sun. 4.6.2006
Veruleikafirring og ný-íhaldsstefna
Veruleikafirring, öðru fremur hefur verið helsta einkenni einkenni "núverandi stjórnvalda" í Bandaríkjunum, (mér hefur alltaf fundist þetta orðalag, "the current administration" í stað þess að segja "the Bush administration" djöfulli sniðugt). Stríðsrekstur, hernaðaruppbygging, innanríkisnjósnir, þjónkun við stórauðvaldið, allt eru þetta stefnumál sem nánast allar ríkisstjórnir bandaríkjanna hafa haft. Reyndar held ég að öll meiriháttar ríki reki þessháttar pólitík. Það er því varla hægt að segj að stríðsrekstur og stórmennskubrjálæði einkenni núverandi ríkisstjórn einhvernveginn sérstaklega. Það er hins vegar annað sem ríkisstjórnir hafa mismikið af - og það er veruleikafirring
Stjórnvöld þurfa held ég öll að vera haldin smá veruleikafyrringu, þ.e. vera tilbúin til þess að halda því fram að allt hljóti að fara á besta veg, t.d. Það hefur í það minnsta sýnt sig í bandarískum stjórnmálum, að "bjartsýnir" stjórnmálamenn eru mun vinsælli en svartsýnir stjórnmálamenn. Og almenningur virðist kunna að meta að leiðtogarnir sjái möguleika og bjarta framtíð þegar öll merki eru uppi um hið gagnstæða. Slíkir stjórnmálamenn "trúa á Bandaríkin".
Núverandi stjórnvöld hafa gert þetta að höfuð, ef ekki eina, slagorði sínu. Þannig að Ameríka og það sem Ameríku er fyrir bestu, er það sem þau gera og segja, og allar athugasemdir um að það þjóðin sé kannski ekki á réttri braut, eru einhverskonar árásir á þjóðina, og þá ó-amerískar. Þannig hefur allri gagnrýni á núverandi stjórnvöld verið mætt - efasemdir um stríðið í Írak eru mótiveraðar af einhverju hatri á hernum, ást á óvinum bandaríkjanna, og djúpstæðu hatri á bandaríkjunum - gagnrýni á forsetann og efnahagsstefnu hans eru mótiveraðar af hatri á forsetanum, hatri á fyrirtækjum og stéttastríði, sem er, vel að merkja fullkomlega ó-amerískt.
Allt frá því að stjórnin tók við völdum, og þó sérstaklega eftir að undirbúningur að Íraksstríðinu hófst, hefur ríkisstjórnin látið gagnrýnendur fá það óþvegið - og gilti þá einu hvort það voru háttsettir herforingjar, starfsmenn fjármálaráðuneytisins, eða aðrir. Það er þessvegna sem þessi frétt sem birtist á Washington Post í gær vakti athygli mína.
Það virðist vera sem einhver hafi bent forsetanum á að fyrst yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar væri þeirrar skoðunar að þjóðin væri á rangri leið, hann óhæfur forseti, og stríðið í Írak vitleysu, væri kannski kominn tími til að láta af hrokanum og veruleikafyrringunni. Það er ágætt, svosem. En það sem er forvitnilegt í þessu öllu er að veruleikafyrring forsetans, og nánustu samstarfsmanna hans, virðist vera nokkuð merkilegt stef í stjórnmálasögu bandaríkjanna.
"Núverandi ríkisstjórn" er fyrst og fremst hægt að kenna við ný-íhaldsstefnuna svokölluðu (Neo-conservatism). Ný-íhaldsstefnan varð til á sjöunda áratugnum, sem andsvar við því sem margir héldu fram að væri veruleikeafyrring vinstrimanna. Hún heitir ný, ekki vegna þess eingöngu að hún væri ný í haldsstefna, heldur vegna þess að margir af ný-íhaldsmönnunum væru nýir íhaldsmenn. Fylgi sitt sótti hún fyrst og fremst til miðjumanna og vinstrimanna, kjósenda demokrataflokksins sem blöskruðu hugmyndir og pólitík vinstrimanna. (það er nauðsynlegt að benda á að sumt af þessari pólitík, sem vakti ergelsi margra vinstrimanna voru réttindahreyfingar kvenna og minnihlutahópa - enda eru og voru ný-íhaldsmenn fyrst og fremst hvítir karlmenn... nokkuð square eins og Herra ný-íhald sem fylgir með þessari grein!). Ný-íhaldsstefnan hefur samt aldrei verið rasísk, hún er mjög karllæg, en alls ekki rasísk. Miklu fremur vilja ný-íhaldsmenn halda því fram að það sé enginn rasismi, og allt tal um slíkt, kynþáttakvótar og kvennakvótar, séu þessvegna rugl.
En aftur að raunveruleikanum, eða réttara sagt firringu. Irving Kristol, einn af hugmyndasmiðum ný-íhaldsstefnunnar sagði eitt sinn að "a neoconservative is a liberal who has been mugged by reality." Ný-íhaldsmenn þóttust sjá að vinstrimenn væru veruleikafirrtir - það væri ekki hægt að lækna öll vandamál heimsins með því að senda út félagsstofnunartékka eða búa í kommúnum. Aumingjar og glæpamenn væri ekki hægt að lækna. Þá fyrrnefndu ætti að neyða til að verða sér út um vinnu, og hina síðarnefndu ætti að setja í fangelsi. Aðrir voru ósáttir við friðþægingar og friðarhugmyndir og þá hugmynd að það væri svosem enginn grundvallarmunur á vestrænum lýðræðisríkjum og alræðisríkjum Austur Evrópu, Bandaríkin væru íllt heimsveldi, "alveg eins og Sovétríkin", og allt tal um vestræn gildi, lýðræði etc væri lítið annað en "menningarlegur imperíalismi". Enn aðrir voru að bregðast við því sem þeim sýndist vera upplausn "hefðbundinna gilda", og sögðu þá sem svo - vinstrimenn virðast allir búa í einhverju la-la landi þar sem lögmál raunveruleikans, hagfræðinnar, utanríkis og öryggismála gilda ekki.
Í sem stystu máli - ný-íhaldsmenn þóttust varðmenn ískalds raunveruleika.
Síðan ný-íhaldsstefnan kom fram, og síðar nýfrjálshyggjan, (sem eru ólíkar stefnur, þó þær liggi hlið við hlið, og séu saman leiðandi hugmyndafræði republikanaflokksins), hafa margar af hugmyndum hennar náð nokkuð öruggri fótfestu í samfélaginu. Ný-íhaldsstefnan er, ásamt nýfrjálshyggjunni, sú stjórnmálastefna sem hefur einkennt vesturlönd öðru fremur seinustu tvo til þrjá áratugi, eða allt frá upphafi níunda áratugarins.
En reynsla seinustu ára í Bandaríkjunum virðist vera sú að sagan sé búin að fara einn hring. Ný-íhaldsmenn forsetans hafa, síðan stríðið í írak komst á dagskrá, ekki virst í miklum tengslum við raunveruleikann. Hið sama er að segja um fjárlagahallann og efnahagspólitík forsetans. Það þarf nú sennilega ekki að hafa mörg orð um stuðning hans og ný-íhaldsmanna við æðstupresta veruleikafirringarinnar, það fólk sem vill láta kenna sköpunarsögu biblíunnar í stað þróunarkenningarinnar. Hvar sem maður ber niður, fjárlagahallinn, írak, efnahagspólitíkin, olíupólitíkin - stjórnvöld virðast halda að það sé nóg að trúa því nógu djöfulli mikið að hlutirnir séu eins og þau vilja, og þá verði þeir þannig. Stephen Colbert á Comedy Central hefur gert þetta stef af meginkjarna persónu sinnar í The Colbert Show.
Þegar raunveruleikinn bítur menn í rassinn vakna þeir stundum - og raunveruleikinn virðist loksins hafa mannað sig upp í að bíta forstann í rassin. Það var ekki fyrr en fylgi hans fór niður fyrir 40% að hann sá ástæðu til þess að segja að það hefði nú kannski verið gerð einhver mistök við undirbúning stríðsins í Írak. Það sem hefur þó helst vakið athygli mína er að bush stjórnin virðist hafa skipt um taktík gagnvart þeim sem gagnrýna hana, eða hafa gagnrýnt hana. Síðasta dæmið eru tilraunir stjórnarinnar til að rétta út vinarhönd til herforingja sem gagnrýndu stríðið fyrir þremur árum. Það er auðvelt að afskrifa þetta sem sýndarmennsku, en það er samt sönnun þess, sem við hin sáum fyrir löngu - að "núverandi stjórnvöld" hefðu tapað tengslum sínum við raunveruleikann. Og þegar stjórnmálastefna virðist hafa tapað tengslum sínum við raunveruleikann er þess stutt að bíða að hún veslist upp - eða gangi í gegn um grundvallarbreytingu. Í fyrra tilfellinu verða kosningarnar núna í haust og svo næst 2008 til þess að demokratar komast til valda og við siglum inn í ca. tuttugu ára tímabil bandarískra "vinstristjórna" - ef hið síðara gerist, munu kosningarnar verða til þess að demokratar vinna kosningarnar í haust, en republikanaflokkurinn, nú innblásinninn nýrri-ný-íhaldsstefnu snýr að valdastólum innan tíðar.
Ég kýs fyrri kostinn - það er óhollt að láta sama fólk sitja of lengi við völd - en ég hef því miður ekki kosningarétt í þessum kosningum.
M
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.