Vangaveltur um "the religious right"

Það sem islenskum stjórnálaspekúlöntum yfirsést oftast þegar þeir tala um bandaríkin er hversu sundurleitur hópur Republikanaflokkurinn er. ‘Stóra tjaldið’ svokallaða sem Reagan tjaldaði upp í upphafi níunda áratugarins inniheldur ótrúlega breiðan, og um margt sundurleitan hóp – og þó þessir hópar allir séu búnir að deila herbergjum í tvo og hálfan áratug, sem í stjórnmálum hlýtur að teljast frekar langur tími, er ekkert sem bendir til þess flokkurinn sé að renna saman í eitt. En það er kannski skiljanlegt að Íslendingum og öðrum Evrópubúum yfirsjáist þetta, því að bandaríkjamenn sjálfir, og jafnvel margir republikanar virðast hafa flaskað á þessu sama.

Og ég held að þessi ruglingur hafi haft, og muni halda áfram að hafa, mjög afrdrifaríkar afleiðingar fyrir bandarískt samfélag. Um daginn sagði ég nokkur orð um djúpstæða óánægju sem hefur breiðst um raðir frjálshyggjumanna með ofstjórn og ríkisbákns-hugmyndafræði Bush-stjórnarinnar – og á næstu vikum mun ég fjalla nokkuð nánar um það fyrirbæri. Í þessum línum langaði mig hins vegar til að tala um annan “ídeológískan” arm flokksins – trúaröflin. Þetta eru auðvitað tiltölulega sundurlausar vangaveltur og settar fram jafnt sem alvarlegar og ögrandi spekúlasjónir – enda er það eðli bloggs sem tjáningarmáta, eða ritforms. En nóg af þessum varnöglum, í bili.

Bandaríkin hafa alla tíð verið mjög trúuð – Bandaríkjamenn taka trúarbrögð sín mjög hátíðlega. Það þekkja það allir Evrópubúar sem komið hafa til Bandaríkjanna hversu mikið bandaríkjamenn tala um trú sína – venjulegir kanar fara í kirkju á sunnudögum – og þá er ég að tala um venjulegt fólk eins og þig og mig, ekki endurfædda biblíuveifandi ‘vitnandi’ endurfæðinga (sem er semsagt fleirtalan af nýyrðinu endurfæðingur = einhver sem hefur endurfæðst...)  Kirkjusókn fer auðvitað eitthvað eftir þjóðfélagsstöðu, en það er óhætt að segja að bandaríkjamenn séu almennt trúaðir.

Á seinustu árum hefur hins vegar ofstækisfyllstu, eða gölnustu trúarleiðtogunum tekist að sannfæra þjóðina og leiðtoga hennar um að þeir tali fyrir munn kristinna bandaríkjamanna. Í Bandarískum stjórnmálum er talað um ‘the religious right’ – sem vísar til afturhaldssinnaðra trúarafla innan Republikanaflokksins. Mikið af the religious right er heimsendatrúar, þ.e. ‘millenarian’ – þeir bíða í óvæni eftir endurkomu Jesú Krists. Það er erfitt fyrir útlendinga að trúa því óséðu, en margir bandaríkamenn trúa í fyllstu alvöru því að Jesú muni á allra næstu dögum stíga niður af himnum, með herskara af vopnuðum englum og muni láta eldi og brennisteini rigna yfir þá vantrúuðu. En það þarf ekki að horfa mjög lengi á suma bandaríska sjónvarpspredikara, eða lesa ‘Left behind’ bækurnar mjög gaumgæfilega til þess að sjá merki þessarar trúar. Ágætt dæmi er Jack Van Impe, (http://www.jvim.com/) en Impe karlinn situr öll kvöld og les heimsfréttirnar til að leita að sönnunum þess að hinir hinstu dagar séu rétt handan við hornið. Það ætti ekki að koma neinum á óvart að kjarnorkuvopnaógn Írana hafi hleypt Impe öllum upp í loft. Impe er t.d. sannfærður um að Bandaríkjamenn muni ráðast á Íran, og er hæstánægður: ‘Every bible sign is here... We are headed for the battle of Ages... Every sign shows that the coming of the Lord is right at the door. Be ready!’ (úr Jack van Impe, 13 maí, 2006).

Það er reyndar óþarfi að gera of mikið úr vitleysingum eins og Impe. En þó Impe sé jaðarfyrirbrigði er hann þó fulltrúi fyrir stærri menningarlega hreyfingu í Bandaríkjunum – það er t.d. annars ógerlegt að útskýra vinsældir ‘Left Behind’ bókaflokksins.

Ástæða þess að ég er að rifja þetta upp hér er að maður þarf að hafa í huga hverskonar trúaröfl við erum að tala um þegar við tölum um bandarísk dægurmál. Annarsvegar eru það nokkuð einlæg trú tiltölulega venjulegs og góðs fólks – fólks sem hefur hugsanlega íhaldssamri hugmyndir um veröldina en meðal-íslendingurinn, en fólks sem er að öðru leyti það sem kanar kalla ‘decent’. Hins veger höfum við það sem ég held að sé full ástæða til að kalla Sataníska, eða sadísk heimsendatrú fólks á borð við Jack van Impe. (Í minni bók eru öll trúarbrögð sem predíka blóð, dauða og heimsendi Satanismi..., og allt fólk sem lyftist af kátínu, eins og Impe helvítið gerir, þegar það talar um blóð og dauða, sadistar.)

Eftir sigur Bush í forsetakosningunum 2000 fengu trúaröflin byr undir báða vængi. Bush hafði mikið talað um trú sína í kosningabaráttunni – enda sjálfur endurfæðingur. Og Karl Rove hafði reiknað út að ef flokkurinn gæti æst upp kristna kjósendur og smalað þeim á kjörstað, væri sigurinn nærri vís. Og á þessu ætlaði flokkurinn að fljóta: hugmyndin var sú að íhaldssamir kristnir kjósendur myndu vera tryggir stuðningsmenn forsetans – traust bakland. Síðan þá hefur Bush og Republikönum tekist að vinna yfirburðasigra í þessum kjördæmum. Rove og strategistar flokksins voru, og eru reyndar enn, sannfærðir um að trúaröflin myndu tryggja flokknum konsingasigra og áframhaldandi valdaaðstöðu um ókomna framtíð.

Svo kom 9-11. Og nú flykktist þjóðin í kringum forsetann. Hvort sem það hafði eitthvað með kosningarnar að gera, ýfirlýsta trú forsetans, eða árásir múslimskra heiðingja á bandaríkin, eða þúsaldarskiptin 2000, þá blés nú mjög sérkennilegur andi um bandarískt samfélag.

Á fyrstu árum forsetaembættis Bush ruku ‘the religious right’ af stað með fjöldann allan af áætlunum; banna skyldi samkynhneigð sambönd í eitt skipti fyrir öll, það skyldi afnema rétt kvenna til að fara í fóstureyðingar, og í skólum skyldi kenna sköpunarsögu biblíunnar sem fullgild vísindi, eða í það minnsta jafngild þróunarkenningunni...

Á sínum tíma skulfu allir skynsamir bandaríkjamenn og afgangurinn af heimsbyggðinni horfði á í undrun, allavegana þeir sem voru að fylgjast með vitleysunni. Á meðan sat Republikanaflokkurinn við völd, og ekkert virtist geta haggað taki hans á þinginu, öldungadeildinni og forsetaembættinu. Forsetinn og hans menn þóttust öruggir um sinn hag, og frjálshyggjumenn, ný-íhaldsmenn og ‘fjölskyldugilda’ oflin innan flokksins þóttust sannfærðir um að nú yrði látið til skara skríða um að hrinda öllum þeirra áætlunum í verk.

En ég held að á sínum tíma hafi líklega allir misreiknað stöðuna: Republikanaflokkurinn var ekki samstæð blokk, og hafð þess vegna alls ekki það járntak á bandarísku þjóðinni og fólk hélt. Misskilningurinn hafði mjög víðtækar afleiðingar, - ég vil halda því fram að bæði núverandi stjórnvöld í bandaríkjunum, og svo vinstrimenn sömuleiðis hafi blindast af atburðum áranna 2000-2001, sem hafi komið okkur þangað sem við erum núna.

- Vinstrimenn héldu að það hefði orðið einhver allsherjar vatnaskil í bandaríkjasögu, að þeir stæðu nú frammi fyrir ódrepandi marghöfða hýdru, ægilegu skrímsli sem ekki væri hægt að vinna bug á. Það greip um sig ákveðin ‘Bush-hystería’ meðal vinstrimanna, sem héldu að aðeins ef forestanum væri komið frá, myndi allt reddast. Fyrir vikið var kosningabaráttan 2004 um margt ómarkviss – og demokrataflokknum hefur enn ekki tekist að setja saman sæmilega heildstætt svar við republikönunum.

- Fjölmiðlar og almenningur var terrified og þorði ekki að mótmæla af ótta við að verða stimplaður óþjóðernislegur. Pressan kaus að halda sér saman í undirbúningi stríðsins gegn Írak, og símafyrirtækin kusu að afhenda persónulegar upplýsingar til NSA.

- Republikanar sjálfir fóru að trúa því að þeir væru ódrepandi – og þingið ákvað að hlýða í einu og öllu forsetanum. Það er sjaldgæft, ef ekki óþekkt, að flokksmenn forsetans i þinginu og öldungadeildinni hlýði forsetanum jafnt möglunarlaust og reyndin hefur verið undanfarin sex ár. Þetta síðasta var sérstaklega greinilegt í blogospherinu og í öldum AM útvarps, og þar sem fáir íslendingar hlusta á bandarískt AM útvarp (þó það sé hægt að hlusta á það á netinu – ég mæli sérstaklega með the Savage nation, Rush Limbaugh, Hugh Hewitt, Michael Medved og Laura Ingraham.)

En það var annar vængur republikanaflokksins sem fór líka að trúa því að hann hefði fengið einhverskonar umboð frá almættinu til þess að keyra sína hugmyndafræði í gegn – það voru trúaröflin.

Tilraunir til þess að fá sköpunarsögu biblíunnar kennda í skólum, tilraunir til þess að fá NASA til þess að setja varnagla við umfjöllun um miklahvell, og álíka kjánaleg uppátæki hafa á seinustu mánuðum að mestu verið barin til baka af sæmilega skynsömu fólki.

Sannleikurinn er nefnilega sá, að þó flestir bandaríkjamenn séu trúaðir, þá eru fæstir bandaríkjamenn fanatískir ofstækismenn. Sérstaklega er hópur þeirra sem í raun og sanni trúir því að heimurinn muni farast ekki á morgun heldur hinn, minnihlutahópur.

Þetta fólk, Jack van Impe og hans kónar, lifir ekki í raunveruleikanum, og þeir sem  vilja banna fóstureyðingar og kennslu þróunarkenningarinnar búa í fortíðinni. Pólitíkusar sem kerfisbundið höfða til fólks af þessum toga, og aka undir vitleysuna í því, eru dæmdir til þess að lenda í vandræðum fyrr en síðar. Það er því kannski á endanum ‘the base’ sem verður til þess að botninn detti úr republikanaflokk Bush og Rove – eina von þeirra núna er annað hvort að ‘re-energize’ the base, þ.e. æsa hægrisinnaða kjósendur upp á nýjan leik – en flestir í Bandaríkjunum telja að það sé ætlun forsetans – eða að finna einhverja nýja leið til þess að binda flokkinn saman, sem til lengri tíma litið hlýtur að vera heillavænlegri pólitík, sérstaklega fyrir Bandaríkin sem samfélag, og fyrir hinn vestræna heim almennt. Vestrænt samstarf byggist að miklu leyti á því að það sé samstaða, eða einhver samstilling með pólitískum öflum innan bandaríkjanna og í Evrópu – og meðan forsetinn og Rove einblína á að spla til fólks sem horfir á Jack van Impe er ekki nokkur von til þess að það geti orðið.

Tenglar á nokkra af þeim sem minnst er á að ofan:

Rush Limbaugh: http://www.rushlimbaugh.com/home/today.guest.html

Michael Medved: http://www.michaelmedved.com/

Hugh Hewitt: http://www.hughhewitt.com/

The Savage Nation: http://www.homestead.com/prosites-prs/

Laura Ingraham: http://www.lauraingraham.com

Talk Radio Network: http://www.talkradionetwork.com/

M


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband