylgjast með þessum vef.
Minni á að manntal (e. Census) er gert á 10 ára fresti, það nýjasta árið 2000. Því eru bandarískir kjósendur væntanlega að ganga að kjörborðinu í annað eða þriðja skipti með nýrri kjördæmaskipan.
Lega kjördæmanna ætti því ekki að koma mönnum í opna skjöldu. Venjulega er ,,Gerrymandering" meiri áhrifavaldur í kring um manntölin, því þá er opið á endurskilgreiningu kjördæma. Slíkt er venjulega ekki gert milli manntala og því ættu spár um kjörhegðan í haust ekki að vera nákvæmari en í síðustu miðannarkosningum (árið 2002) þegar gengið var að kjörborðinu í nýjum kjördæmum?
Þó Demókratar endurheimti meirihluta í báðum þingdeildum og sigur þeirra verði stór, er erfitt að líkja honum saman við byltingu Newt Gingrich og ,,samningnum við Bandaríkin" árið 1994.
Fyrir því eru sögulegar ástæður sem þú sjálfsagt þekkir en Demókratar höfðu haft meirihluta þar frá örófi!
Sigur Repúblikana árið 1994 varð einnig til þess að Bill Clinton náði ekki í gegn mörgum af sínum helstu stefnumálum, sbr. heilbrigðisþjónustu fyrir alla Bandaríkjamenn óháð efnahag sem Newt og hans hyski komu í veg fyrir.
Þá eru ótaldar Móniku-ofsóknirnar hans Newt sem spillti fyrir vinnufrið á seinna kjörtímabili Clinton. Sagan mun dæma þetta tímabil, þegar Bandaríkin voru heltekin af kynlífi forsetans meðan Al Kæda óx ásmegin, friði fyrir botni Miðjarðarhafs var sólundað osfrv osfrv.
En nú er ég kominn fram úr sjálfum mér! Aftur, þakka skrifin, hlakka til áframhaldandi lesturs.
Jens Sigurðsson (IP-tala skráð) 22.6.2006 kl. 00:27
Ég þakka fyir mig!
Það er gott að vita að einhver les þetta, og hefur gaman að!
Þetta með kjördæmin: Nei, það er rétt að kjördæmin ættu ekki að breytast á milli manntala - og því var endurteikning Tom DeLay á kjördæmum í Texas hitamál - hann keyrði það í gegn á milli manntala. En þó það sé ekki búið að endurteikna kjördæmi síðan í seinustu kosningum hefur 'competitive' kjördæmum stöðugt farið fækkandi - og það þýðir að það eru færri kjördæmi sem eru raunerulega 'up for grabs' - tölfræðin jafnar þetta aðeins út, því það eru auðvitað nógu mörg kjördæmi í landinu til að láta tölu þingmanna endurspeigla sæmilega preferensa kjósenda fyrir flokkum. Hins vegar hafa menn bent á að þessi þróun hafi búið til kjördæmi sem henti öfgaöflum flokkanna (sérstaklega republikönum, því einhverra hluta vegna eru fleiri öfgamenn á hægrivængnum en vinstri í Bandaríkjunum) mjög vel - og að óákveðnir kjósendur eða hálfvolgir nenni ekki að mæta á kjörstað þegar það er hvort sem er vitað mál hvor flokkurinn vinni kjördæmið.
Aðalatriðið er að hafa í huga að þetta eru ekki kosningar eins og við þekkjum þær!
En eins og þú bendir á er fullkomlega óraunhæft að bera sigur Gingrich saman við haustið 2006 - því jafnvel þótt demokrötunum tekst að rúlla upp báðum deildum þingsins eru þeir ekki með ídeológísk markmið eins og Gingrich... Ef þeim tekst að berja saman einhverskonar contract við Ameríku fyrir Nóvember yrði ég virkilega glaður, en mér finnst það ótrúlegt.
Það getur samt allt gerst!
M
FreedomFries, 22.6.2006 kl. 15:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.