sun. 1.4.2007
Playa del Carmen - Riviera Maya
Það er eitthvað mjög fullnægjandi við að sjá Mexíkana gera annað en að skúra gólf eða vinna garðvinnu. Það er líka eitthvað mjög fullnægjandi við að vera sloppinn úr yfirsiðmenningu Minnesota - hér ríkir mátulegt anarkí í umferðarmenningunni, það má ganga með bjór úti á gangstétt, fólk leyfir sér að reykja á veitingastöðum og það eru ekki allir komnir í háttinn klukkan átta... Playa del Carmen þar sem við eyddum fystu tveimur nóttunum er stórkostlegur bær - þar sitja hlið við hlið fancy hótel og kofahreysi úr grjóti og bárujárnsplötum. Við hliðina á hótelinu sem við gistum á (Casa de la Flores - sem ég mæli eindregið með, nóttin kostaði 65$ fyrir rúmgott herbergi) var ein slík kofabyggð - börnin héldu því fram að það væri "þorp" - íbúarnir héldu allanvegana heilmikið af dýrum. við vöknuðum báðar næturnar við hanagal klukkan 3:00.
Síðan keyrðum við til Tulum, og ætlum að eyða næstu viku í strandhúsi með vinafólki okkar - ég sit akkúrat núna með blátt karíbahafið fyrir framan mig og drekk "greyhound", sem er vodka með greipsafa. Eftir að hafa flett í gegn um kapalsjónvarpið sem var búið að lofa mér komst ég að því að það var allt á spænsku, svo ég verð að láta mér nægja að fylgjast með heimssfréttunum á netinu. Í ljósi þess að ég hef ekki heimsótt eina einustu bloggsíðu, opnað dagblað eða horft á sjónvarp undanfarna þrjá daga er ég samt sannfærður um að það sé ekkert markvert búið að gerast!
M
Athugasemdir
Ég átti heima á þessum slóðum í mörg ár. Mæli sérstaklega með skoðunarferð til fornu rústanna í Chitzen Itza, dagsferð til Xcaret (alls ekki sleppa kvöldsýningunni), og heimsókn í miðbæ Merida á sunnudegi. Góða skemmtun í paradís.
Hrannar Baldursson, 1.4.2007 kl. 03:51
Góða skemmtun
Ester Sveinbjarnardóttir, 1.4.2007 kl. 23:57
Takk!
Þetta er ótrúlega fallegt! Ég hefði aldrei trúað því að það væru til svona staðir. Þó Cancun sé túristahola hverfur þessi túristastemming um leið og maður kemur út fyrir bæjarmörkin. Við ætlum í einhverjar rústaferðir, og eco-park, er Xcaret ekki eitt af þessum eco-archeological sites, þar sem maður syndir með höfrungum og skoðar mayamusteri? Ég athuga líka með Merida, það virðist ekki svo langt frá Cancun.
Og eftir að hafa umborið pöddupláguna í Minnesota kemur pödduleysið hér í Solomon Bay, sem er rétt fyrir norðan Tulum, á óvart - það er hins vegar allt fullt af eðlum og salamöndrum. Kannski éta þær allar flugurnar?
Bestu kveðjur frá Yucatan!
Magnús
FreedomFries, 2.4.2007 kl. 04:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.