Gagnkynheigð pör verði skylduð til að eignast börn - ella verði hjónabandið dæmt ógilt...

Cheney fjölskyldan á kosningafundi - Mary Cheney fékk ekki að vera á myndinni...Í Bandaríkjunum hafa baráttumenn fyrir "helgi hjónabandsins" helst notað þau rök að það megi ekki leyfa samkynhneigðu fólki að giftast, eða búa í einhverskonar löglega viðurkenndri sambúð, vegna þess að hjónabandið sé fyrst og fremst til að búa til börn - frá alda öðli hafi hjónabandið gengið út á fjölgun mannkynsins.

Það eru góðar ástæður fyrir því að óvinir hjónabanda samkynhneigðra hafa valið þessi rök. Með því að skilgreina hjónabandið sem einhverskonar "barnaframleiðslustofnun" geta þeir nefnilega skákað talsmönnum jafnréttis sem halda því fram að samkynhneigt fólk stofni, eins og gangkynheigt fólk, til langtímasambanda og elski jafnvel hvort annað, og eigi, eins og annað fólk, að fá að staðfesta ást sína og samband með einhverjum formlegum hætti frammi fyrir samfélaginu og almættinu. Þessu geta "trúaðir" afturhaldsmenn þá svarað sem svo að "ást" og þesskonar hégómi skipti akkúrat engu í hjónabandinu.

Talsmenn fjölskyldugilda geta ekki heldur notað trúarleg rök því í Bandaríkjunum er ekki hægt að setja lög eða móta samfélagsmál eftir trúarlegum forsendum. Ekki að það sé ekki reynt - en allar atlögur "trúaðra" afturhaldsmanna gegn því sem þeim mislíkar þurfa að sigla undir fölskum flöggum. Áróðurinn gegn þróunarkenningunni er t.d. dulbúinn sem ást þeirra á "gagnrýninni vísindalegri umræðu" og margmenningarstefnu. Það eigi að bjóða börnum að læra sköpunarsögu biblíunnar í líffræði, því hún bjóði upp á annað "sjónarhorn", og nemendur eigi að fá að meta mismunandi sjónarhorn í skólanum...

Það er hins vegar einn galli á þessari "hjónabandið er til að búa til börn" röksemdafærslu: það eignast ekki allt gagnkynhneigt fólk börn, og sumt samkynhneigt fólk eignast börn, samanber Mary Cheney, dóttur varaforsetans.

Talsmenn réttinda samkynhneigðra í Washingtonfylki hafa lagt fram "ballot measure" - þ.e. lagabókstaf sem almenningur fái að greiða atkvæði um í kosningum, sem krefst þess að allt gift gagnkynhneigt fólk þurfi að eignast börn, ella verði hjónaband þeirra lýst ógilt! Skv. AP:

OLYMPIA, Wash. - Proponents of same-sex marriage have introduced a ballot measure that would require heterosexual couples to have a child within three years or have their marriages annulled.

The measure would require couples to prove they can have children to get a marriage license. Couples who do not have children within three years could have their marriages annulled.

The paperwork for the measure was submitted last month. Supporters must gather at least 224,800 signatures by July 6 to put it on the November ballot.

The group said the proposal was aimed at "social conservatives who have long screamed that marriage exists for the sole purpose of procreation."

Þetta er bæði klókt og lógískt útspil. Það var löngu kominn tími til að einhver afhjúpaði opinberlega fáránleika þessara "raka" að samkynhneigt fólk geti ekki fengið að giftast því hjónabandið gangi út á barneignir. Það sem þessi umræða þarfnast er nefnilega heiðarleiki: talsmenn "fjölskyldugilda" þurfa að koma hreint út og segja hvað séu raunverulegar ástæður þess að þeir telki að samkynhneigðir geti ekki fengið að giftast. Fólk á þá að fá að taka ákvörðun um hverskonar samfélagi það vill búa í.

M


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Svo er samkynhneigt fólk víst meira en hæfir uppalendur barna.  Þeir gætu boðist til að taka skyldubarnið í fóstur, ef heteróhjónin vilja barnlaust hjónaband þrátt fyrir lögin.

Er ekki málið leyst? 

Jón Steinar Ragnarsson, 7.2.2007 kl. 02:01

2 Smámynd: Sigfús Þ. Sigmundsson

Magnað alveg.  Það er náttúrulega ekki alveg í lagi hjá hægri kristnum öfgamönnum í US. 

Þakka þér annars fyrir frábært blogg um stjórnmál og samfélagsmál í Bandaríkjunum.  Er sjálfur nýfluttur heim eftir eins og hálfs árs dvöl í fyrirheitna landinu ;)

Sigfús Þ. Sigmundsson, 7.2.2007 kl. 17:53

3 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Þetta er vissulega áhugaverð nálgun. Ég er þó ekki alveg viss um að hún haldi vatni. Tilgangurinn með því að kaupa sér bíl er væntanlega almennt sá að hafa einhver afnot af honum. En þótt einhver kaupi sér bíl en noti hann aldrei hefur það engin áhrif á kaupsamninginn - hann ógildist ekki við það. Með sama hætti má segja að almennur tilgangur hjónabandsins kunni að vera sá að geta börn, en stundum takist það ekki. Samningurinn ógildist samt ekkert við það. Skynsamlegra væri kannski að setja spurningarmerki við þennan meinta tilgang hjónabandsins.

Þorsteinn Siglaugsson, 7.2.2007 kl. 22:43

4 Smámynd: FreedomFries

Takk fyrir atugasemdirnar! Tilgangur þessa initiative er einmitt að setja spurningarmerki við þau rök að tilgangur hjónabandsins sé að búa til börn - því auðvitað er það ekki tilgangur hjónabandsins! Íslendingar eru allvavegana ekki þeirrar skoðunar... Nei. Það þarf mjög nauðsynlega að ræða tilgang og hlutverk hjónabandsins, og ræða opinskátt hvaða hvatir og hugmyndir mótívera talsmenn "fjölskyldugilda" og svo hina, sem tala fyrir jafnrétti allra óháð kynhneigð.

Það er eitt atriði sem ég hef mjög sjaldan heyrt í þessu sambandi, en það er hlutur heilbrigðistryggingafyrirtækjanna og vinnuveitenda í þessu máli öllu. Ein helsta ástæða þess að samkynhneigðir bandaríkjamenn vilja fá að skrá sig í einhverskonar samband sem jafngildi hjónabandi er að þar með njóta samkynhneigðir makar sömu réttinda og gagnkynhneigðir makar, og hafa m.a. aðgang að tryggingum maka síns. Þetta myndi þýða stórfellda kostnaðaraukningu fyrir tryggingafyrirtækin og vinnuveitendur, sem auðvitað hafa engan áhuga á að þurfa að punga út fyrir sjúkrakostnaði eða öðrum leiðindum fyrir eitthvað fólk úti í bæ. Fyrir vikið eru tryggingafyrirtækin með mikilvægustu kostunaraðila stjórnmálamanna og samtaka sem berjast gegn hjónaböndum samkynhneigðra. Rick Santorum var t.d. á spena hjá the HMO's.  Ég er næstum viss um að ef bandaríkjamenn geta leyst heilbrigðistryggingavandamálið myndi það gera mikið til að leysa þennan hnút sem réttindi samkynhneigðra eru í.  

Bestu kveðjur!

FreedomFries, 7.2.2007 kl. 23:15

5 Smámynd: Jón Valur Jensson

Magnús með sínar frelsis-kartöflur fer hér eina ferðina enn út af spori raunsærrar skynsemi. Einbeitum okkur að þessu spursmáli: hjónaband fyrir samkynhneigða?

Af náttúrunnar hendi er hjónabandið greinilega ætlað karli og konu. Fyrir því eru góð og gild lífeðlisleg og náttúruréttarleg rök [1]. Viðráðanlega stóra (þ.e. nógu stutta!) fræðiritgerð, sem gerir skýra og góða grein fyrir náttúruréttarrökunum, get ég bent á hér : Is Marriage a Form of Discrimination? eftir R.M.T. Schmid við St. Hugh's College og háskólann í Oxford. Því efni til viðbótar má benda á mörg rök og mjög alvarleg, sem fram koma í grein minni Samkynhneigðir vanhæfari en aðrir til barnauppeldis, einkum frá greinarskilunum þar sem ný setning byrjar á orðunum: "Hvað á nú að segja...," og í neðanmálsgreinum [2] og [3] (við taka svo andmæli málsvara samkynhneigðra og gagnrök mín o.fl.).

Magnús hefði gott af því að hugsa djúpt og alvarlega þær röksemdir, sem þarna koma fram, áður en hann geysist fram í einni saman góðvild, jafnréttishugsjón og jákvæðri óskhyggju -- allt er það vissulega gott og gilt sem slíkt, en það verður þá líka að taka mið af staðreyndum og aðstæðum í hverju máli. Hjónaband samkynhneigðra eða staðfest samvist þeirra (með þeim réttindum sem látin eru fylgja) er ekki sízt óæskilegt fyrirbæri, jafnvel hættulegt, vegna barnanna. En hagur og öryggi barnanna hlýtur að eiga ganga fyrir þessum formlegu réttindakröfum samkynhneigðra, sem flestar þjóðir eiga auðvelt með að láta ógert að leiða í lög (alveg eins og systkynahjónabönd eða fjölkvæni), án þess þó að samkynhneigðir þurfi neitt að líða fyrir það í reynd.

Hvað svo sem Magnús segir um það, hvort "tilgangur hjónabandsins sé að búa til börn," þá er hin alvarlega afleiðing af skráðri samvist samkynhneigðra sú, að þeim eru veitt þau ofréttindi að fá að ættleiða börn og fara í tæknifrjóvgun, ala síðan upp börn, sem aldrei fá að kynnast foreldri (eða kjörforeldri) af nema öðru kyninu, fara þar með á mis við margstaðfesta gagnsemi þess að kynnast frá blautu barnsbeini báðum kynjum foreldra, en alast einnig upp við brothættar og æði-varasamar aðstæður að mörgu leyti, eins og lýst er í tilvísaðri grein minni og þeim heimildum sem þar eru tilgreindar (og eru þó ekki þar með taldir upp allir agnúar á uppeldi samkynhneigðra para á börnum).

---------------------

[1] Um náttúrurétt er fjallað í réttarheimspeki eða á því sviði sem tengir heimspeki, lögfræði og samfélagsfræðin (félags- og stjórnmálafræði).

Jón Valur Jensson, 8.2.2007 kl. 11:30

6 identicon

Ef maður lítur á barneignir samkynhneigðra para frá því sjónarhorni að þau þurfa að hafa miklu meira fyrir því að eignast börn - ættleiðingar, tæknifrjóvgun, sæðisgjafar o.s.frv. - en meirihluti gagnkynhneigðra para þá myndi maður halda að sú ákvörðun þeirra væri oft á tíðum betur skipulögð (ef svo má að orði komast) og meiri hugsun lagt í hana. Sem getur ekki verið annað en gott mál og hlýtur að gera það að verkum að þessi börn eru alltaf velkomin og elskuð.

Marý (IP-tala skráð) 8.2.2007 kl. 14:04

7 Smámynd: Jón Valur Jensson

Það eru sárafáir samkynhneigðir sem hafa gengið þessa braut að ættleiða börn eða fara í tæknifrjóvgun, þannig að það gefur ekkert tilefni til svona víðtækra ályktana, Marý. Þar að auki er það staðreynd, sem sýnt hefur verið fram á, að flest börn, sem lenda í erfiðleikum í lífinu, m.a. vegna uppeldisferilsins, voru velkomin og elskuð, þegar þau komu í heiminn. Það er ekki nóg að elska barn sitt, ef maður býður því ekki góð skilyrði önnur, sem affarasæl eru fyrir öryggi þess og þroskagöngu -- t.d. (1) ef maður sviptir barnið viljandi frá upphafi föður- eða móðurímynd og þar með þeim þroskavænlegu uppeldisskilyrðum sem í slíkum persónusamskiptum eru fólgin, (2) ef kynlífshátturinn hefur boðið heim alvarlegum sjúkdómum, sem stytta líf mannsins verulega og svipta barnið öðrum framfæranda sínum og ástvini, (3) ef sambúðartími samkynhneigðra er almennt miklu styttri en gagnkynhneigðra, sbr. einkum neðanmálsgr. [2] í áður tilvísaðri grein minni; (4) ef sambúðarformið er margfalt "opnara" eða "frjálsara" gagnvart kynlífi með 3. aðila heldur en tíðkast almennt í hjónaböndum, sbr. neðanmálsgr. [3] í fyrrnefndri grein minni; (5) ef barnið elst upp við félagsskap samkynhneigðra og ásta- og kynlífsstíll þeirra fer að virka svo eðlilegur á hinn uppvaxandi ungling, að hann fer út í að prófa hann líka [1], jafnvel með einhverjum í vina- og gestahóp framfærenda sinna; (6) ef afleiðingin verður lífshættulegur kynsjúkdómur, getur útkoman naumast orðið sorglegri.

Þeir, sem ana vilja áfram í þessum efnum án nokkurs tillits til framangreindra staðreynda, sem þekktar eru í fræðaheiminum, en í trausti á farsæla útkomu úr uppeldi barna hjá samkynhneigðum, sem þó engin staðfest reynsla er fyrir, eru beinlínis að taka áhættu fyrir viðkvæm og varnarlaus börn, trúlega af velmeintum hugsjónamóði, en ekki af hyggnum og vel upplýstum kærleika.

[1] Eins og marktæk gögn eru til um, sem benda til allt að 17 sinnum fleiri tilfellum slíks hjá börnum á framfæri lesbía en hjá gagnkynhneigðu fólki, sbr. þessa Morgunblaðsgrein mína 6. maí 2006.

Jón Valur Jensson, 8.2.2007 kl. 18:19

8 Smámynd: FreedomFries

Ég hef ekki heyrt af neinum marktækar vísindalegum rannsóknum sem sýni að börn líði skaða af því að alast upp hjá samkynhneigðum foreldrum. Engum. Sjá t.d. þessa samantekt á rannsóknum fram til 1992: Charlotte Patterson, "Children of Lesbian and Gay Parents." Child Development; Oct92, Vol. 63 Issue 5, p1025-1042. Og önnur grein sem tekur saman rannsóknir frá 1978-2000: Norman Anderssen, Christine Amlie, Erling André Ytterøy "Outcomes for children with lesbian or gay parents. A review of studies from 1978 to 2000", Scandinavian Journal of Psychology 43:4, (2002) 335–351. Og ég hef tilhneygingu til að treysta rannsóknum sálfræðinga, sem birtast í alþjóðlega þekktum fagtímaritum, frekar en einhverjum anecdotal vangaveltum í óskildum fræðigreinum eða guðfræði.

Bestu kveðjur!

Magnús

FreedomFries, 8.2.2007 kl. 18:43

9 Smámynd: Jón Valur Jensson

Gott er að sjá, Magnús, að þú hafir "tilhneigingu til að treysta rannsóknum sálfræðinga, sem birtast í alþjóðlega þekktum fagtímaritum," þá færðu líka brátt þeirri trauststilhneigingu þinni útrás með því að kynna þér gerólíkar niðurstöður frá fagfólki í félags- og sálfræði, sem fengizt hefur við rannsóknir á þessum málum. Ég er samt hissa á þér að hafa ekki komið auga á neina fagmenn og ekta fræðigreinar slíkra meðal þeirra heimilda, sem gefnar eru upp í þeim tilvísuðu netgreinum, sem ég vísaði þér á. Lastu þær kannski ekki? -- Próf. Charlotte Patterson þekki ég auðvitað til, hún er stórt nafn í fræðunum, en hefur þó reynzt nær því að vera hlutdræg en hlutlaus, þótt hún viðurkenni vissar staðreyndir, þegar þún getur ekki annað, eftir að hafa þó sniðgengið þær lengi. Já, hissa áttu eftir að verða, Magnús minn, þegar ég legg inn póst um þetta efni, sem kollvarpar hugmyndum þínum.

Jón Valur Jensson, 8.2.2007 kl. 22:43

10 Smámynd: FreedomFries

Jón minn. Engar af þeim "heimildum" sem þú vísar til "sanna" það sem þú ert að halda fram. Vefsíðan "CatholicEducation" er ekki virt alþjóðlegt fræðirit, sama gildir um markaðskannanir. Rannsóknir á því hversu löng sambönd samkynhneigðir karlmenn eigi, eða hvort þeir fái Alnæmi hafa akkúrat ekkert með það að gera hvort börn skaðist af því að alast upp hjá samkynhneigðum. Þrjátíu ára gamlar greinar úr bandarísku fréttatímaritum eru sömuleiðis frekar ómerkilegar heimildir.

Þessi Andrew Kulikovsky sem þú vitnar til er einhverskonar biblíufræðingur, og að vitna til hans sem "heimild" fyrir því að "Samkynhneigðir [séu] illa í stakk búnir til varanlegra ástarsambanda" er móðgun við lesendur þína. Ég renndi í gegn um þessa "grein" sem þessi "fræðimaður" skrifar, og get ekki sagt að hún standist lágmarkskröfur sem gerðar eru til fræðigreina: Tilvísanirnar eru í hann sjálfan, sömu þrjátíu ára gömlu dagblaða og fréttablaðagreinarnar sem þú vísar til. Og Jón minn - ritvinnsluskjal sem einhver maður úti í bæ setur upp á eigin heimasíðu er ekki ritrýnd fræðigrein. Greinin er bæði ílla skrifuð og ílla rökstudd - hún æðir úr einu í annað, og það eina sem virðist halda henni saman er frekar ógeðfelld hómófóbía. Þessi maður heldur því meðal annars fram að samkynhneigðir karlmenn misnoti börn frekar en aðrir - sem stangast á við staðreyndir - og greinin er full af fullyrðingum á borð við:

it should be noted that not all homosexuals want to be associated with paedophiles, and many (but not all!) have sought to distance themselves from the paedophilia movement.

Og svo strax á eftir fer höfundurinn að tala um að samkynhneigðir karlmenn séu líka líklegri til að myrða börn! Heimildin er eitthvað sem heitir "Journal of the Family Research Institute" sem hljómar eins og það sé "fræðirit" - en ef þú leitar uppi þetta tímarit kemur í ljós að það er einhverskonar vefrit, gefið út af "The Family Research Institue" sem er einhverskonar einkastofnun manns sem heitir Paul Cameron, og kallar sig "Dr" - en hann var rekinn úr the American Psychological Association árið 1983 fyrir brot á siðareglum sálfræðinga. Sami félagsskapur hefur lýst því opinberlega yfir að Cameron sé ekki sálfræðingur, og hefur fordæmt hann fyrir óvísindaleg vinnubrögð og falsanir á rannsóknarniðurstðum. Cameron hefur líka verið fodæmdur fyrir "hate speech". Þetta er fólkið sem þú vísar í, Jón minn.

Greinar verða ekki "fræðilegar" við það eitt að vísa í heimildir neðanmáls - og að þú skulir vísa í svona skrif sem "heimild" fyrir þínum fullyrðingum er síst til þess að bæta málstað þinn.

Þær greinar sem ég vísaði til eru peer reviewed, gefnar út í viðurkenndum akademískum ritum og skrifaðar af viðurkenndum fræðimönnum - ekki biblíutúlkendum sem hafa engin önnur úrræði að "birta" skrif sín en að útvarpa þeim á heimasíðu sinni, eða "sálfræðingum" sem hafa verið fordæmdir af fyrrverandi kollegum sínum. Þess utan taka þær saman niðurstöður tuga annarra rannsókna, sem allar hafa sömuleiðis verið gefnar út í ritrýndum fræðiritum. Niðurstaða þeirra er að ENGAR heimildir séu fyrir því að börn bíði skaða af því að alast upp hjá samkynhneigðum. Annarsvegar hef ég einhverskonar ritgerð sem einhver biblíuskólakennari skrifar og vistar á eigin heimasíðu, og tilvísanir í morgunblaðsgreinar þínar, og hinsvegar samhljóma niðurstöðu vísindalegra rannsókna. Ég held að ég hafi tilhneygingu til að treysta frekar þeim sem vita hvað þeir eru að tala um, og hafa einhverja menntun til að tala um það sem þeir eru að fást við.

Staðreyndir málsins, Jón minn, eru að þó þú getir fundið fólk með doktorsgráður sem haldi því fram að hommar og lesbíur séu óhæfir foreldrar, (það er líka til fordómafullt fólk i háskólum), er niðurstaða rannsókna samt sú að samkynhneigðir séu ekki verri foreldrar en gagnkynhneigðir, og að börn þeirra er ekki verra fólk. Ég var vissulega hissa þegar ég var búinn að lesa þessar "heimildir" þínar og athuga hvaðan þær komu. Ég skil reyndar ekki alveg hvað þér gengur til.

FreedomFries, 9.2.2007 kl. 00:09

11 Smámynd: Jón Valur Jensson

Selektífur ertu, Magnús minn, á heimildir mínar -- og raunar svo mjög, að þú ert eiginlega ekkert að vitna í mínar tilvitnanir! Hvergi birtist Cameron í þeim þremur netheimildum sem ég vísaði til hér ofar (kl. 11.30 og 18.19). Þú gerir óskaplega mikið úr meintu vanhæfi hjá Andrew Kulikovsky, en málið er, að ekki var það hann sem bjó til þessa könnun meðal 10.000 bandarískra sálfræðinga árið 1977, sem ég var að miðla lesendum Kirkjunetsins (í lið (e) í nmgr. [2] í þessari vefgrein minni). Farðu nú að kanna betur þær heimildir, sem helzt er treyst á í mínum tveimur greinum. Hvert er t.d. álit þitt, hins sjálfkjörna, demókratíska sérfræðings, á heimildagildi skrifa próf. Stacey og Biblarz, Tomeos og félaga, dr. Mariu Xiridou o.fél., læknanna Sheas og Wilsons og geðlæknisfræðiprófessorsins dr. George Rekers, svo að nokkrir séu nefndir? Haltu þér nú við aðalatriði í stað þess að fara út í spuna.

Lítið gerirðu úr vefsíðunni Catholic Educator´s Resource Center, en þar er mikil auðlegð greina, sumra á blaðamanns-stiginu, en aðrar eftir merka fræðimenn og fagfólk í ýmsum fræðigreinum, s.s. læknisfræði, heimspeki, sálfræði, geðlæknisfræði, félagsfræði o.fl. Takk samt, Magnús, fyrir að gefa mér ástæðu til að vekja athygli á þeim mikla sjóði greina um margvíslegar hliðar þessara mála, sem þar er að finna!

Þegar þú segir: "Rannsóknir á því hversu löng sambönd samkynhneigðir karlmenn eigi eða hvort þeir fái alnæmi hafa akkúrat ekkert með það að gera hvort börn skaðist af því að alast upp hjá samkynhneigðum," þá stenzt það náttúrlega engan veginn hjá þér. Þegar meðal-endingartími á samböndum homma er 0,75–2,25 ár (Xiridou, 2003) eða 83–85% sambanda homma og lesbía endast innan við þrjú ár (Saghir o.fl. 1973) eða 71% sambanda samkynhneigðra endist innan við 8 ár og 91% innan við 16 ár (könnun 2003-2004, allt kannanir sem birtar eru í þessari vefgrein minni [nmgr. [2]), er þá ekki augljóst, að skammæi þessara sambanda bendir ekki til traustrar undirstöðu fyrir börn á framfæri samkynhneigðra? Og ef lesið er víðar í tilvísaðri grein minni (takk fyrir að minna lesendur þína á hana líka), þá kemur nú ýmislegt fleira áhyggjuefnið í ljós. Ekki skal þó alhæfa um alla samkynhneigða út frá því, en það er dagljóst, að það er verið að stefna út í mikla áhættu og/eða hrollkalda óvissu með uppeldi þessara barna og fjarri því, að gögn bendi til þess, að "sjálfsagt" hafi verið að gefa samkynhneigðum þessi (frum)ættleiðingarréttindi 2. júní sl. Ástæðan fyrir því, að Ísland er nú orðið róttækast ríkja í samkynhneigðralöggjöf, er vel að merkja EKKI sú, að hér séu menn bezt upplýstir um þau mál, heldur einmitt gagnstæð ástæða: hér ríkir útbreidd vanþekking um málin. M.a.s. helzta "fræðiritið", Samkynhneigðir og fjölskyldulíf (2003), er víða furðu-gagnsætt, minnir þar í augum kunnugra fremur á áróðurspésa, sem birtir það eitt, sem henta þykir, og framreiðir að auki tölfræðilega rangar meginstaðhæfingar.

Ég á eftir að svara fleiri atriðum úr þessu innleggi þínu, en geymi það til morgundagsins.

Jón Valur Jensson, 9.2.2007 kl. 01:38

12 Smámynd: FreedomFries

Jón. Eins og ég sagði las ég yfir þessar greinar þínar og heimildirnar fyrir þeim, og þær urðu síst til þess að breyta áliti mínu á viðhorfum þínum. Eins og ég sagði eru heimildirnar sem þú vísar til ómarktækar. Svo einfalt er það nú. Ég sé ekkert að því að þú hafir skoðanir á þessu máli, en mér finnst að þú ættir að hætta að reyna að telja fólki trú um að þú byggir þær á einhverju öðru en trúarsannfæringu þinni. Það er hverjum manni frjálst að hafa trúarsannfæringu. En þú þykist byggja þessar skoðanir þínar á "heimildum" og vísindalegum rannsóknum.

Það er rétt að þú hefur ekki vísað til "Dr." Cameron í þeim greinum sem þú bentir mér á, en ein helsta heimild þessa Andrew Kulikovsky sem þú byggir hins vegar mikið á er þessi "Dr." Cameron. Það er ekki nóg með að Kulikovsky sé loddari, og greinin sem þú vísar til frekar ógeðfellt húmbúk, heldur er ein helsta heimild Kulikovsky maður sem hefur verið dæmdur bæði vanhæfur og hættulegur af sæmilega vitibornu og balanseruðu fólki. Þú notar, með öðrum orðum, grein sem "heimild" sem er skrifuð af loddara og byggir á "rannsóknum" manns sem hefur verið fordæmdur fyrir hate speech. Það þykir ekki til siðs í samræðum upplýstra og skynsamra manna að nota slíkar "heimildir".

Aðalatriði málsins, Jón minn, er að þú ert að reyna að fela fordóma þína gegn samkynhneigðum á bakvið "vísindi". Það er sama hversu mikið af tölfræði þú veifar - meðan þú byggir mál þitt á málflutningi manna á borð við Kulikovsky, sem reiðir sig á menn eins og Cameron, er erfitt fyrir skynsamt fólk að taka þig alvarlega.

En kannski er ég of harðorður. Það getur verið að andstaða þín til réttinda samkynhneigðra sé ekki byggð á hómófóbíu - það getur verið að þú virkilega trúir því að þessar "rannsóknir" og þessir "fræðimenn" sem þú vísar til séu marktækir. Það eru auðvitað ekki allir sem þekkja muninn á fræðimennsku og... ja, ég veit ekki alveg hvað ég á að kalla skrif Kulikovsky. Ég hvet þig því til að lesa alvöru fræðigreinar, skrifaðar af viðurkenndum fræðimönnum. Það væri ágætt ef þú t.d. byrjaðir á þessum greinum sem ég benti á - eins og ég sagði draga þær saman niðurstöður annarra rannsókna, og eru sæmilega aðgengilegar leikmönnum. Þangað til sé ég ekki ástæðu til að halda þessari samræðu áfram á þessum vettvangi.

Kær kveðja!

Magnús

FreedomFries, 9.2.2007 kl. 02:42

13 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ég hef skrifað fjölmargar greinar um mál samkynhneigðra, og ekki trónir Kulikovky þar hátt meðal heimildamanna minna, þannig að þetta er vindmylluslagur hjá þér Magnús minn, en þykir kannski hentugur hjá þér í stríðri vörninni, þegar aðrar baráttuaðferðir duga ekki til. Þar að auki hef ég einmitt varað mig á því að nota Cameron og er þó ekki að leggja endanlegt mat á stöðu hans, því að mér og mörgum öðrum hefur ekki sýnzt þessi bandarísku sálfræðingasamtök fyllilega hlutlaus á síðustu áratugum.

En það er einnig merkilegt, sem sumir veita kannski ekki eftirtekt, að þú svarar í raun engu af því, sem ég beindi til þín í síðasta pósti mínum, í 1. lagi um álit þitt á heimildagildi skrifa ýmissa fræðimanna sem ég raunverulega vísa til sem heimildarmanna í greinum mínum tilvísuðum (Kulikovky vitnaði ég í sem meðalgangara, ekki fræðimann, um það, sem birzt hafði í Time um heildarniðurstöðu viðhorfskönnunar meðal 10.000 bandarískra sálfræðinga árið 1977; heimildagildi þeirrar könnunar er jafnt fyrir því). Þú átt eftir að svara spurningu minni um það álit þitt á þeim fræðimönnum í ýmsum greinum og hvort þú hafir þá betri fræðimennsku að státa til að hafna því að taka mark á þeim. Það er ekki maður með sterkan málstað, sem ræðst á garð (fræðiheimildir mínar) þar sem hann virðist lægstur (Kulikovsky) í stað þess að glíma við framkomnar upplýsingar frá raunverulegum þungavigtarmönnum í viðkomandi faggreinum; þú auðveldaðir þér svar þitt með slíkum baráttuhætti, en veiktir það um leið!

Í 2. lagi benti ég á vissar niðurstöður rannsókna um skammæi sambúðartíma samkynhneigðra. Nú þókknast þér hins vegar engan veginn að svara því, þegar það er dregið hér skýrt fram, en reynir að viðra yfirlæti þitt gagnvart mér með málskrúði um "hómófóbíu" og öðru snakki, sem ekki er svaravert, enda hef ég vandað miklu betur heimildanotkun mína um þessi mál öll en t.d. meintir fræðimenn sem unnið hafa fyrir samkynhneigðra hér á landi, s.s. Þorvaldur Kristinsson og Rannveig Traustadóttir (alvarlegur kinnroði fyrir þá síðarnefndu birtist í tilvísaðri Morgunblaðsgrein minni, en fyrir Þorvald í þessari Fréttablaðsgrein minni 28. apríl 2005).

Vegna sífelldrar ágengni, gagnrýni og árása samkynhneigðra á greinaskrif mín á Kirkju.net hef ég þar að auki fulla ástæðu til að vanda til heimilda minna, og þær verða ekki kveðnar í kútinn með snakki einu saman né úreltum heimildum um ágæti uppeldis samkynhneigðra á börnum. Eða hefurðu lesið grein dr. Stacey og dr. Biblarz í American Sociological Review (apríl 2001, s. 159-183)? Þar viðurkenna prófessor og aðstoðarprófessor í félagsfræði í langri grein í öðru af tveimur virtustu tímaritum bandarískum í félagsfræði, að kollegar þeirra í stéttinni hafi hver um annan þveran verið að hnika til (raunar segja ósatt um) niðurstöður úr rannsóknum sínum á einmitt þessum uppeldismálum -- látið sem "enginn munur" sé á barnaupppeldi (og áhrifum þess) hjá hommum og lesbíum annars vegar og gagnkynhneigðum hins vegar, þegar allt annað kom í ljós; og þar er þá m.a.s. ekki verið að vísa til annarra rannsókna (sem eru líka til), heldur einmitt rannsókna þessara skreytnu félagsfræðinga sjálfra, því að rannsóknargögn þeirra (sem ekki voru birt í styttum "niðurstöðunum") sýndu verulegan ("considerable") mun á áhrifum hinna tveggja ólíku kynhneigðarhópa. Grein Stacey og Biblarz afhjúpaði í raun hneyksli í fræðaheiminum, hvernig margir félagsfræðingar höfðu falsað niðurstöður rannsókna sinna og haldið vísvitandi fram þeirri "no difference theory," sem Stacey og Biblarz kipptu fótunum undan -- með tilvísan til frumgana þeirra félagsfræðinga sjálfra!

Jón Valur Jensson, 9.2.2007 kl. 12:11

14 Smámynd: FreedomFries

Jón minn. Ég hef svarað öllum meginatriðum í þessari "röksemdafærslu" þinni - en fyrst þú vilt gera þessa grein Stacey og Biblarz að umtalsefni get ég ekki skotið mér hjá því að eyða á þig nokkrum orðum í viðbót. Það versta við þennan málflutning þinn, Jón, er að þú virðist annað hvort ekki hafa lesið þessa grein sem þú vísar til, eða ekki skilið hana. Stacey og Biblarz lýsa þvi yfir að þau séu ósammála andstæðingum réttinda samkynhneigðra, og fordæma rannsóknir sem hafa þóst sanna að börn samkynhneigðra bíði skaða af. Það stendur ekkert í greininni um að "kollegar þeirra í stéttinni hafi hver um annan þveran verið að hnika til (raunar segja ósatt um) niðurstöður úr rannsóknum sínum á einmitt þessum uppeldismálum" eins og þú heldur fram, og þá "kippa þau" ekki "fótunum undan" þeim rannsóknum, hvað þá afhjúpa eitthvað "hneiksli". Á blaðsíðu 176 segir: "The findings summarized in Tables 1 and 2 show that the "no differences" claim does recieve strong empirical support in crucial domains. Lesbigay parents and their children in these studies dispaly no differences from heterosexual counterparts in psychological well-being or cognitive functioning." og örlítið seinna: "Because every relevant study to date shows that parental sexual orientation per se has no measurable effect on the quality of parent-child relationsps or on children's mental health or social adjustment, there is no evidentiary basis for considering parental sexual orientation in decisions about children's "best interests". Ég get ekki alveg séð hvernig þessi niðurstaða styður hómófóbíska þvaðrið í þér Jón minn. Reyndar benda þau á að börn samkynhneigðra séu umburðarlyndari gagnvart samkynhneigð en annað fólk, og lítillega líklegri til að eiga samkynhneigð sambönd á fullorðinsárum. Kannski finnst þér umburðarlyndi eða samkynhneigð vera alvarlegir sjúkdómar? En Jón minn, það, eins og Stacey og Biblarz benda á, heitir hómófóbía. Í niðurstöðum sínum á blaðsíðu 179 segja Biblarz og Stacey að lokum: "while we disagree with those who claim that there are no differences between the children of heterosexual parents and children of lesbigay parents, [samanber orð mín að framan] we unequivocally endorse their conclusion that social science research provides no grounds for taking sexual orientation into account in the political distribution of family rights and responsibilitis."Það koma bara til tvær skýringar á þessari einkennilegu heimildanotkun þinni og rangfærslum á niðurstöðum Stacey og Biblarz: Annað hvort kannt þú ekki að velja og vísa til heimilda, skilur ekki muninn á mismunandi fræðisviðum, né kannt að lesa fræðigreinar, eða þú heldur að lesendur þínir og viðmælendur séu þessum ókostum búnir. Það getur verið að þú komist upp með að rangfæra fræðigreinar í skrifum þínum í Fréttablöð sem dreift er ókeypis, en menn sem hegða sér eins og þú eiga ekki heima í fræðilegri umræðu - og mér finnst að þú ættir að hætta að beita þeirri rökræðutækni, og halda þig á heimavelli. Ég mun ekki eyða meiri tíma í að ræða þetta mál við þig á þessum forsendum, enda ertu óviðræðuhæfur. Þú mátt túlka þá ákvörðun mína eins og þér sýnist, vafalaust heldurðu að þú hafir "kveðið mig í kútinn". Jæja. Þú um það.

Að lokum óska ég þér engrar velgengi á þessari skammarlegu krossferð þinni gegn jafnrétti og mannlegri reisn, en vona að þú getir fundið þann sálarfrið sem þig augljóslega skortir, og að þér verði fyrirgefið á hinsta degi.

Með vinsemd, Magnús

FreedomFries, 9.2.2007 kl. 21:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband