mán. 12.6.2006
Hernaðarútgjöld fara vaxandi
Nýlega gaf SIPRI, Stockholm International Peace Research Institute, út skýrslu um stöðu hernaðaruppbyggingar í heiminum, og kennir þar margra grasa - meðal annars að Bandaríkin ein og sér standa á bak við um helming allra hernaðarútgjalda í heiminum - og næstu lönd á eftir eru Bretland, Frakkland, Japan og Kína, hvert um sig með um 4-5% af heildarhernaðarútgjöldum veraldarinnar.
Það er eiginlega ótrúlegt að lesa þessar tölur - ég þóttist vita að Bandaríkin eyddu meira í vígbúnað en aðrar þjóðir, en gerði mér ekki grein fyrir því að þeir eyða jafn miklu og afgangurinn af heiminum til samans... Og spurningin sem vaknar er auðvitað þessi: Hvernig stendur á því að kanarnir eru að tapa Írak? Ef peningaaustur leysti vandamál, ætti Bandaríkjaher að geta átt í fullu tréi við hvern sem er - allan heiminn samanlagt, ef niðurstöður hernaðar réðust eftir því hversu miklu væri eytt í hann. Og Bandaríkin eru í stríði - maður hefði haldið að fjáraustur til varnarmála myndi þá beinast fyrst og fremst að því að vinna það stríð?
Ég get ekki séð nema tvö svör: 1) Herinn er að eyða peningum í eitthvað allt annað en að vinna stríðið í Írak, enda hergagnaiðnaðurinn eitt risavaxið ríkisstyrkjakerfi við stórfyrirtæki 2) Það er ekki hægt að vinna sum stríð, sama hversu miklum peningum er eytt í þau... Ekki frekar en það er hægt að leysa sum vandamál með því einu að dæla í þau almannafé. Sum "vandamál" eru betur látin óleyst...
M
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.